Fara í efni

ÞESS VEGNA HÆTTUM VIÐ AÐ STYÐJA OKKAR GAMLA FLOKK

Varðandi skrif þín um Alþjóða Gjaldeyrissjóðinn þá er ég sammála þér. En varðandi skuldamál heimilanna, þá voru mestu mistök vinstri stjórnarinnar þjónkun við fjármagnseigendur varðandi að láta hrunið og fáránlega hækkun verðbólguvísitölunnar lenda af fullum þunga á venjulegu launafólki. Margir fá ekki vaxtabætur af því að í ykkar kerfi mátti ekki eiga nokkrar milljónir eftir af fasteignamati. Í mínu tilfelli þá misstum við hjónin vinnuna og bjuggum við mjög lágar tekjur og neyddumst til að taka mun lægri launaða vinnu. En, húsnæðið var nýlegt og hátt mat á því. Síðan 2005 höfum við greitt af húsnæðisláninu sem var 17 milljónir 2005 en stendur í dag í 28,5 milljónum. Við horfðum á fólk fá fullar vaxtabætur með tvöföld okkar laun. En, við áttum á pappírunum 5 milljónir á mann og fengum því ekki krónu, heldur þurftum að borga aukalega RÚV skattinn og slíkt. Þetta var ykkar réttlæti. Þess vegna, já þess vegna ákvað mín fjölskylda að styða ekki lengur okkar gamla vinstrisinnaða flokk. Margir eru sárir og reiðir út í Samfylkingu og VG vegna þessa. Við horfðum á fólk sem var löngu hætt að borga fá fullar vaxtabætur og bjó frítt í húsnæði sínu. Þið gerðuð stór mistök í því að hjálpa eingöngu þeim sem áttu ekkert í húsnæðinu fyrir hrun hvort sem er. Það fólk hafði aldrei, og hefur ekki enn, neinn hvata eða greiðsluvilja til að halda áfram að borga. Eina von okkar er að nýja stjórnin muni hjálpa okkur til að geta staðið undir því oki sem fylgir því að borga af verðtryggðu íslensku okurláni. Okkar dæmi leit afar vel út á árinu 2005. Því miður lenti hrunið mjög harkalega á duglegu vinnusömu fólki eins og okkur. En, núna eignast útrásarvíkingar aftur Ísland gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans, sbr. viðtal við Inga Frey Vilhjálmsson blaðamann á Rás 2 í gær.
Margrét S.

Sæl Margrét og þakka þér bréfið. Ég hef margoft sagt að stærstu mistökin voru að nema ekki vísitöluna brott tímabundið haustið 2008 einsog ég reyndar lagði til þá sem formaður BSRB. Þar sem það var ekki gert hefði þurft að fara í almenna niðurfæslu í samræmi við tillögur Hagmunasamtaka heimilanna. Þessu barðist ég fyrir fram undir áramótin 2010. Þegar allt kom fyrir ekki var farið í að skattleggja fjármálastfofnanir og hækka sérstakar vaxtabætur. Ekki hin ídeala lausn - en tilraun í áttina sem skipti margar fjölskyldur miklu.
Kv.,
Ögmundur
sjá m.a.: https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/vangaveltur-ad-loknum-kosningum
https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/hage-thakkad-og-svarad