Til varnar tjáningarfrelsinu – Að stimpla „rangar skoðanir“ sem hatur
Með glórulausari gerningum forsætisráðuneytisins er mál nr. 2/2023. Það er tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn „hatursorðræðu.“ Áætlunin, í sautján liðum, var birt í „samráðsgátt“ þann 4. janúar síðastliðinn. Næsta mál gæti heitið „Varnir gegn illsku heimsins“, eða „Aðgerðaráætlun gegn ranglæti heimsins.“
Í tillögunni gegn „hatrinu“ er þó viðurkennt að: „Ekki liggur fyrir nein ein skilgreining á hugtakinu hatursorðræða sem sammælst hefur verið um, hvorki að þjóðarétti né landsrétti einstakra ríkja. Því er ljóst að hatursorðræða er ekki skýrlega afmarkað lögfræðilegt hugtak.“[i]
Síðan er vísað til alþjóðasamninga, m.a. vísað til 2. mgr. 20. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, og látið að því að liggja að ákvæði um „hatursorðræðu“ séu á „víð og dreif“, það þurfi bara að safna þeim saman í eitt skjal. Umrædd 2. mgr. hljóðar svo: „Allur málflutningur til stuðnings haturs af þjóðernis-, kynþáttar- eða trúarbragðalegum toga spunnið sem felur í sér hvatningu um mismunun, fjandskap eða ofbeldi skal bannaður með lögum.“[ii]
Eins og ákvæðið ber með sér er það verulega háð túlkun hverju sinni [matskennt]. Lög og alþjóðasamningar bera oft sterk einkenni ákveðinnar „hugmyndafræði“ sem endurspeglast í lagatextunum. Á alþjóðavettvangi birtist þetta yfirleitt þannig að „óvinaríkin“ eru sögð hafa uppi hatur, mismunun, fjandskap og ofbeldi.
Dómarar við Alþjóðastríðsglæpadómstólinn [eftir að hann var stofnaður] eru jafnvel kallaðir til vitnis um það að ákveðin ríki kunni að vera margvíslega brotleg. En „góða fólkið“, í „góðu ríkjunum,“ brýtur aldrei af sér, hugsar aldrei ljóta hugsun, og er „til fyrirmyndar“ í einu og öllu. Það er sama fólkið og síðan kemur saman og leggur drög að alþjóðasáttmálum gegn „hatri“ annara. Sumt af þessu „góða fólki“ leggur jafnvel á sig löng og erfið ferðalög til Davos, afskekkts smáþorps í Sviss. Þar eru með í för „hinir útvöldu“ guðs þjónar, s.s. John Kerry.[iii] Örn Arnarson kvað:
Mannúðin okkar manna
er mikil og dásamlig.
Við göngum svo langt í gæðum,
að guð má vara sig.[iv]
Mynd 1
Mynd 1 sýnir ráðherra í ríkisstjórn Íslands sem „AGENDA CONTRIBUTOR“ hjá World Economic Forum í Davos, árið 2018.[v] Svona lýsir góðmennskan sér, hún flæðir yfir heiminn, breiðir úr sér eins og stórfljót; umvefur allt með ást og hlýju, en umfram allt færir hún menningu og sérkenni ríkja í kaf.
Mikilvægur þáttur í því er þöggun og hefting tjáningarfrelsis. Þegar jarðlífi góða fólksins endar ferð það ekki í gamla Himnaríkið, eins og margir aðrir verða að sætta sig við, heldur fer það beint í nýtt himnaríki, sérhannað af færustu arkitektum. Þar utan dyra blakta fánar World Economic Forum og Evrópusambandsins.
Forsætisráðherra Íslands er í hópi góða fólksins. Öll verk ráðherrans [„ráðherrunar“] hljóta að bera þess glöggt vitni. Góða fólkið er svo gott að það þarf engan Guð, enda gengur það honum miklu framar að gæðum [og efnahagslífið miklu framar því sem gerist á Norðurlöndunum sagði fólk hjá Viðskiptaráði um árið].
[Yfirgengilegur kærleikur]
Hún er engum öðrum lík,
aldrei matið brenglar.
Katrín er svo kærleiksrík,
krjúpa Drottins englar.
Skilgreiningarnar
Menn eru stundum vændir um skort á „kurteisi“ þegar öðrum líkar ekki beinskeytt gagnrýni, borin fram á mannamáli. „Kurteisin“ ætti hins vegar aldrei að standa í vegi sannleikans. Þegar gagnrýnin tekur að harðna, og verður enn beinskeyttari, grípa stjórnvöld, og „aftanívagnar“ þeirra, til þess að stimpla orðræðu sem „hatur“ og „upplýsingaóreiðu“. Sama fólk telur sjálft sig fulltrúa „ástar“ og „réttra upplýsinga“.
Stóra vandamálið þarna verður ævinlega það hvernig menn ætla að skilgreina og hverjir eiga skilgreina. Raunvísindi, sem svo eru kölluð, taka breytingum. Þar er þó oft byggt á mun traustari grunni en á við um þau fræði sem reyna að skilgreina jafn þokukennd hugtök og „hatur“.
Hér verða ekki ræddar kenningar um „sannleikann“ sem slíkan, s.s. samsvörunarkenningin [The Correspondence Theory of Truth]. En sú kenning gengur í stuttu máli út frá því að samsvörun sé á milli „sannleikans“ og „raunveruleikans“.[vi] „Sannleikurinn“ er samkvæmt því það sem vísar til „raunveruleikans“. Það mál flækist þó verulega ef „raunveruleikinn“ er háður skynfærum mannsins, sérstaklega sjón og heyrn.
Stóra spurningin þar er hvort til er einhver sjálfstæður, óháður raunveruleiki, óháður skynfærum og tilvist þess sem skynjar, eða hvort „raunveruleikinn“ er ævinlega háður skynjun. Sumir kunna að segja að „raunveruleikinn“ sé sá sami, óháð þeim sem skynjar hann. Þá kemur upp nýtt vandamál. Hvernig ætla menn að komast fram hjá takmörkunum skynfæranna og fá þannig „beinan aðgang“ að „raunveruleikanum“, máli sínu til stuðnings?
Spurningunni um það hvað er „hatur“ verður heldur ekki svarað í eitt skipti fyrir öll. Svarið verður ævinlega háð mati. Hins vegar tala sumir stjórnmálamenn eins og það ríki einhver sameiginlegur skilningur á hugtakinu „hatur“. Það er svo fjarri því.
„Hatursorðræðan“
Þeir sem reynt hafa að skilgreina „hatursorðræðu“ gera það gjarnan með vísan til einstakra ákvæða í lögum og alþjóðasáttmálum [sbr. 2. mgr. 20. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi]. Hugtakið „hatursorðræða“ hefur þó enga samþykkta skilgreiningu í alþjóðarétti,[vii] eins og vikið er að hér að framan.
Á hinn bóginn er tjáningarfrelsið varið undir 19. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi,[viii] enda þótt rétturinn sé háður vissum takmörkunum. Oft er litið svo á að í tjáningarfrelsinu felist m.a. „rétturinn til að móðga“ aðra. Skortur á „kurteisi“ er þannig mjög ólíklegur til þess að falla undir réttmætar takmarkanir á tjáningarfrelsi.
Orðalag 20 gr. nefnds alþjóðasamnings hefur sjaldan, eða aldrei, náð að skjóta rótum í innlendri lagasetningu ríkja. Í sumum lögum er ekki vísað til „hvatningar“ (incitement) heldur notuð hugtök eins og að „æsa upp“ (stirring up), „ögrun“ (provocation) eða „ógnandi umræða“ (threatening speech). Það að ekki sé vísað til „hvatningar“ [sbr. 2. mgr. 20. gr. ASÞBSR] í lagatextum bendir til þess að annað hvort sé ekki vilji í viðkomandi ríkjum til þess að taka upp orðalag 20. gr. samningsins, eða þá að vitneskju skortir [sem verður að teljast afar ólíkleg skýring].[ix]
„Hatur“ samkvæmt 20. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna þarf að meta í ljósi eftirfarandi:
- alvarleika;
- ásetnings;
- innihaldi;
- umfangi, einkum hið opinbera eðli umræðunnar;
- hversu yfirvofandi;
- líkur á því að aðhafst sé;
- samhengi [x]
Hver og eitt þessara atriða þarf síðan aftur að meta með ákveðnum prófum [tests] eins og títt er í lögfræði og einnig rýna dóma. Af þessu má sjá að það er engin skýr skilgreining á „hatursorðræðu“ sem síðan er hægt að skylda fólk til að tileinka sér. Það gæti hins vegar komið til greina að skylda alla alþingismenn í greindarpróf ásamt með námskeiði í mannréttindum almennt. Þar væri t.a.m. gerð grein fyrir „fyrstu kynslóðar mannréttindum“ [borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi], „annarar kynslóðar mannréttindum“ [félagsleg, efnahagsleg og menningarleg réttindi], auk „þriðju kynslóðar mannréttindum“ [stundum nefnd „samstöðuréttindi“]. Undir þau síðastnefndu fellur t.d. réttur til þróunar, réttur til friðar, réttur til heilbrigðs umhverfis og til mannúðaraðstoðar.[xi]
Námskeiðið fæli ekki í sér innrætingu, eins og raunin er um þingsályktun forsætisráðherra, heldur einungis eins hlutlausa fræðslu og kostur er. Ritskoðun hugmynda og tjáningar gengur gegn borgaralegum réttindum. Það sætir mikilli furðu að nokkur núlifandi stjórnmálamaður skuli leggja slíkt til og jafnvel færa fyrir þjóðþing.
Þegar blaðrið dugar ekki lengur [dugði það einhvern tímann?], og fólk sér í gegnum innihaldsleysið, er næsta skref að leggja til bann við umræðu. Þá er hægt að mæta erlendis á fundi þjóðarleiðtoga, brosa í myndavélar [passa sig vel á því að lenda ekki út úr rammanum], taka í hendur sömu leiðtoga og sleppa þeim ekki fyrr en ljóst þykir að enginn hafi misst af sjónarspilinu.
Það má fullyrða að vélmenni, með góða gervigreind, myndu standa sig mun betur sem fulltrúar Íslands en sumt af því fólki sem um ræðir. Bros vélmenna mætti auk þess forrita eins og menn telja hæfa, miðað við tilefni og fundi sem sækja skal. Vélmenni þessi yrðu þjóðinni til sóma [sem er meira en hægt er að segja um suma ráðherra].
Gervigreindin myndi tryggja lágmarks raupsemi vélmennanna, s.s. um það að Ísland ætli að verða „best í heimi“ og taka forystu í því að opna landamæri, opna landið fyrir hverjum sem er, án þess svo mikið sem kanna bakgrunn manna. Vélmennin myndu vitaskuld strax átta sig á því að stjórnleysi leiðir sjaldan, ef nokkurn tímann, til farsældar. Gott vélmenni myndi enn fremur leita leiðsagnar þjóðarinnar [þjóðaratkvæðagreiðsla] þegar um er að ræða stórmál s.s. orkumál, málefni flóttamanna og tjáningarfrelsið og ekki stimpla aðrar skoðanir sem „hatur“. „Minna bros og meira vit“ gæti verið kjörorð vélmennanna.
[Minna bros og meira vit]
Vélmennin með varalit,
væru nærri kjarna.
Minna bros og meira vit,
mætti nota þarna.
Í bandarískum lögum er engin skilgreining á „hatursorðræðu“, ekki frekar en á „illskulegum hugmyndum“, „dónaskap“, „óþjóðhollri umræðu“ eða hvers kyns tjáningu sem kann að hljóta fordæmingu.[xii]
„Hatursorðræða“ nýtur verndar samkvæmt fyrsta viðauka við bandarísku stjórnarskránna [First Amendment]. Dómstólar framlengja verndina á þeirri forsendu að stjórnvöldum beri, samkvæmt fyrsta viðaukanum, að tryggja öfluga umræðu um málefni sem snerta almenning, jafnvel þegar slík umræða verður „ósmekkleg“, „móðgandi“ eða „hatursfull“, þannig að valdi sorg, reiði eða ótta annarra. [Sjá einnig dóm Hæstaréttar Bandaríkjanna í málinu Snyder v Phelps[xiii]].
Samkvæmt fyrsta viðaukanum er einungis mögulegt að refsa[xiv] vegna „hatursorðræðu“ þegar hún hvetur beint til glæpastarfsemi eða inniheldur sérstakar hótanir um ofbeldi sem beinast gegn einstaklingi eða hópi.[xv]
Tjáningarfrelsið og orkumálin
Gunguskapurinn á Alþingi Íslendinga afhjúpaðist eftirminnilega í aðdraganda innleiðingar orkupakka þrjú. Stjórnarflokkarnir, og flestir flokkar í stjórnarandstöðu, sannmæltust um að reyna að þegja málið í hel. Þeim varð þó sannarlega ekki kápan úr því klæðinu. Stofnuð voru samtökin Orkan okkar sem berjast fyrir innlendri stjórnun orkumála.
Reynt var að stimpla ræður þingmanna sem héldu uppi vörnum íslenskra hagsmuna í málinu sem „málþóf“. Meðvirkt fjölmiðlafólk taldi sér skylt að jarma með og bergmála það litla sem þó kom frá stjórnvöldum sem mest var bæði rangt og villandi. Sumir þingmenn sýndu, svo ekki varð um villst, að þeir botnuðu hvorki upp né niður í málinu. Það á t.d. við um flestalla þingmenn pírata sem á annað borð tjáðu sig um málið.
Að framan er lýst ástandinu á Alþingi. Allt annað var hins vegar uppi á teningnum í þjóðfélaginu almennt. Þar lýstu margir skoðunum sínum, oft mjög vel rökstuddum, og mæltu eindregið gegn innleiðingu orkupakkans. Má nefna fyrrverandi ráðherra, s.s. Tómas Inga Olrich,[xvi] Ögmund Jónasson, Guðna Ágústsson og Jón Baldvin Hannibalsson.
Ýmsir ágætir verkfræðingar héldu einnig uppi mjög málefnalegri umræðu gegn þriðja orkupakkanum og rituðu prýðilegar greinar. Þar koma t.d. við sögu Dr. Jónas Elíasson, Bjarna Jónsson, Elías Elíasson og fleiri sem of langt mál væri að telja. Eru þá enn ótaldir fjölmargir aðrir, s.s. lögmenn sem birtu upplýsandi skrif um innleiðingu orkupakkans og mögulegar kröfur síðar, á hendur íslenska ríkinu, vegna mála sem pakkanum tengjast.[xvii] „Ekki veldur sá er varar“ segir gamalt máltæki. Það á vel við þarna.
Þau sjónarmið (og gagnrýni) sem þarna koma fram voru möguleg í krafti tjáningarfrelsisins sem aftur er varið í stjórnarskrá, undir 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem og undir 19. gr. alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, eins og komið er fram.
Á heimasíðu Campaign for Free Expression er athyglisverð grein frá 2. júní 2022. Hún nefnist Tjáningarfrelsið og orkukreppan (Freedom of expression and the energy crisis). Þar er rætt um orkumálin í Suður-Afríku. „Umræðan um orku í Suður-Afríku skiptir sköpum fyrir framtíð hagkerfis okkar. Viljum við og þurfum gas? Er kjarnorka örugg? Er framtíð í kolum? Er stjórnendum Eskom treystandi? Er auðlindaráðherra í vasa orkufyrirtækja sem leggja fram gjafir til flokks hans? Þetta eru allt mikilvægar spurningar, en engum er hægt að svara á áreiðanlegan hátt án frjálss upplýsingaflæðis og kröftugrar umræðu, þar sem allir telja sig geta sagt sína skoðun.“[xviii]
Frjálst upplýsingaflæði tengist margvíslega viðskiptum. Margar viðskiptaákvarðanir eru háðar gögnum og upplýsingum. Þær verða mun ónákvæmari, óáreiðanlegri og síður tiltækar í samfélagi án frjálss upplýsingaflæðis.[xix]
Að lokum
Það er vafalaust að tjáningarfrelsi er meðal mikilvægustu mannréttinda borgaranna. Það er tryggt samkvæmt ákvæðum í stjórnarskrám ríkja [sbr. 73. gr. íslensku stjórnarskrárinnar], og í ákvæðum alþjóðasáttmála. Þótt réttur til tjáningarfrelsis sé ekki skilyrðislaus þarf þó gríðarlega mikið til að koma, (mikilvægir almannahagsmunir) ef hann á að takmarka, þótt stjórnvöldum kunni að þykja ákveðin umræða óþægileg. Í 3. mgr. íslensku stjórnarskrárinnar segir: „Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra,[xx] enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.“
Það má fullyrða að ritskoðun er ekki í samræmi við íslenska lýðræðishefð [eins og hún hefur þróast frá 1944]. Enda segir í 2. mgr. 73. gr. „Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.“
Að stimpla skoðanir annara sem „hatursorðræðu“ og „upplýsingaóreiðu“ nær ekki nokkurri átt. Því má jafnvel halda fram að ekkert sé til, í ströngum skilningi, sem hægt er að fella undir „hatur“, einungis mismunandi vel rökstuddar og siðlegar skoðanir. Ef skoðun er illa rökstudd, og jafnvel „ósiðleg“ í þokkabót, er hún ekki líkleg til þess að fá framgang á markaðstorgi hugmyndanna. Upplýst fólk lætur einfaldlega ekki bjóða sér hvað sem er. Hitt þarf og að hafa í huga að jafnvel mjög vel rökstuddar skoðanir (þar sem tíminn leiðir í ljós að voru þær sem farsælast hefði verið að fylgja) verða ekki ævinlega ofan á. Þar kemur oft við sögu þöggun og misbeiting fjölmiðla. Góðar stundir!
[i] Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu 2023–2026.
[ii] Lagasafn. Alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.
[iii] Sjá t.d.: John Kerry Claims To Be ‘Chosen by God’ To Help Usher In the Great Reset? https://www.youtube.com/watch?v=LE9PzreM4UA
[iv] Eimreiðin - 1.-2. tölublað (01.01.1920). https://timarit.is/page/2328315?iabr=on#page/n26/mode/2up
[v] World Economic Forum. https://www.weforum.org/agenda/authors/katrin-jakobsdottir
[vi] The Correspondence Theory of Truth. The Stanford Encyclopedia of Philosophy. https://plato.stanford.edu/entries/truth-correspondence/
[vii] Sjá t.d.: McMillan, A. (17 January 2022). Hate speech versus free speech. International Bar Association. https://www.ibanet.org/Hate-speech-versus-free-speech
[viii] International Covenant on Civil and Political Rights, New York, 16 December 1966, United Nations Treaty Series, vol 999, No. 14668, Art. 19, available from: https://www.ohchr.org/en/instruments-mechanisms/instruments/international-covenant-civil-and-political-rights
[ix] UN OHCHR, Bukovska, B., Callamard, A. and Parrmer, S. Towards an interpretation of article 20 of the ICCPR: Thresholds for the prohibition of incitement to hatred (Work in Progress), 2011 Expert workshops on the prohibition of incitement to national, racial or religious hatred, (Vienna, 9-10 February 2011). Available from: https://www2.ohchr.org/english/issues/opinion/articles1920_iccpr/docs/crp7callamard.pdf
[x] Ibid.
[xi] Sjá t.d.: Council of Europe [Evrópuráðið]. The evolution of human rights. https://www.coe.int/en/web/compass/the-evolution-of-human-rights
[xii] "Hate Speech and Hate Crime", American Library Association, December 12, 2017. http://www.ala.org/advocacy/intfreedom/hate (Accessed January 27, 2023). Document ID: aa35c1c7-f3aa-4b07-964f-30dcf85a503c
[xiii] Snyder v. Phelps, 562 U.S. 443 (2011). https://supreme.justia.com/cases/federal/us/562/443/
[xiv] Sjá einnig: Almenn hegningarlög nr. 19/1940 með síðari breytingum, XXV. kafla.
[xv] "Hate Speech and Hate Crime", op. cit.
[xvi] Sjá t.d. ágæta grein Tómasar: Tómas Ingi Olrich. (2019). Hvað er í pakkanum? Morgunblaðið, 12. febrúar. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1713818/
[xvii] Sjá t.d.: Atli Ingibjargar Gíslason, Björgvin Þorsteinsson, Jón Magnússon og Tómas Jónsson. (2019). Orkupakkinn gæti leitt til milljarðatjóns fyrir ríkissjóð. Morgunblaðið, 7. ágúst. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1729428/
[xviii] Column, H. (2 Jun 2022). Freedom of expression and the energy crisis. Free Expression. https://freeexpression.org.za/freedom-of-expression-and-the-energy-crisis/
[xix] Ibid.
[xx] Svartletrun mín.