Fara í efni

Björgólfur sýnir Kjarval

  Að öllu leyti þykir mér koma fram meiri ábyrgð í afstöðu Björgólfs Guðmundssonar, formanns bankaráðs og jafnframt eins af aðaleigendum Landsbankans, en á sínum tíma kom fram hjá bankamálaráðherranum Valgerði Sverrisdóttur. Á Alþingi var hún spurð hvort mat hefði verið lagt á listaverkaeign Landsbankans og hvort ekki hefði verið eðlilegra að undanskilja þessa þjóðareign, sem varðveitt var í þessum banka þjóðarinnar og fela hana í umsjá Listasafns Íslands eða annars aðila til að tryggja áframhaldandi eign þjóðarinnar á verkunum þegar bankinn var seldur. Engin bitastæð svör komu frá ráðherranum. Þvert á móti sýndi hún fullkomið sinnuleysi. Málið hafði ekki einu sinni verið rætt! Á baksíðu Morgunblaðsins í dag segir: " Í eigu Landsbankans eru um 1200 málverk eftir alla helstu listmálara þjóðarinnar á síðustu öld. Er þetta eitt merkasta safn sinnar tegundar í einkaeign á Íslandi. Aðspurður sagði Björgólfur að listaverkaeign Landsbankans væri ómetanleg til fjár og í sínum huga væru þetta menningarverðmæti sem bankinn hefði ákveðnum skyldum að gegna við að varðveita og kynna." Þetta er gott af heyra og ástæðulaust að beina nokkurri gagnrýni að Björgólfi Guðmundssyni þegar hann opnar nú stoltur sýningu á 40 Kjarvalsmálverkum, sem honum og félögum áskotnaðist í viðskiptum við Valgerði Sverrisdóttur bankamálaráðherra og einkavæðingarnefnd Davíðs Oddsonar. Þeirra framganga er hins vegar meira en lítið ámælisverð. Þeim hefur verið falið að gæta hagsmuna þjóðarinnar. Þetta er enn eitt dæmið um hvernig þau hafa afhent þjóðareignir á silfurfati. Til upprifjunar eru hér tilvísanir í umfjöllun hér í Brennidepli þegar þetta mál var í brennidepli á sínum tíma.

https://www.ogmundur.is/is/greinar/gleymskan-er-glopska=

https://www.ogmundur.is/is/greinar/meira-um-malverkin=