Fara í efni

EINKAVINAVÆÐING Á KEFLAVÍKURFLUGVELLI?

Óhætt er að segja að lítil sé hrifning almennings á því ráðslagi að einkavæða öryggisgæsluna á Keflavíkurflugvelli. Páll Winkel, framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna og Guðbjörn Guðbjörnsson, formaður Tollvarðafélags Íslands, benda á það í viðtölum í Morgunblaðinu í dag að enda þótt farið hafi verið út á þessa braut sums staðar erlendis, þá hafi það gefist illa og vísa þeir þar sérstaklega til afleitrar reynslu Dana. Þá segja þeir réttilega að almenn löggæsla eigi að vera á hendi opinberra aðila sem starfa undir sérstökum lögum sem um hana gilda, svo og lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Páll segir:”Öryggisgæsla hlýtur alltaf að eiga að falla undir verksvið ríkisins og opinberra starfsmanna, þar sem hún snýst alltaf að hluta til um að halda uppi allsherjarreglu og standa vörð um þjóðaröryggi..Öryggisfyrirtæki eru óneitanlega rekin í hagnaðarskyni og þar með eru öryggissjónarmið hugsanlega fyrir borð borin..."
Páll Winkel tekur fram í viðtali við Morgunblaðið að hann hafi ekkert á móti einkavæðingu sem slíkri og í raun sé það hans mat að víða mætti stuðla að meiri einkavæðingu. Verkefni sem lúti að öryggi borgaranna séu þó þess eðlis að þeim sé alltaf betur borgið í höndum opinberra aðila: "Við getum ekki heldur gleymt því að allt aðrar kröfur eru gerðar lögum samkvæmt til opinberra starfsmanna en til starfsmanna einkafyrirtækja. Ég tala nú ekki um lögreglumenn og tollverði, en þar er um að ræða embættismenn sem miklar kröfur eru gerðar til."

Guðbjörn Guðbjörnsson, formaður Tollvarðafélags Íslands, segir í umræddu Morgnblaðsviðtali: "Það hefur sýnt sig að þegar verkefni á borð við þetta eru boðin einkaaðilum getur það haft hættu í för með sér. Vinnubrögðin eru ekki hin sömu og okkur þykir furðulegt að öryggisleit fari fram við þessar aðstæður." Guðbjörn bendir jafnframt á það í viðtalinu að það auðveldi alla samvinnu öryggisyfirvalda á flugvellinum ef opinberir starfsmenn annist öryggisleitina.

Í fjölmiðlum hefur komið fram að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra hafi efasemdir um að taka þetta verkefni úr höndum lögreglu og ekki hefur komið fram nein hrifning hjá sýslumanni á Keflavíkurflugvelli, Jóhanni R. Benedikssyni sem vill lítið tjá sig um málið enda sé það pólitískt í eðli sínu.

Eftir stendur þá spurningin, hver er það sem tekur hina pólitísku ákvörðun? Í forsvari í fjölmiðlum hefur verið Björn Ingi Knútsson, flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvelli. Tók flugvallarstjórnin þessa ákvörðun eða var það utanríkisráðherrann, en vel að merkja þá heyrir Keflavíkurflugvöllur undir utanríkisráðuneytið og er Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra því ábyrg fyrir því sem þarna er að gerast fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, sem að sjálfsögðu endanlega ber ábyrgðina.

Sú spurning sem óneitanlega vaknar er hvort hér sé á ferðinni þjónkun við einakfyrirtæki, sem vilja hagnast á þessari starfsemi. Það hefur verið kallað einkavinavæðing. Á henni er þjóðin búin að fá sig fullsadda.