EINKAVINAVÆÐING Á KEFLAVÍKURFLUGVELLI?
Óhætt er að segja að lítil sé hrifning almennings á því ráðslagi að einkavæða öryggisgæsluna á Keflavíkurflugvelli.
Guðbjörn Guðbjörnsson, formaður Tollvarðafélags Íslands, segir í umræddu Morgnblaðsviðtali: "Það hefur sýnt sig að þegar verkefni á borð við þetta eru boðin einkaaðilum getur það haft hættu í för með sér. Vinnubrögðin eru ekki hin sömu og okkur þykir furðulegt að öryggisleit fari fram við þessar aðstæður." Guðbjörn bendir jafnframt á það í viðtalinu að það auðveldi alla samvinnu öryggisyfirvalda á flugvellinum ef opinberir starfsmenn annist öryggisleitina.
Í fjölmiðlum hefur komið fram að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra hafi efasemdir um að taka þetta verkefni úr höndum lögreglu og ekki hefur komið fram nein hrifning hjá sýslumanni á Keflavíkurflugvelli, Jóhanni R. Benedikssyni sem vill lítið tjá sig um málið enda sé það pólitískt í eðli sínu.
Eftir stendur þá spurningin, hver er það sem tekur hina pólitísku ákvörðun? Í forsvari í fjölmiðlum hefur verið Björn Ingi Knútsson, flugvallarstjóri á Keflavíkurflugvelli. Tók flugvallarstjórnin þessa ákvörðun eða var það utanríkisráðherrann, en vel að merkja þá heyrir Keflavíkurflugvöllur undir utanríkisráðuneytið og er Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra því ábyrg fyrir því sem þarna er að gerast fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, sem að sjálfsögðu endanlega ber ábyrgðina.
Sú spurning sem óneitanlega vaknar er hvort hér sé á ferðinni þjónkun við einakfyrirtæki, sem vilja hagnast á þessari starfsemi. Það hefur verið kallað einkavinavæðing. Á henni er þjóðin búin að fá sig fullsadda.