Ekki meira klúður – nú þarf árangur
Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hefur um árabil leitað allra ráða til að verja sparisjóðina í landinu og styrkja þá í sessi. Þegar lögum um fjármálafyrirtæki var breytt á síðasta þingi var fulltrúi VG í Efnahags og viðskiptanefnd einn um minnihlutaálit. Þar var ítarlega gerð grein fyrir afstöðu þingflokksins en nú hefur komið á daginn að varnaðarorð okkar reyndust eiga við rök að styðjast.
Í álitsgerð VG sagði m.a. um þetta tiltekna mál og tengd þingmál: "Meginástæða þess að minni hlutinn getur ekki stutt frumvarpið ... er sú að með því er ekki staðið við fyrirheit sem gefin voru í sumar um að lögfest yrði bann við braski með stofnfjárhluti sparisjóða. Gengið er enn lengra og stuðlað að hlutafjárvæðingu sparisjóðanna.... Á fyrstu dögum þingsins lagði þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fram frumvarp þar sem kveðið var á um bann við því að selja stofnfjárhluti í sparisjóðum nema á verðbættu nafnverði. Þá var frumvarpi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ætlað að afnema heimild um að breyta sparisjóðum í hlutafélög og var lagt til að menn gæfu sér tíma til að skoða málið frá grunni." Því miður studdu aðrir þingflokkar ekki þessar tillögur VG.
Eftir að nýjasti kaflinn í SPRON málinu hófst um síðustu áramót, þar sem stofnfjáreigendur blésu að nýju til sóknar, nú í nánu samráði við sjálfan sparisjóðsstjórann og stjórn sjóðsins, óskaði þingflokkur VG eftir því að Efnahags- og viðskiptanefnd kæmi saman til fundar og að kallaðir yrðu henni til ráðuneytis fulltrúar sparisjóðanna í landinu.
Í þinflokki VG var ákveðið að leggja ekki að sinni fram frumvarp þar sem girt væri fyrir að sparisjóðirnir yrðu gerðir að hlutafélögum í anda þess sem við áður höfðum gert þótt okkur væri ljóst að með því móti einu væri gengið hreint til verks. Við ákváðum hins vegar að bíða átekta bæði vegna þess að við vildum heyra álit fulltrúa saprisjóðanna og einnig vegna hins að ef takast ætti að skapa þverpólitíska samstöðu um málið yrði að leita samkomulags. Eftir samkomulagi myndum við hins vegar leita að afloknum fundi með sparisjóðunum í Efnahags- viðskiptanefnd. En sá fundur lét hins vegar standa á sér eins og kunnugt er vegna deilna um hver mætti segja hvað í nefndinni (https://www.ogmundur.is/is/greinar/hver-ma-tala-um-spron ).
Í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld sagði að þingflokkar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hefðu í dag samþykkt frumvarp, sem þessir flokkar telja vera til málamiðlunar á milli þeirra sem ekkert vilja gera og hinna sem helst kysu að gengið yrði hreint til verks í SPRON-málinu. Athygli vakti að ekki var fréttatími Sjónvarps liðinn fyrr en forsætisráðherra hafði hringt og lýst því að ranghermt væri að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefði samþykkt frumvarpsdrögin.
Nú höfum við ekki efni á meira klúðri í tengslum við þetta mál. Auðvitað áttu höfundar að frumvarpsdrögunum, sem nú eru komin fram, að vanda sig betur varðandi samráð við alla aðila einnig þann þingflokks sem tók frumkvæði í þessu máli. VG heffur gefið það út að þingflokkurinn er reiðubúinn að skoða málamiðlanir ef þær þoka málinu í rétta átt. . Hvað snertir sparisjóðina vakir aðeins eitt fyrir VG: Að standa um þá vörð og tryggja þeim framtíð.