Fara í efni

ALLT SEM VIÐ MISSTUM Í ELDINUM

Það er ekki alveg átakalaust að lesa bók Mariönu Enriquez, Allt sem við misstum í eldinum.
Ég vissi ekki alveg hvað ég átti að halda, en náði jarðsambandi við lestur á prýðilegum epilóg Kristínar Guðrúnar Jónsdóttur. Mér þykir það vera góður siður hjá Angústúruútgáfunni, sem gaf bókina út, að birta í bókarlok vangaveltur kunnáttufólks um þýddar bækur, sérstaklega þegar textinn er langt að kominn, úr fjarlægum menningar- og reynsluheimi.

Kristín Guðrún botnar vangaveltur sínar með sömu spurningu og brann á mínum vörum og verð ég að játa að mér létti við að sjá hana. Og spurningin er þessi: “Eru þetta hryllingssögur, hrollvekjur sem leika sér að því að láta lesandanum líða illa? Eða sögur um raunverulegan hrylling?”
Kristín Guðrún er vinveitt höfundi og minnir á það að á sögusviðinu, Argentínu á öldinni sem leið, er að finna mikinn hrylling af völdum sárrar fátæktar þeirra sem bjuggu við ömurlegust kjörin og svo í lífisreynslu þess fólks sem sætti ofsóknum frá hendi herforingjastjórna, einkum á áttunda og níunda áratugnum, þegar mannrán og morð að undirlagi valdhafanna urðu daglegt brauð. Höfundurinn sé með örðum orðum að fást við “raunverulegan hrylling.”

Afleiðingarnar hafi hjá mörgum orðið veruleikaflótti, sem aftur blandist trú á drauga og allt hið óræða í tilverunni.
Þetta eru víddir sem koma þeim sem vaxnir eru upp úr íslenskum arfi ekki spánskt fyrir sjónir og ofan úr eðalplómutré austur í Íran hafði einnig mátt sjá inn í áþekkan veruleika í bók Shokoofeh Azar sem Angústúra færði okkur í íslenskri þýðingu ekki alls fyrir löngu. (http://ogmundur.is/greinar/2021/01/fegurd-frelsisins )


Vissi maður ekkert um bókina og höfund hennar gæti maður þó gefið sér eitt að lestri loknum: Höfundurinn er kona og hún er ekki komin yfir miðjan aldur. Þekkir ekki bara rokk heldur líka pönk og stutt í meetoo. Þrátt fyrir veikleika margra kvennanna í bókinni eru þær alltaf á sinn hátt sterkar og það eru þær sem lesandinn stendur alltaf með. Mariana Enriquez beinir sjónum skarpt að ofbeldi gegn konum og er alltaf meira en tilbúin að sjá lestina og veikleikana í karlkyninu. Stundum svolítil Yrsa Sigurðardóttir, Íslenska glæpasagnadrottnigin, þarna líka á ferðinni þykir mér en hún er sérlega lunkin við að draga upp kómíska mynd af hinum eigingjarna, fáfengilega og stundum ofbeldisfulla karlmanni.
Annars minna smásögurnar í þessari bók mig öðru fremur á smásögur Roalds Dal þegar hann lýsir inn í hugarheim fólks sem er til alls víst.

Sögurnar í bókinni Allt sem við misstum í eldinum eru allar örstuttar en þegar leið á bókina fann ég mig í að vera farinn að kvíða sögulokum fljótlega eftir miðbik hverrar sögu. Það er vel af sér vikið í svo stuttum sögum að vekja svo sterk viðbrögð en sennilega til vitnis um að einmitt þetta hafi vakað fyrir höfundinum og vaknar þá aftur spurningin um það hvað vaki fyrir honum. Þykir höfundi ef til vill ekkert verra að við skjálfum svoldið?
Í framhaldi en þó nánast í framhjálhlaupi spyr ég hvort geti verið að ónotatilfinningin hafi einnig náð til prófarkelesara, að þeir hafi fyrir vikið farið á köflum hratt yfir prýðlega þýðingu Jóns Halls Stefánssonar og á hlaupunum hleypt inn í endanlega textann of mörgum villum, einkum tvítekningu orða?

En hvað sem slíkum smámunum líður segi ég nú sem oftar við aðstandendur Angústúru: Takk fyrir mig!