Enn atlaga að sparisjóði - lagasetning verði könnuð
Í DV í dag er slegið upp á forsíðu átökum um Sparisjóð Hólahrepps og tilraunum forsvarsmanna Kaupfélags Skagfirðinga að ná sjóðnum undir sig. Nokkra athygli vakti í tengslum við SPRON málið í upphafi árs og lagabreytingar í kjölfarið að kaupfélagsstjórinn á Sauðárkróki, sem jafnframt er stjórnarformaður VÍS, Þórólfur Gíslason, beitti sér í nafni kaupfélagsins við Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að gerðar yrðu breytingar á lögum sem auðvelduðu kaupfélaginu yfirtöku á Sparisjóði Hólahrepps. Um þetta fjallaði ég á sínum tíma hér á heimasíðunni (sjá hér). Þær spurningar vakna hvað vaki fyrir þessum aðilum. Getur verið að VÍS sé að ná sér í banka á ódýran hátt. Bankaleyfi kostar fleiri hundruð milljónir en þarna fengju menn slíkt leyfi upp í hendurnar á auðveldan hátt. Til þess að koma í veg fyrir að stórir aðilar misnoti sparisjóðina gildir sú regla að enginn stofnfjáreigandi getur farið með meira en 5% atkvæðamagn í stjórninni. Þessu sjá þeir kaupfélagsmenn við með því að raða inn í stjórnina fulltrúum frá ýmsum dótturfyrirtækjum kaupfélagsins. Fjármálaeftirlitið hefur verið spurt hvort þetta standist lög en einhverra hluta vegna virðist eftirlitið lamað þegar um það er að ræða að taka á afgerandi hátt á þessu máli sem snertir forsvarsmenn Kaupfélags Skagfirðinga. Eftir því sem ég best veit hefur enginn afgerandi úrskurður komið í þessu máli og hefur Fjármálaeftirlitið stillt málinu þannig upp að sönnunarbyrðin hvíli á þeim sem réttur er brotinn á. Þingflokkur VG kannar nú hvort unnt sé að breyta sparisjóðalöggjöfinni til þess að koma í veg fyrir yfirtöku og yfirgang af þessu tagi.