ER AÐ HEFJAST EINKAVÆÐING LÖGGÆSLUNNAR?
Fyrir nokkru síðan komu opinberlega fram hörð mótmæli gegn því að öryggisgæsla og vopnaleit á Keflavíkurflugvelli hefði verið einkavædd að hluta til. Á meðal þeirra sem mótmæltu voru forsvarsmenn Öryrkjabandalags Íslands, sem sögðu félagsmenn sína hafa kunnað því illa að þurfa að sæta nærgöngulli vopnaleit af hálfu starfsmanna einkafyrirtækis.
Starfsmenn einkafyrirtækja eru að sjálfsögðu alls góðs maklegir, ekkert síður en opinberir starfsmenn. Munurinn er hins vegar sá að um löggæsluna og þá sem annast hana gilda ákveðin lög sem sett hafa verið til þess að verja og vernda almannahag. Með því að einkavæða almenna öryggis- og löggæslu er framkvæmdavaldið að færa hana undan þessum lögum.
Sú spurning hefur óneitanlega vaknað hvað vaki fyrir framkvæmdavaldinu með því að fela einkafyrirtæki löggæslustörf? Er þetta gert í sparnaðarskyni? Ef svo er, í hverju felst sparnaðurinn? Er hann á kostnað öryggishagsmuna? Er hann á kostnað kjara og réttinda starfsmanna? Er með þessu ef til vill verið að stíga fyrsta skrefið í átt til einkavæðingar lögreglu, tolls og annarrar öryggisgæslu sem verið hefur á hendi opinberra aðila? Eðlilegt er að sú spurning vakni og þá einnig um þá vegferð sem stjórnvöld kunni að vera á. Ef hægt er að fela einkafyrirtæki almenna löggæslu í Leifsstöð, hvers vegna ekki á götum Reykjavíkurborgar?
Hvað annað gæti skýrt áhugann á einkavæðingu þessarar starfsemi? Við vitum að fyrirtæki sem starfa á skyldum sviðum vilja færa út kvíarnar og komast yfir þessa starfsemi. Við það er ekkert óeðlilegt. Það á hins vegar við um þá sem kunna að vilja hygla þeim. Einkavinavæðing hefur það verið kallað þegar lykilmenn í stjórnsýslunni úthluta þóknanlegum fyrirtækjum feita bita. Hér á þessari síðu hefur þeirri spurningu verið varpað fram hvort með einkavæðingu löggæslunnar á Keflavíkurflugvelli sé verið að hygla vildarvinum. Það er verðugt verkefni fréttamanna að grafast fyrir um það.
Stjórn BSRB hefur ályktað gegn einkavæðingu löggæslunnar, sbr. HÉR og HÉR er að finna nýlega umfjöllun um þetta málefni á síðunni.