Fara í efni

FINNUR Á LEIÐINNI?


Mjög sérkennileg umræða fer nú fram um hugsanlega endurkomu Finns Ingólfssonar í forystusveit Framsóknarflokksins og hugsanlega á ráðherrastól. Þessar hugmyndir eru með miklum ólíkindum. Hugsanlegt brotthvarf Halldórs Ásgrímssonar úr pólitík er sagt tengjast lánleysi Framsóknar í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum, sem án efa tengist þeirri stefnu sem flokkurinn er orðinn holdgervingur fyrir á landsvísu: Ofuráherslu á álvæðingu landsins, einkavæðingu og fylgispekt við þá Bush og Blair. Ef nafn einhvers stjórnmálamanns tengist fyrrnefndu tveimur þáttunum, álvæðingunni og einkavæðingunni, meira eða jafnmikið og nöfn þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Valgerðar Sverrisdóttur, þá er það nafn Finns Ingólfssonar. Þess vegna er það með ólíkindum að láta sér koma til hugar að velja hann til endurreisnarstarfs í Framsóknarflokknum.
Á myndinni hér að ofan má sjá þá félaga Ólaf Ólafsson, sem á sínum tíma var kenndur við Samskip, koma úr Ráðherrabústaðnum sæla og hróðuga eftir að gengið hafði verið frá því að S-hópurinn eins og Framsóknarhópurinn var kallaður, hafði fengið Búnaðarbankann í sinn hlut.
Þeir sem högnuðust á þessum viðskiptum hafa nú margir hverjir milljarða upp á vasann. Fyrir réttu ári greiddi sessunautur Finns á myndinni rúma fimm milljarða upp úr eigin buddu í einni af mörgum transaksjónum sem síðast náði hámarki í því að Ólafur seldi stórt í ársbyrjun og flutti auð sinn úr landi. Finnur hefur legið lágt en eins og einn lesandi bendir á í bréfi hér á síðunni verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig hann gerir grein fyrir eignum og ítökum ef hann kemur inn í pólitíkina að nýju.
Fyrir flokksmenn í Framsóknarflokknum hlýtur að vera undarlegt að fylgjast með því hvernig embættum í Framsóknarflokknum virðist vera ráðstafað rétt eins og lýðræðislegar kosningar komi flokknum hreint ekkert við. Kannski er það líka svo.
Sú spurning gerist mjög áleitin hvers konar fyrirbæri Framsóknarflokkurinn eiginlega er orðinn. Er hann stjórnmálaflokkur eða er hann ef til vill orðinn þröngt hagsmunabandalag sem nýtir sér ítök í stjórnmálum, fjármálaklíkum innan flokksins til framdráttar? Til þess að skilja hræringarnar innan flokksins er nauðsynlegt að kunna svörin við þessum grundvallarspurningum. Er flokkurinn að leita eftir forsvarsmönnum til að tala fyrir hugsjónum framsóknarmanna eða eru menn ef til vill fyrst og fremst að leita eftir ábyggilegum hagsmunagæslumönnum?

Þessu tengt: HÉR