HVERJIR HAGNAST Á MARKAÐSVÆÐINGU RAFMAGNS
Ríkisstjórn Íslands er óþreytandi við að reyna að sýna okkur fram á hve skynsamlegt sé að markaðsvæða raforkugeirann. Slíkt gefi góða raun. Að vísu reynist henni erfitt að sýna fram á ágæti þessa með dæmum því þau segja allt aðra sögu. Í nýútkomnu blaði sænskra bæjarstarfsmanna SKTF-Tidningen, er að finna frásögn af afleiðingum „markaðsvæðingar“ raforkugeirans í Svíþjóð.
Sögusviðið er Stokkhólmur. Íbúar höfuðborgar Svíþjóðar höfðu rekið eigin raforkufyrirtæki Stockholm Energi. Það var einkavætt, varð fyrst Birka Energi sem síðan var gleypt af finnska stórfyrirtækinu Fortun. Síðan þetta gerðist, árið 2002, hafa rafmagnsreikningarnir í Stokkhólmi hækkað um 40%. Blaðið hefur eftir einum af forgöngumönnum þess að Stockholm Energi var einkavætt, Mats Hulth, sem fór með fjármál borgarinnar þegar þetta var ákveðið, að eftir á að hyggja hefði þetta ekki verið skynsamleg ráðstöfun heldur röng ákvörðun: „Stokkhólmur hefði hagnast á því að halda eignarhaldinu hjá sér, og gjöld á notendur verið mun lægri.“ Fyrir markaðsvæðingu rafmagnsins rann allur arður af raforkuveri borgarinnar inn í almenna starfsemi borgarinnar, „til þess að fjármagna leikskóla, skóla og umönnunarstörf“. Nú rennur arðurinn niður í vasana á nýjum eigendum og forstjórum og er það harðlega gangrýnt enda geri fólk sér grein fyrir því, segir blaðið, hver borgar brúsann.
Þannig kemur fram að forstjóri hins einkavædda fyrirtækis í Stokkhólmi sé með eina milljón sænskra króna (9 milljónir 560 þúsund ísl kr.) í mánaðarlaun. Að auki eru svo alls kyns „árangurstengingar“ og bónusar. Á árinu 2005 fékk forstjórinn litlar 85 milljónir sænskar (812 milljónir 600 þúsund ísl. kr.) í slíkan bónus. Hagnaður Fortun samkvæmt sænska Ríkissjónvarpinu nam 1564 milljónum Evra (140 milljarða ísl. kr.) á árinu 2005, sem gaf tilefni til að greiða forstjórunum í Finnlandi 4,5 milljarða króna ( 43 milljarða og 20 milljónir ísl. kr.) í bónus!
Allt þetta borgum við, segir málgagn sænskra bæjarstarfsmanna. Við gerum það með hærri rafmagnsreikningum og tapið er einnig okkar því við verðum af fjármunum sem ella hefðu runnið til velferðarþjónustunnar.
Í frásögn blaðsins kemur fram að rafmagnsverð í Svíþjóð hafi hækka um 126% síðan markaðsvæðingin hófst fyrir tíu árum.
Sjá um skylt efni HÉR.