Fara í efni

ÍSLENSK GAGNRÝNI SAMKVÆMT GAMALKUNNRI FORMÚLU


Utanríkisráðherra Íslands hefur mótmælt hryðjuverkum ísraelska hersins á hendur Palestínumönnum á Gaza-svæðinu í síðustu viku. Átján óbreyttir borgarar, flestir konur og börn, voru þá myrt í bænum Beit Hanun. Ísraelar skynja reiði heimsins og sendimenn þeirra fara nú vítt um veröldina til að útskýra að ódæðið hafi átt sér stað fyrir "tæknileg mistök".
Heimurinn þekkir orðið vel til hinna "tæknilegu mistaka" sem fjöldamorð og ofbeldi ísraelska hernámsliðsins í Palestínu  eru jafnan kölluð þegar upp úr sýður í almenningsáliti heimsins.
Sendiherra Ísraels leyfði sér í viðtölum við íslenska fjölmiðla í dag að beina því til Íslendinga að okkur væri nær að byrja á því að fordæma "hina" það er Palestínumenn, áður en við gagnrýndum ísraelsk stjórnvöld. Þetta er ekkert nýtt að heyra úr munni sendimanna Ísraelsstjórnar. Og utanríkisráðherrann íslenski leyfði sér einnig að hafa enn einu sinni yfir bandarísk/ísraelsku formúluna sem jafnan er notuð þegar "vinaþjóðir" gagnrýna Ísrael. Hún er svohljóðandi: "Auðvitað viðurkennum við rétt Ísraels til sjálfsvarnar". Enda þótt Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra tæki skýrt fram að hrannvígið í Beit Hanun í síðustu viku væri með öllu óafsakanlegt þá þurfti þessi formúlering að fylgja með. Gerir utanríkisráðherra Íslands sér ekki grein fyrir því að hún er að ávarpa fulltrúa hernámsþjóðar sem hefur fótum troðið mannréttindi og vanvirt samþykktir Sameinuðu þjóðanna um áratugaskeið. Og nú þegar við mótmælum hryllilegum morðum á saklausum börnum þá er hvorki staður né stund til að árétta að Íslendingar telji að Ísraelsríki hafi rétt til sjálfsvarnar! Hvenær skyldi koma að því að Íslendingar fylgi sjálfstæðri utanríkisstefnu og hætti að fylgja uppskriftunum sem eru taldar vera þóknanlegar í Pentagon?