MISVÍSANDI FRÉTTAFLUTNINGUR OG BLEKKINGARTAL UM EFTIRLAUNAFRUMVARPIÐ
12.05.2008
Í gærkvöldi var flutt afar ónákvæm og misvísandi frétt í Sjónvarpinu undir fyrirsögninni Umdeild eftirlaunalög felld úr gildi. Þegar leið á fréttina kom nefnilega í ljós að ekki stóð til að fella lögin úr gildi heldur gera á þeim smávægilegar breytingar. Annað sem var misvísandi í fréttinni var staðhæfing um að Vinstri græn hefðu „fallið frá" stuðningi við frumvarpið. Þingflokkur VG studdi þetta frumvarp aldrei og þess vegna var engum stuðningi frá að falla. Það var hins vegar forsætisnefnd sem flutti frumvarpið og þar áttu allir flokkar fulltrúa. Það er allt annar handleggur. Ég gegndi stöðu þingflokksformanns á þessum tíma og lýsti því alltaf mjög skýrt yfir að þingflokkur VG sem slíkur stæði ekki að þessu frumvarpi.
Frá því þessu illræmdu lög voru sett hefur á bak við tjöldin annað veifið verið reynt að ná samkomulagi um lágmarksbreytingar á þeim til að friða almenning. Í mínum huga eru þetta ekkert annað en pólitískar lýtalækningar og loddaraskapur af verstu sort. Þetta eru hins vegar sömu breytingarnar og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar kynnti í Sjónvarpsfréttum í gærkvöld í upphafi fréttatímans!
Það er eftir engu að bíða með að afnema þessi lög. Um leið og þau verða opnuð í atkvæðagreiðslu mun reyna á vilja einstakra þingmanna því þá mun ég flytja breytingartillögu um afnám laganna og að þingmenn, ráðherrar og embættismenn sem núverandi lög taka til komi framvegis til með að falla undir A deild LSR, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, einsog aðrir starfsmenn ríkisins. Fyrir þinginu liggur frumvarp þessa efnis lagt fram af Valgerði Bjarnadóttur. Hvers vegna er frumvarp Valgerðar ekki borið undir atkvæði á Alþingi? Það væri gert ef raunverulegur vilji væri til að afnema lögin einsog fréttastofa Sjónvarps fullyrti ranglega í gær.
Ég hef marglýst yfir stuðningi við frumvarp hennar innan þings og utan í ræðu og í riti. Ég vísa hér að neðan í skrif nánast af handahófi.
Frétt Sjónvarpsins í gær: http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4397923/0
Samfylkingin gaf kjósendum til kynna fyrir kosningar að eftirlaunafrumvarpið yrði afnumið. Þessu fagnaði ég hér á síðunni: https://www.ogmundur.is/is/greinar/serrettindalogin-a-leidinni-ut
https://www.ogmundur.is/is/greinar/burt-med-eftirlaunalogin
https://www.ogmundur.is/is/greinar/blekkingar-um-eftirlaunafrumvarpid-afthakkadar
https://www.ogmundur.is/is/greinar/gott-hja-valgerdi