Fara í efni

Morgunblaðið reynir að skýra "Norðurljósadílinn"

Fyrir nokkrum dögum beindi lesandi til mín spurningum um hræringarnar hjá Norðurljósum, sem ég ekki kunni svör við. Niðurlagsorðin í bréfinu voru þessi: "Eitt smáatriði í lokin. Fyrir okkur sem eru áhorfendur er eitt atriði í símabyltingunni óskiljanlegt. Talsmenn Norðurljósa halda ekki vatni yfir stjórnvisku Sigurðar G. Guðjónssonar, sem nú hefur verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu. Við höfum fylgst með honum skylmast við forkólfa sjálfstæðismanna árum saman opinberlega, í blöðum, fjölmiðlum og í réttarsölum. Ef marka má yfirlýsingar norðurljósamanna á hann stærstan þátt í að koma í veg fyrir endanlegt gjaldþrot Norðurljósa. Af hverju var hann þá rekinn, eða af hverju þurfti að fórna honum? Getur verið að hann sé skiptimynt í vopnahléi eigenda Norðurljósa og pólitíska valdsins í landinu, eða hver er eiginlega díllinn? Þetta eru jú verslunarmenn.
Stefán"

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins kunna að vera komin svörin til Stefáns. Þar er ítarleg fréttaskýring eftir Agnesi Bragadóttur og er hún kynnt í forsíðufrétt. Þar segir m.a.: "Í fréttaskýringuunni kemur fram að Norðurljós hafa ávallt verið skuldsett fyrir kaupum á hlutum minnihlutaeigenda og síaukin skuldsetning félagsins hefur staðið því fyrir þrifum. Jafnframt kemur þar fram að skiptar skoðanir eru á því hversvegna Sigurði G. Guðjónssyni, forstjóra Norðurljósa í rúm tvö og hálft ár, var skyndilega sagt upp störfum í lok októbermánaðar. Því er jafnvel haldið fram, að með þeirri uppsögn, ásamt ráðningu Kára Jónassonar sem ritstjóra Fréttablaðsins, hafi aðaleigendur Norðurljósa, Baugur, viljað friðmælast við stjórnvöld."

Ef þú lest þessar línur Stefán hvet ég þig til að ná þér í eintak af sunnudagsmogganum!

Bréf Stefáns: hér