NÁTTÚRUGERSEMAR OG SJÁVARKVÓTINN
10.07.2014
Mér þykir orðið einsýnt að stjórnvöld draga taum þeirra landeigenda sem nú reyna að skapa sér þann rétt - þvert á landslög - að innheimta gjöld af fólki sem vill njóta íslenskrar náttúru.
Sú hætta er mjög raunveruleg að með þessu móti skapist einkaeignarréttur á slíkan tilbúinn rétt með því einu að láta þetta framferði viðgangast líkt og gerðist með kvótann.
Þótt ég gefi lítið fyrir slíkan hefðarrétt þá gera margir lagatúlkendur það ekki og hef ég bent á samhengið á milli þess sem nú kann að vera gerast annars vegar og hins vegar þegar framsalið í kvótakefinu var heimilað árið 1991 þvert á 1. grein fiskveiðlaga sem kveður á um sameign þjóðarinnar á sjávarauðlindinni. Vísa ég sem dæmi um nýlega umfjöllun í DV og Fréttablaðinu:
Sjá Fréttablaðið 11. júní: https://www.ogmundur.is/is/greinar/handonyt-rikisstjorn
Sjá DV vefinn í dag: http://www.dv.is/frettir/2014/7/10/verdur-ad-lata-ser-naegja-motmaeli-ur-fjarlaegd/
Eftir að kvótakerfið sem heimilaði framsal og veðsetningu á óveiddum fiski hafði verið við lýði í rúma tvo áratugi urðu afleiðingarnar þær að nú tala hægri sinnaðir lagaprófessorar um hefðarrétt kvótahafa þegar reynt er að hrófla við kvótakerfinu eða leggja gjald á aðkomu að auðlindinni sem einhverju nemur.
Ég sé í kommentakerfi á vefmiðlum þau viðbrögð við skrifum mínum og yfirlýsingum um þetta efni að ýmsir gagnrýna mig fyrir a) að hafa leyft kvótakerfinu með framsalsheimildum að festa sig í sessi, b) að hafa ekkert aðhafst þegar fólk missti eigur sínar í hruninu í hendur fjármálastofnana í kjölfar hrunsins.
Þessu er til að svara að ég neita að taka á mig syndir kvótakerfisins eftir að hafa andæft því kerfi í núverandi mynd allar götur frá því var komið á og stutt allar tillögur sem gengið hafa í þá átt að leggja niður kerfið í núverandi mynd. Um þetta hefur hins vegar verið ágreiningur sem hefur náð inn í flesta stjórnmálaflokka og inn í alla stjórnarmeirihluta og allar stjórnarandstöðufylkingar undanfarna áratugi. Kvótagreifar hafa víðast hvar átt einhverja hauka í horni. Ég minnist þess að þegar framsalskvótanum var komið á var eitthvað um deilur í þjóðfélaginu en furðu lítlar miðað við ærið tilefnið. Það var eins og flestir gerðu sér ekki grein fyrir hvað í raun var að gerast og þau sem gerðu það vildu þessa þróun. Minnist ég þess að talsmaður Samtaka atvinnulífsins, Vinnuveitendasambandsins einsog það hét þá - hafði um gagnrýna afstöðu mína háðuleg orð , þegar við áttumst við í útvarpi og sagði greinilegt að ég skildi málið ekki! Á daginn kom að ég hafði skilið það fullkomlega.
Andvaraleysið nú - ekki síst á meðal stjórnmálamanna og fjölmiðlafólks (með mikilvægum undantekningum þó) minnir mig á þann hættulega doða sem ríkti árið 1991 þegar framangreind breyting var gerð á kvótakerfinu. Það var ekki fyrr en síðar að fólk fór almennt að ranka við sér.
Varðandi meint aðgerðaleysi gagnvart eignaupptöku þá vísa ég því algerlega á bug að ekkert hafi verið að gert og nefni ég þar sem dæmi frystingu á uppboðum íbúðarhúsnæðis sem ég lét síðan framlengja í tíð minni sem innanríkisráðherra þvert á vilja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég tek hins vegar undir að fyrri ríkisstjórn og fjármálakerfið hefðu þurft að gera miklu meira í þágu skuldara en gert var.