R-LISTINN ER ANNAÐ OG MEIRA EN MERKIMIÐI
R-listinn hefur verið við lýði frá því 1994 og byggði hann upphaflega á samstarfi Alþýðubandalags, Alþýðuflokks, Kvennalista og utanflokksmanna. Um það var nokkuð deilt í upphafi hvort stefna bæri að því að þessir flokkar rynnu í eitt og mynduðu nýjan stjórnmálaflokk undir merki R-listans. Á þeirri hugmynd má segja að Samfylkingin hafi síðan verið stofnuð. Þessu vorum við á vinstrivæng stjórnmálanna andvíg. Töldum við að með því móti yrði stefnt að tveggja flokka valdakerfi í landinu en dæmi um slíkt fyrirkomulag þekktum við frá Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar þar sem illgreinanlegur munur er orðinn á pólitískum fylkingum; forsvarsmenn þeirra geta gengið að gagnrýnendum innan sinna raða sem vísum (einfaldlega vegna þess að þeir eiga ekki annarra kosta völ). Þessu fólki er því hægt að bjóða og misbjóða á allan hátt á meðan stjórnendur flokkanna berjast um fylgið "á miðjunni". Þessi hugsun byggir fyrst og fremst á valdapólitík og er pólitískt stefnumótunarstarf fyrst og fremst sniðið að því að finna út hvað borgi sig að gera til að ná völdum og viðhalda þeim.
Við sem mynduðum Vinstrihreyfinguna grænt framboð á sínum tíma töldum mikilvægt að finna skipulagsform sem stuðlaði að kraftmikilli pólitískri umræðu og hreyfanleika og breytanleika. Það sem á útlensku er kallað dínamík. Valdablokkahugsunin múrar hins vegar inn kyrrstöðu. Vissulega geta menn við slíkt fyrirkomulag verið opnir fyrir breytingum en hreyfiafl þeirra eru ekki hugsjónir heldur notagildi á taflborði valdastjórnmála.
R-listinn hefur gert margt gott í tímans rás, í sumu hefur honum mistekist. Eitt eru menn þó orðnir mjög meðvitaðir um í þeim röðum þar sem ég þekki til og það er mikilvægi þess að skilgreina lýðræði á víðari hátt en gert hefur verið. Í stað þess að leggja allt upp úr kosningu fulltrúa í borgarstjórn – að hún sé sem opnust og að menn séu lausir allra mála að þeim loknum – þá beri að líta á lýðræði sem stöðugt verkefni. Reyndar hef ég grun um að þeir sem leggi mest upp úr prófkjaralýðræði, að ekki sé minnst á leiðtogalýðræðið, séu einmitt þeir sem minnst gefi fyrir þessa breiðu lýðræðislegu aðkomu. Þeir vilja láta kjósa leiðtoga og fulltrúa sem síðan hafi umboð til að stjórna. Mitt er valdið og engar refjar. Kjóstu mig og síðan hlýðir þú!
Er þá komið að tilefni þessara skrifa. Í Fréttablaðinu í dag er viðtal við
Hér á lesendasíðunni hefur nokkuð verið fjallað um þessi mál að undanförnu og er ljóst að menn eru mjög hugsi yfir hugmyndum Samfylkingarinnar um "leiðtogakjör". Það er ég svo sannarlega líka, eins og ég geri grein fyrir HÉR.