SKOÐAÐANAKÚGUN? EIGENDAVALD? FRÉTTABLAÐIÐ GERI HREINT FYRIR SÍNUM DYRUM
Guðmundi Magnússyni, fulltrúa ritstjóra Fréttablaðsins, hefur verið sagt upp störfum. Þetta gerist í tengslum við aðrar hrókeringar þar sem nokkrir innstu koppar í búri Sjálfstæðisflokksins fá lykilstöður á 365 miðlum, Ari Edwald, fyrrum framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins orðinn forstjóri og Þorsteinn Pálsson, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins orðinn ritstjóri Fréttablaðsins. Þá var Björgvin Guðmundsson fyrrum formaður Heimdalls gerður að ritstjóra DV nýlega. Gunnar Smári Egilsson, sem var forstjóri 365 miðla hefur fengið önnur mikilvæg verkefni á vegum samsteypunnar að sinna. Innkoma þessara harðsvíruðu Sjálfstæðismanna á þennan vettvang vekur menn til umhugsunar. Þó ekki síður hitt að
Morgunblaðið segir frá því í dag að blaðið hafi fyrir því heimildir að fyrir skömmu hafi Guðmundur verið "kallaður fyrir ritstjóra og honum veitt tiltal vegna leiðara sem hann skrifaði í Fréttablaðið um DV-málið og birtist 16. janúar sl."
Þess má geta að í blaðagrein, sem einnig birtist hér á síðunni, tók ég undir skrif Guðmundar í þessum umrædda leiðara (sjá HÉR). Í leiðaranum, sem bar yfirskriftina "Ritstjórnir fái erindisbréf", fjallaði Guðmundur um ritstjórnarlegt sjálfstæði ritstjórna og sagði m.a.: "Það er til fyrirmyndar, sem upplýst var í vikunni, að stjórn Dagsbrúnar, móðurfélags 365 miðla, hafi sett þá reglu að stjórnarmönnum fyrirtækisins sé óheimilt að hafa afskipti af einstökum málum sem ritstjórnirnar fást við. Ekki er kunnugt um að önnur fjölmiðlafyrirtæki hafi sett slíkar reglur. Hitt er einkennilegt sjónarmið hjá framkvæmdastjóra félagsins, Gunnari Smára Egilssyni, að yfirmenn á ritstjórnum eigi sjálfir að ákveða hvers konar fjölmiðil þeir reka. Eigendur og rekstrarstjórar fjölmiðla eiga ekki að geta firrt sig ábyrgð með slíku tali enda blasir við að það getur ekki verið heil brú í slíkum vinnubrögðum. Því aðeins er vit í reglunni um að eigendur og stjórnarmenn fjölmiðlafyrirtækja virði sjálfstæði ritstjórna sinna að þeir hafi markað meginstefnuna og þannig sé hægt að sækja þá til ábyrgðar ekkert síður en ritstjórnirnar ef út af bregður."
Í leiðaranum sagði enn fremur: "Það var ekki á almennu vitorði starfsmanna 365 miðla að stjórnarmenn fyrirtækisins mættu ekki hafa afskipti af ritstjórnunum. Umræddar reglur hafa ekki verið birtar starfsfólki. Mikilvægt er að það verði nú gert. Þá kemur væntanlega í ljós hvort reglan taki einnig til framkvæmdastjóra fyrirtækisins og markaðs- og auglýsingastjóra eins og eðlilegt hlýtur að teljast."
Í Morgunblaðinu í dag segir Ari Edwald að brottrekstur Guðmundar hafi ekkert með skoðanir hans og skrif að gera. Já, það er nefnilega það. Getur ritstjóri Fréttablaðsins staðfest að þetta sé rétt. Morgunblaðið segir svo frá : "Kári Jónasson, ritstjóri Fréttablaðsins, vildi í gær ekkert segja um starfslok Guðmundar hjá Fréttablaðinu."
Nafn Guðmundar Magnússonar hefur verið þurrkað út af ritstjórnarsíðu Fréttablaðisins. Eins undarlegt og það kann að hljóma hefur blaðið hins vegar ekki sagt lesendum sínum þá frétt að einn aðalskríbent blaðsins hafi verið rekinn! Ekkert var heldur að sjá um þetta í DV sem hefur sagt frá öðru eins. Þegar farið er að hugsa út í málið, er ekki að sjá að neinn fjölmiðill í eigu 365 miðla hafi sagt fréttina þegar þetta er skrifað! Þessir fjölmiðlar telja sig væntanlega ekki skuldbundna til slíks – eða kannski er það viðhorf ríkjandi á ritstjórnum þessara miðla að fréttir óþægilegar eigendum gætu haft óþægilegar afleiðingar fyrir boðbera slíkra frétta. Það er ágætt að hafa þetta allt á bak við eyrað við umræðuna um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins. Með henni fær útvarpsstjóri alræðisvald – og þarf þá ekki að standa nokkrum manni skil gerða sinna. Er þetta eftirsóknarvert fyrirkomulag? Eftir stendur að Fréttablaðið verður að gera hreint fyrir sínum dyrum. Fréttamiðill sem rekur gagnrýninn fréttamann skýringarlaust hættir að vera trúverðugur.