Fara í efni

STYRMIR OG FORSENDUR SJÁLFSTÆÐIS


Í bréfi til síðunnar vekur Ólína athygli á grein eftir Styrmi Gunnarsson, fyrrum Morgunblaðsritstjóra sem birtist  í Sunnudags-Mogga um síðustu helgi undir fyrirsögninni Magmadeilan snýst um grundvallaratriði.
Ólína tengir umfjöllun Styrmis uppgjöri hans við liðinn tíma og beinir þeirri spurningu til mín hvort í viðhorfum hans kunni að leynast vegvísir til uppgjörs í flokkakerfinu sem og „í siðferði atvinnulífsins."
Þessu er til að svara að ég tel það markverðast við uppgjör Styrmis Gunnarssonar hve framtíðarmiðað það er. Honum tekst furðu vel að hefja sig yfir þá mannlegu tilhneigingu að réttlæta mistök fortíðarinnar og spyrja þess í stað óvæginna spurninga um liðinn tíma jafnframt því sem hann horfir til nýrra lausna. Þetta gerir „íhaldsmanninn" Styrmi að mörgu leyti róttækari í hugsun en marga stjórnmálamenn sinnar kynslóðar sem fyrr á tíð stilltu sér upp á vinstri kantinum og eiga erfitt með að hreyfa síg úr sporum gamalla forræðisstjórnmála, sem voru einkennandi á öldinni sem leið.
 Í grein sinni fjallar Styrmir um Magma deiluna og skoðar pólitíkina og samfélagsþróunina í ljósi hennar. Nokkuð gætir kækja frá gamalli tíð Morgunblaðsritstjórans þegar hann hnýtir í flokkspólitíska andstæðinga sína þótt hans eigin félagar fari ekki alveg varhluta af hnútukastinu þegar hann furðar síg á því að ekkert heyrist frá Sjálfstæðisflokknum í þessari stóru deilu.
En aftur að uppgjöri og uppstokkun.  
Ég verð að játa að Í hinu stóra samhengi þykir mér nánast aukaatriði hvað gerist í stofnanakerfi stjórnmálalífsins ef tekst að hafa áhrif til góðs á grunngildin í stjórnmálahugsun samtímans. Nýfrjálshyggjubylgja undangenginna tveggja áratuga fólst ekki í því að hægri flokkar yrðu stærri heldur urðu allir flokkar hægri sinnaðri. Og meira að segja svo hægri sinnaðir að nánast ekkert annað en markaðslausnir voru á boðstólum. Á þessu voru vissulega mikilvægar undantekningar en þær undantekningar sönnuðu regluna einsog sagt er.
Það er þetta sem þarf að breytast: Stjórnmálalífið allt þarf að ná áttum, láta hægri vímuna líða úr sér, og íhuga yfirvegað hvað það er sem við raunverulega viljum leggja til grundvallar framtíðarþróun stjórnmálanna.
Og þótt við Styrmir Gunnarsson verðum eflaust seint samstiga í pólitíkinni get ég, líkt og Ólína, skrifað upp á eftirfarandi:
„Þrennt skiptir mestu um líf þjóðarinnar í þessu landi: Að hún haldi sjálfstæði sínu. Að hún haldi tungu sinni og menningu. Að hún haldi yfirráðum yfir auðlindum sínum. Ef við höldum fast við þessi þrjú grundvallaratriði getum við tekizt á við dægurvandamál hverju sinni."

Hér er bréf Ólínu: https://www.ogmundur.is/is/greinar/forsendur-sjalfstaedis

Hér er grein Styrmis:  

MAGMADEILAN SNÝST UM GRUNDVALLARATRIÐI

Það er enginn munur á því að selja hluta af fiskimiðunum við Ísland til erlendra sjávarútvegsfyrirtækja eða selja hluta af orkulindum Íslendinga, hvort sem um er að ræða fallvötn eða jarðvarma, til erlendra orkufyrirtækja.
Það er enginn munur á því að selja hluta af fiskimiðunum við Ísland til erlendra sjávarútvegsfyrirtækja eða selja hluta af orkulindum Íslendinga, hvort sem um er að ræða fallvötn eða jarðvarma, til erlendra orkufyrirtækja.
Það er enginn munur á því að leigja nýtingarréttinn á fiskimiðunum við Ísland til 65-130 ára til útlendinga eða að leigja þeim nýtingarréttinn á orkulindum landsmanna til 65-130 ára.
Og það er enginn munur á þessu tvennu og því að leigja hluta af Íslandi undir erlenda herstöð til 99 ára eins og Bandaríkjamenn vildu fá leigusamning um að heimsstyrjöldinni síðari lokinni en allir flokkar voru sammála um að hafna með Ólaf Thors, formann Sjálfstæðisflokksins, í fararbroddi, eins og Halldór Blöndal, fyrrum forseti Alþingis, minnti mig á í samtali nú í vikunni.
Þá var hægt að sýna fram á, að peningarnir kæmu sér vel fyrir fátæka þjóð og þá var hægt að sýna fram á, að slíkur 99 ára leigusamningur mundi skapa atvinnu fyrir Íslendinga á Suðurnesjum.
Það er líka hægt að sýna fram á að sala á hluta af fiskimiðunum mundi skila þjóðinni verulegum fjármunum og nú er því haldið fram, að leiga á nýtingarrétti á orkulindum þjóðarinnar í marga mannsaldra sé nauðsynleg til þess að skapa atvinnu á Suðurnesjum.
Atvinnuleysi er meira og alvarlegra á Suðurnesjum en annars staðar á landinu en það réttlætir ekki að afsala þjóðinni raunverulegum yfirráðum yfir hluta af auðlindum sínum fram á 22. öldina!
Ríkisstjórn, sem hefur þvælzt fyrir því að framkvæmdir við álver Norðuráls í Helguvík komist í fullan gang misserum saman getur ekki notað atvinnuleysistölur til þess að réttlæta afsal auðlinda þjóðarinnar til útlendinga.
Þrennt skiptir mestu um líf þjóðarinnar í þessu landi: Að hún haldi sjálfstæði sínu. Að hún haldi tungu sinni og menningu. Að hún haldi yfirráðum yfir auðlindum sínum. Ef við höldum fast við þessi þrjú grundvallaratriði getum við tekizt á við dægurvandamál hverju sinni.
Það hefur verið ömurlegt að fylgjast með farsanum í kringum Magma Energy og hið myndarlega fyrirtæki, sem Suðurnesjamenn byggðu upp og einu sinni hét Hitaveita Suðurnesja. Slíkur farsi verður til, þegar enginn stjórnmálaflokkur og engin ríkisstjórn hefur bolmagn og burði til að sýna stefnufestu og halda fast við grundvallaratriði. Það getur enginn stjórnmálaflokkur þvegið hendur sínar af þeim farsa - nema þá kannski Bezti flokkurinn, sem ekki var til, þegar þessi leikur hófst.
Nú eru Vinstri grænir seint og um síðir að nema staðar. Það er ekki vegna þess, að stefnufestu sé fyrir að fara í forystu þess flokks. Þá hefðu þeir sagt nei frá upphafi. Það er vegna þess, að grasrótin í flokknum er að gera uppreisn.
Samfylkingin er á undanhaldi. Þegar Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, tilkynnir, að hún vilji hefja formlegar viðræður um styttingu á þeim tíma, sem nýtingarréttur Magma nær til, er það vegna þess, að Samfylkingin er orðin hrædd við almenningsálitið ekkert síður en forysta VG er orðin hrædd við eigin flokksmenn.
En hvers vegna heyrist ekkert frá stjórnarandstöðunni? Hvers vegna heyrist ekkert frá Sjálfstæðisflokknum, þeim flokki sem hafnaði því að leigja hluta af Íslandi til 99 ára til annarrar þjóðar?
Ný kynslóð stjórnmálamanna í öllum flokkum á Íslandi er ekki þátttakandi í leik, sem snýst um vegtyllur og vegsemdir. Til hennar eru gerðar kröfur. Henni hefur verið falið að sjá um fjöreggið. Reynist hún ófær um það verður öðrum falið það verkefni.
Auðlindir Íslands eru eign íslenzku þjóðarinnar. Hún á aldrei að láta það eignarhald frá sér. Hún á rétt á arði af þeirri eign. Við getum rifizt innbyrðis um það, hvernig bezt sé að nýta þær auðlindir og hvernig eigi að skipta arðinum af þeim en við hljótum að sameinast um að standa vörð um eignarhald okkar sem þjóðar á þeim.
Þetta er ekkert flókið. Þetta er mjög skýrt. Ef löggjöfin er enn eitthvað óskýr getur Alþingi bætt úr því.
Við erum ekki eina þjóðin í heiminum, sem vill standa vörð um sínar auðlindir. Það vilja allar þjóðir. Um það hefur sjálfstæðisbarátta þjóða snúizt. Bretar lögðu ekki undir sig hvert landið á fætur öðru í Afríku og Asíu, af því að þeim þætti svo vænt um fólkið í þessum löndum. Þeir vildu komast yfir auðlindir þess og auðguðust á því alveg eins og þeir rændu fiskinum við strendur Íslands öldum saman.
Þegar Nasser þjóðnýtti Súez-skurðinn sumarið 1956 var það sjálfstæðisyfirlýsing Arabaþjóðanna gagnvart hinum gömlu heimsveldum í Evrópu. Morgunblaðið kallaði Nasser arabískan Hitler og hafði rangt fyrir sér. Einum og hálfum áratug síðar ráku Arabaríkin hin alþjóðlegu olíufélög af höndum sér.
Norðmenn hafa ítrekað hafnað aðild að Evrópusambandinu vegna þess, að þeir vilja ekki afhenda öðrum Evrópuríkjum auðlindir sínar.
Þótt þjóðir vilji standa vörð um auðlindir sínar þýðir það ekki að þær hafni erlendri fjárfestingu. Það þýðir einfaldlega að þær vilja erlenda fjárfestingu á réttum forsendum. Þegar Kenneth Peterson byggði álverið á Grundartanga krafðist hann þess ekki að fá nýtingarrétt á íslenzkum orkulindum í allt að 130 ár.
Þegar Björk Guðmundsdóttir söngkona tekur upp baráttu gegn afsali orkulinda á Suðurnesjum til útlendinga hefur hún rétt fyrir sér og því frumkvæði hennar ber að fagna.
Deilan um Magma Energy er ekki fyrst og fremst deila um samninga við lítið kanadískt fyrirtæki og leið þess til Íslands í gegnum skúffu á skrifborði í Svíþjóð.
Hún snýst um grundvallaratriði í lífi íslenzku þjóðarinnar.