Fara í efni

"SVAKALEGA SÁTTIR" - EN HVAÐ NÆST?


Samkvæmt Vísi.is sl. laugardag græddi Finnur Ingólfsson litlar 400 milljónir þegar hann seldi hlut sinn í Icelandair Group fyrir síðustu helgi.

Í frétt Vísis segir m.a.:
"Finnur seldi 15,49% hlut sinn í dag á 4,88 milljarða. Meðaltalsgengi viðskiptanna var 31,52. Hann keypti sjálfur 7,9% hlut í félaginu við skráningu á síðasta ári á genginu 27. Í dag keypti hann síðan tæplega 7,6% hlut á genginu 31. Þannig má reikna út að Finnur labbar burtu með rétt tæplega 400 milljónir króna í gróða og kveður sáttur.
"Ég er svakalega sáttur enda varla annað hægt," segir Finnur í samtali við Vísi.

Í fréttatilkynningu sem Finnur sendi frá sér af þessu tilefni sagði hann: "Framundan hjá mér eru fjölmörg verkefni á sviði fjárfestinga og sum þeirra eru afar spennandi."

Pólitískur félagi Finns, Ólafur Ólafsson, sem ásamt honum og nokkrum félögum í Framsóknarflokknum auðgaðist á einkavæðingu síðustu ríkisstjórnar, fór með auð sinn úr landi en ráðlagði peningamönnum sem vildu hagnast að horfa til vatns og rafmagns. Þetta sagði Ólafur Ólafsson á mbl.is 10. janúar 2006 en þá hafði hann selt hlut sinn í Olíufélaginu: "Fyrir einu og hálfu ári ákváðum við að efla fjárfestingar okkar utan Íslands og fara í frekari útrás en við þegar höfum verið í á undanförnum árum. Núna metum við það svo að ástandið á íslenska markaðnum, efnahagsástandið, sé afar hagstætt og verði það vonandi næstu árin. Jafnframt að Olíufélagið sé til þess búið að fara í frekari verkefni hér heima, svo sem í orkugeiranum hvort sem það er í vatni eða rafmagni og skapa sér nýja stöðu þar eða í smásölu eða heildsölu."

Það er hollt að huga að samhengi hlutanna. Þegar Orkuveita Reykjavíkur er nú sett upp á einkavæðingarfæribandið þá er það gert til að þjóna peningamönnum á borð við þá Finn og Ólaf. Þeir beinlínis lýsa því yfir að vænlegustu fjárfestingarkostir komandi ára séu á sviði raforku og vatns. Er það kannski þarna sem hina "spennandi" fjárfestingar Finns Ingólfssonar er að finna? En peningamennirnir þurfa pólitíska hjálp einsog fyrri daginn. Eðlilegt er að spurt sé: Hverjum eru þeir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmssson, oddviti Sjálfstæðismanna og Björn Ingi Hrafnsson, oddviti Framsóknarmanna í Reykjavík, að þjóna með því að krefjast þess að OR verði færð í sölubúning með háeffun?  

Sjá HÉR og HÉR og HÉR