TEKIÐ UNDIR MEÐ NÁTTÚRULÆKNINGAFÉLAGI ÍSLANDS: BURT MEÐ BLEKKINGAAUGLÝSINGAR
Auglýsingar eru bráðnauðsynlegar til þess að koma á framfæri upplýsingum um vöru og þjónustu. Ef þetta er gert á sannverðugan hátt eru auglýsingar til góðs. Jafn augljóst er að þær eru til ills ef þær blekkja væntanlega neytendur. Þess vegna er mikilvægt að auglýsendur vandi vinnubrögð sín og að þeir sem ekki
Oft hafa neytendasamtök, bæði utanlands og hér á landi gert ágæta hluti. En betur má ef duga skal. Sú var tíðin að neytendasamtök hömuðust við að halda auglýsendum við efnið. Þetta var á sjöunda áratugnum. Þá var Ralph Nader upp á sitt besta í Bandaríkjunum og neytendasamtök víða um heim að sækja í sig veðrið. Ef auglýsendur gáfu fölsk skilaboð var þeim umsvifalaust stefnt fyrir dómstóla. Ekki veit ég hvernig farið hefði verið með auglýsendur sem sýna allt annað í "auglýsingum" sínum en það sem þeir eru raunverulega að selja. Vörunni bregður þá fyrir í mýflugumynd eftir að við höfum fengið að sjá alls kyns hluti sem eru til þess fallnir að vekja með okkur jákvæð hughrif. Engar upplýsingar er að finna í slíkum auglýsingum. Eflaust er erfitt að eiga við lúmskan auglýsingaáróður af þessu tagi, en auglýsingum sem beinlínis eru blekkjandi er hægt að taka á og það á tvímælalaust að
Á nýafstöðnu þingi Náttúrulækningafélags Íslands var samþykkt tillaga um svokallaðar blekkingaauglýsingar sem svo eru nefndar í samþykkt Náttúrulækningafélagsins. Þar segir meðal annars:
"Náttúrulækningafélag Íslands lýsir megnri andúð á hvers konar auglýsingum á miður hollum neysluvörum, sem aðallega er beint að börnum og unglingum. Þessar auglýsingar hvetja til neyslu á varningi, sem inniheldur mikið af viðbættum sykri og öðrum óæskilegum efnum. Þær stangast þannig á við almenn manneldismarkmið og stefnu félagsins, þótt þær gefi oft hollustu í skyn. Neysla þessa varnings getur mótað heilsu barna og unglinga til framtíðar og meðal annars leitt til ólæknandi offitu og sykursýki. Þingið hvetur foreldra og forráðamenn barna til að vera á varðbergi gegn þessum óábyrgu auglýsingum." Síðar segir: "Félagið hvetur til strangra viðurlaga við upplýsingafölsun á umbúðum... Almenningur á skýlausan rétt á því að vita hvað hann leggur sér til munns. Félagið hvetur Neytendasamtökin til samstarfs um framgang þessa máls."
Hér höfðar Náttúrulækningafélag Íslands til Neytendasamtakanna. Ég vil einnig nefna Samtök auglýsingastofa og þá ekki síður embætti Talsmanns neytenda. Gísli Tryggvason, sem nýlega hefur tekið við embætti Talsmanns neytenda hefur sýnt lofsverða byrjun. Hann hefur heimsótt félagasamtök og stofnanir og leitað eftir áliti þeirra um æskilegar áherslur í starfi. Efast ég ekki um að Gísla Tryggvasyni á eftir að takst að gera embætti Talsmanns neytenda að öflugu tæki í neytendavernd. Eðli máls samkvæmt verður verksvið embættisins þrengra og hugsanlega fræðilegra en Neytendasamtakanna. Augljóst er að embættið mun koma að lagasmíð og þá einnig verða eftirlitsaðili gagvart því að farið sé að lögum og þá kannski einnig siðareglum. Ef þetta er réttur skilningur er einboðið að embættið verði að hyggja að ábendingum Náttúrulækningafélags Íslands. Reyndar hef ég trú á að öll ofangreind samtök og stofnanir þurfi að koma að málum ef takast á að beina auglýsingamennsku inn í ábyrgari farveg en nú.
Boðskapur Náttúrulækningafélagsins er mjög athyglisverður og tekur á ýmsum þáttum, til dæmis umhverfisvernd með þessum orðum: "Náttúrulækningafélag Íslands minnir á að náttúrulegt umhverfi er mikilvægur þáttur í heilsu fólks eins og náttúruleg fæða. Fólk þarf að geta stundað heilbrigt útilíf í eðlilegu umhverfi og hafa aðgang að ósnortnum víðernum. Félagið er andvígt því, að stórbrotin náttúra landsins og lífið í sjónum umhverfis landið séu brotin á bak aftur í gróðaskyni."
Að neðan er að finna ályktun Náttúrulækningafélagsins í heild sinni og HÉR er grein um tengt efni hér á síðunni, þar sem m.a. er fjallað um pólitískar auglýsingar.
Sjá heimasíðu Talsmanns neytenda: http://www.talsmadur.is/
Ályktanir 30. landsþings Náttúrulækningafélags Íslands, haldið í Hveragerði 5. nóvember 2005
Blekkiauglýsingar
Náttúrulækningafélag Íslands lýsir megnri andúð á hvers konar auglýsingum á miður hollum neysluvörum, sem aðallega er beint að börnum og unglingum. Þessar auglýsingar hvetja til neyslu á varningi, sem inniheldur mikið af viðbættum sykri og öðrum óæskilegum efnum. Þær stangast þannig á við almenn manneldismarkmið og stefnu félagsins, þótt þær gefi oft hollustu í skyn. Neysla þessa varnings getur mótað heilsu barna og unglinga til framtíðar og meðal annars leitt til ólæknandi offitu og sykursýki. Þingið hvetur foreldra og forráðamenn barna til að vera á varðbergi gegn þessum óábyrgu auglýsingum.
Erfðabreytt matvæli
Náttúrulækningafélag Íslands leggst eindregið gegn því að leyfð verði útiræktun erfðabreyttra plantna og harmar að Umhverfisstofnun hafi heimilað slíkt í tilraunaskyni hér á landi án viðhlítandi mats á umhverfis- og heilsufarsáhrifum og rækilegrar umræðu. Félagið varar við þeirri hættu sem slík ræktun hefur í för með sér fyrir ímynd Íslands og opinber markmið um sjálfbæra þróun.
Fæðubótarefni
Náttúrulækningafélag Íslands telur að almennt búi matvæli framleidd með náttúrulegum aðferðum yfir þeim efnum, sem maðurinn þarf á að halda. Fæðubótarefni kunna þó að vera nauðsynleg neytendum, sem ekki eiga kost á fjölbreyttu úrvali náttúrulegra og lífrænt ræktaðra matvæla. Félagið hvetur til frjálsra en ábyrgra viðskipta með fæðubótarefni á grundvelli vísindalegra rannsókna og réttra vörumerkinga. Félagið varar hinsvegar eindregið við oftrú manna á slíkum efnum og varar við óprúttnum sölumönnum þessara efna.
Grænmeti
Náttúrulækningafélag Íslands lýsir eindreginni andstöðu sinni við hvers konar tolla á grænmeti. Þeir draga úr neyslu grænmetis, sem er of lítil hér á landi samkvæmt stöðlum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar. Einkum draga þeir úr neyslu lífrænt ræktaðs grænmetis, sem er dýrt í innkaupi og margfaldast í verði vegna háu tollanna. Félagið telur ljóst, að grænmetistollar stuðli að lakari heilsu þjóðarinnar og magni sjúkrakostnað hennar. Náttúrulækningafélag Íslands telur, að tekjumissi af völdum afnáms grænmetistolla megi bæta upp með því að leggja tolla á sykur og sykurauka í matvælum.
Innihaldslýsingar
Náttúrulækningafélag Íslands hvetur til, að Lýðheilsustöð verði falið og veitt fé til að láta mæla, hvort innihaldslýsingar á umbúðum matvæla séu sannleikanum samkvæmar. Enginn aðili ríkisvaldsins virðist telja sér skylt að sinna þessu bráðnauðsynlega hlutverki. Félagið hvetur til strangra viðurlaga við upplýsingafölsun á umbúðum. Náttúrulækningafélag Íslands leggur sérstaka áherslu á að íslensk stjórnvöld setji nú þegar reglur sem skylda innflytjendur og framleiðendur til að merkja matvæli sem hafa að geyma eða eru framleidd úr erfðabreyttum lífverum og afurðum þeirra. Almenningur á skýlausan rétt á því að vita hvað hann leggur sér til munns. Félagið hvetur Neytendasamtökin til samstarfs um framgang þessa máls.
Lífræn framleiðsla
Náttúrulækningafélag Íslands hvetur til neyslu lífrænna afurða og notkunar lífrænna aðferða í matvæla- og náttúruvöruframleiðslu, meðal annars á barnaheimilum, í skólum, á heilbrigðisstofnunum og í mötuneytum vinnustaða. Félagið bendir á að þeim vísindalegu rannsóknum fjölgar ár frá ári sem benda til þess að lífræn framleiðsla sé hagkvæm, hafi jákvæð áhrif á lífríki og umhverfi, og stuðli að betri næringu og heilsufari. Félagið bendir á að Íslendingar standa grannþjóðum sínum langt að baki á þessu sviði, þótt aðstæður til lífrænnar framleiðslu séu að mörgu leyti betri hér á landi en annars staðar. Félagið harmar áhugaleysi íslenskra stjórnvalda og bændasamtaka um þróun lífrænnar ræktunar á Íslandi. Þá furðar félagið sig á þeirri áherslu sem lögð hefur verið á svonefnda “vistvæna ræktun” undanfarin ár, sjónhverfingu sem nýtur engrar viðurkenningar á alþjóðamarkaði matvæla og gerir ekki annað en að grafa undan þróun lífrænnrar ræktunar á Íslandi.
Lýðheilsustöð
Náttúrulækningafélag Íslands fagnar stofnun Lýðheilsustöðvar. Félagið vill leggja sitt af mörkum til góðs samstarfs við stöðina í framtíðinni. Félagið telur að Lýðheilsustöð hafi stöðu og burði til að stuðla að betri heilsu þjóðarinnar í samræmi við sígild markmið félagsins.
Sykur
Náttúrulækningafélag Íslands hefur áratugum saman varað við sífellt vaxandi sykurneyslu Íslendinga, sem nú er komin er yfir eitt kíló á mann á viku. Sérstaklega varar það við neyzlu gosdrykkja, sem komin er í þrjá lítra á mann á viku. Lengi hefur verið vitað, að ofneysla sykurs hefur almennt slæm áhrif á heilsu og veldur sérstökum vandamálum á borð við tannskemmdir og sykursýki. Rannsóknir benda til, að sykur valdi einnig sveppaóþoli. Náttúrulækningafélag Íslands vekur sérstaka athygli á, að 99% þurrefnis í gosdrykkjum er viðbættur sykur; að kex er 17-19% viðbættur sykur og kökur 21-28%; að 3-47% innihalds morgunkorns er viðbættur sykur; að unnar mjólkurvörur, sem kenndar eru við skóla og ávexti, hafa 6-10% viðbættan sykur; að viðbættur sykur er í nánast öllum pakka-, dósa- og glasamat í matvöruverslunum, þ.m.t. ungbarnamat. Náttúrulækningafélag Íslands hvetur til að undantekningalaust verði skylt að tilgreina magn viðbætts sykurs á umbúðum matvæla sem seld eru hér á landi svo sem gert er í Bandaríkjunum og víðar.
Svæði án erfðabreyttra lífvera
Náttúrulækningafélagi Íslands þykir við hæfi á 50 ára afmæli Heilsustofunar þess í Hveragerði, að 30 landsþing félagsins lýsi umráðasvæði sín í Hveragerði “svæði án erfðabreyttra lífvera”. Félagið hvetur til þess að landeigendur, framleiðendur, landfræðilega afmarkaðar byggðir og sveitarstjórnir sem víðast á landinu lýsi umráðasvæði sín “svæði án erfðabreyttra lífvera” eins og sífellt færist í aukana í Evrópu og Bandaríkjunum.
Tóbak
Náttúrulækningafélag Íslands og stofnendur þess hafa mælt gegn tóbaksneyslu í yfir 80 ár, lengst af fyrir daufum eyrum. Ekki er lengur véfengt að mikið heilsutjón stafar af neyslu tóbaks. Það liggur í augum uppi að ef tóbak kæmi á markað í dag þá væri litið á efnið sem hættulegt fíkniefni, fíkiefni sem yfirvöld myndu ekki undir neinum kringumstæðum heimila innflutning á. Náttúrulækningafélag Íslands hvetur stjórnvöld til að taka skrefið til fulls og sýna afgerandi fordæmi sem eftir yrði tekið í alþjóðasamfélaginu og banna með öllu innflutning tóbaks og notkun þess og meðhöndla brot á slíku banni með sama hætti og ólöglegan innflutning á fíkiefnum.
Umhverfi
Náttúrulækningafélag Íslands minnir á að náttúrulegt umhverfi er mikilvægur þáttur í heilsu fólks eins og náttúruleg fæða. Fólk þarf að geta stundað heilbrigt útilíf í eðlilegu umhverfi og hafa aðgang að ósnortnum víðernum. Félagið er andvígt því, að stórbrotin náttúra landsins og lífið í sjónum umhverfis landið séu brotin á bak aftur í gróðaskyni.