Fara í efni

ÞÁTTASKIL Í GUÐMUNDAR- OG GEIRFINNSMÁLI

Arndís Soffía
Arndís Soffía

Þá hefur Endurupptökunefnd loks fjallað um og kveðið upp úrskurði varðandi endurupptökubeiðnir dómfelldu og aðstandenda þeirra í svokölluðum Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Niðurstaða nefndarinnar eftir að hafa fjallað um málið á þriðja ár var sú að fallast á endurupptöku á málum þeirra sem hlutu dóma fyrir meinta aðild að hvarfi þessara manna og fyrir að hafa ráðið þeim bana. Ekki var fallist á endurupptöku á málum vegna rangra sakargifta en það er vandséð hvernig hægt er að halda þeim þætti málsins aðskildum frá öðrum þáttum þessa máls. Því má reikna með því að það atriði muni koma til frekari skoðunar hjá dómstólum.

Áratuga barátta

Áratugalöng barátta dómfelldu og fjölskyldna þeirra hefur nú skilað þessum árangri, að ógleymdri vinnu og ráðgjöf þeirra lögfræðinga sem annast hafa mál þeirra. Lúðvík Bergvinsson ritaði greinargerðir og flutti málin fyrir aðstandendur Sævars Ciesielski og Tryggva Rúnars Leifssonar, Ragnar Aðalsteinsson talaði á sama hátt máli Erlu Bolladóttur og Guðjóns Skarphéðinssonar og Guðjón Ólafur Jónsson gætti hagsmuna Alberts Klahn.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ragnar Aðalsteinsson kemur að þessum málum því árið 1997 fór með kröfu um endurupptöku á máli Sævars Ciesielski fyrir Hæstarétt, en hafði ekki erindi sem erfiði. Tveimur árum síðar reyndi Sævar að nýju og flutti þá mál sitt sjálfur. Niðurstaðan þá var sú sama.

Straumhvörf verða í málinu

Mikil hætta er var á því að málið hefði dagað uppi ef ekki hefði verið sett á laggirnar starfsnefnd undir formennsku Arndísar Soffíu Sigurðardóttir, sem hóf störf haustið 2011. Markmið með skipun nefndarinnar var að taka málið til gagngerrar athugunar og skoða það ofan í kjölinn í heild sinni. Með starfi nefndarinnar urðu að mínu mati í reynd straumhvörf í málinu. Nefndinni var veittur aðgangur að öllum gögnum málsins og skilaði vinna hennar miklum upplýsingum um rannsókn málsins sem nýttist í frekari vinnu.
Starfsnefndina skipuðu auk Arndísar, Haraldur Steinþórsson, lögfræðingur og Jón Friðrik Sigurðsson, sálfræðingur. Með starfshópnum starfaði Valgerður María Sigurðardóttir, starfsmaður innanríkisráðuneytis og þá naut starfshópurinn sérstakrar sérfræðiráðgjafar dr. Gísla H. Guðjónssonar, réttarsálfræðings, en hann gaf einnig skýrslur fyrir endurupptökunefnd.

Ítarleg og vönduð vinna

Starfshópurinn vann um 500 síðna skýrslu. Þar voru í fyrsta sinn tekin saman öll gögn sem unnt var að finna um málið úr ólíkum áttum og keyrð saman í einn stóran gagnagrunn. Aldei áður hafði slík yfirsýn fengist yfir málið og aldrei áður hafði verið unnið sálfræðimat á framburðum hinna dómfelldu. Starfshópurinn vann skýrslu um athuganir sínar sem hún skilaði af sér þann 25. mars 2013.

Samantekt formanns

Þegar niðurstöður starfshóps innanríkisráðuneytisins voru kynntar á fréttamannafundi hinn 25. mars 2013 lagði Arndís Soffía Sigurðardóttir, formaður starfshópsins áherslu á eftirfarandi úr niðurstöðum hópsins:

  • Það er hafið yfir allan skynsamlegan vafa að framburðir Erlu Bolladóttur, Sævars Marinós Ciesielski og Kristjáns Viðars Viðarssonar í Guðmunar- og Geirfinnsmáli bæði hjá lögreglu og fyrir dómi hafi verið óáreiðanlegir.
  • Það er hafið yfir allan skynsamlegan vafa að framburðir Tryggva Rúnars Leifssonar og Alberts Klahn Skaftasonar í Guðmundarmáli bæði hjá lögreglu og fyrir dómi hafi verið óáreiðanlegir.
  • Það er hafið yfir allan skynsamlegan vafa að framburður Guðjóns Skarphéðinssonar í Geirfinnsmáli bæði hjá lögreglu og fyrir dómi hafi verið falskur.

Arndís sagði að í ljósi þeirrar afdráttarlausu niðurstöðu að framburðir dómfelldra í Guðmundar- og Geirfinnsmálum hafi verið óáreiðanlegir telji starfshópurinn veigamiklar ástæður fyrir því að málin verði tekin upp á ný. Starfshópurinn benti á nokkrar leiðir til að málunum verði yrði komið í tilhlýðilegan farveg:

  • Að ríkissaksóknari meti hvort tilefni sé til aðgerða af hálfu ákæruvalds.
  • Að dómfelldu í málunum leiti eftir því að þau verði tekin upp á ný og að slík umleitan verði studd með opinberu fé.
  • Að lagt verði fram lagafrumvarp sem mæli fyrir um endurupptöku málanna.
     

Byggt á vinnu starfshópsins

Á grundvelli skýrslu starfshópsins hófu fyrrgreindir lögfræðingar síðan að undirbúa umfangsmikinn rökstuðning fyrir því að málin yrðu tekin upp að nýju, auk þess sem aflað var frekari gagna. Settur var sérstakur saksóknari til að fara með málið fyrir ríkið, þar sem ríkissaksóknari lýsti sig vanhæfan. Gaf settur saksóknari umsögn um endurupptökubeiðnirnar og setti fram eigin rökstuðning. Endurupptökunefnd hefur nú komist að fyrrgreindri niðurstöðu, nefnilega að heimila endurupptöku mála þeirra fimm sem hlutu dóm fyrir að vera valdir af hvarfi og bana þeirra Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar árið 1974.

Hvar var sanngirnin?

Ég leyfi mér að furða mig á því að ekki hafi verið heimiluð endurupptaka á málum allra hinna dómfelldu enda höfðu verið færð rök að því að framburður og játningar allra hefði ekki verið trúverðugur og málið þar af leiðandi allt á sandi reist. Hafi endurupptökunefnd talið að einhverju væri ábótavant í rökstuðningi fyrir endurupptökubeiðni, liggur beinast við að spyrja hvers vegna ekki hafi verið gengið eftir því að fá þann rökstuðning eða upplýsingar sem á vantaði. Segir okkur ekki eitthvað, sem ég leyfi mér að kalla sanngjarnt og eðlilegt, að svo hefði átt að vera. Standi lög og reglur i vegi fyrir því að réttlæti nái fram að ganga verður að breyta þeim. Skorti upplýsingar til að málið geti hlotið endurupptöku þarf úr því að bæta. Ekki verður búið við svona hrópandi óréttlæti.
Fleiri en hinir dómfelldu eiga sárar minningar frá þessum málatilbúnaði öllum og eru þær þyngri en tárum taki. En það er önnur saga og breytir ekki því að játningar og sakargiftir voru framkallaðar með óréttmætum hætti, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Sjá: https://www.ogmundur.is/is/greinar/gamalli-martrod-lett-af-thjodinni

https://www.ogmundur.is/is/greinar/satt-tharf-ad-rikja-um-rettarkerfid