Fara í efni

UM „DÁLITLA INNEIGN"


Í tilefni af nýbirtri grein Vals Ingimundarsonar, sagnfræðings , hafa fjölmiðlar rifjað upp stuðning íslenskra stjórnvalda við innrásina Írak vorið 2003. Um þetta hefur margoft  verið fjallað á þessari síðu ( hér má t.d. sjá þessar slóðir: https://www.ogmundur.is/is/greinar/halldor-asgrimsson-neitar-ad-axla-abyrgd  og  https://www.ogmundur.is/is/greinar/ovaegin-framsokn-gagnvart-odrum-en-framsokn  og  https://www.ogmundur.is/is/greinar/a-afram-ad-thegja-irak-i-hel ).
Þáverandi ríkisstjórn lét sem kunnugt er það viðgangast að við vorum sett á lista svokallaðra „viljugra þjóða" en þar var að finna samsafn vesælustu peða Bandaríkjanna á taflborði heimsstjórnmálanna á þeim tíma, þjóðir sem bjuggu við stjórnvöld sem hugsuðu meira um meinta eigin hagsmuni en prinsipp og samvisku.
Tilefni þess að ég rifja þetta upp nú eru orð núverandi utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, í Morgunblaðinu 13. ágúst. Hún veltir þar vöngum yfir því hvað valdið hafi því að ríkisstjórn Íslands studdi ódæðið gegn Írak. Þar kunni að hafa skipt máli að brotthvarf bandaríska hersins frá Íslandi var þá til umræðu : „Það kemur mér í sjálfu sér ekkert á óvart að það hafi verið litið svo á að ákveðin tenging hafi verið á milli íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak og síðan viðræðna við Bandaríkjamenn um varnarmál. Ég geri ráð fyrir því að það hafi verið látið að því liggja af hálfu Bandaríkjamanna, að það gæti liðkað til í viðræðunum, og hið sama hafi gilt af hálfu íslenskra stjórnvalda að stuðningur gæti skapað dálitla inneign."
Finnst Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráhðerra og formanni Samfylkingarinnar, þetta vera hin skiljanlega og eðlilega aðkoma að alþjóðamálum, að stuðningur við árásina á Írak gæti „skapað dálitla inneign"?  ISG hefur að sönnu aldrei lýst stuðningi við þessa innrás, hún hefur látið við það sitja að styðja hernaðinn í Afganistan og fylkt sér þar með  Bush og félögunum í NATÓ. Utanríkisráherra Íslands segir hins vegar að það komi sér „ekkert á óvart" að svona hafi íslensk stjórnvöld hugsað í aðdraganda Íraksinnrásarinnar.  Margur heldur mig sig segir máltækið. Hugsa núverandi stjórnvöld ef til vill á þennan veg í samningamakki sínu  um stuðning við að Ísland taki sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna?
Í framhaldi er óhjákvæmilegt að spyrja hvort við viljum fulltrúa í það ráð ef honum er gert að starfa í nafni  ríkisstjórnar  sem svona hugsar?