VERULEIKAFIRRINGIN OG AFVÖTNUNIN
Forsíðufréttin í Fréttablaðinu á sunnudag var í sjálfu sér ágæt. Þar segir að tekjur ríkisins af starfsemi stærstu bankanna í ár verði að öllum líkindum innan við 12 milljarðar en hafi numið nærri 37 milljörðum í fyrra. Ríkið verði þannig af 25 milljörðum. Eflaust allt satt og rétt. Hvað varðar svigrúm ríkissjóðs á þessi samanburður fyllilega rétt á sér.
Tjónið talið í þúsundum milljarða
En örlar hér á veruleikafirringu? Mig grunar að ekki sé laust við það. Skuldsetning forkólfa bankanna á íslensku þjóðinni hefur sett þjóðarbúið á hliðina með þeim afleiðingum að Ísendingum verður gert að greiða mörg hundruð milljarða króna eða jafnvel meira. Heildartjón þjóðarbúsins verður án efa talið í þúsundum milljarða. Þetta er veruleikinn. Fréttir sem fjarlægja okkur þeim veruleika má með sanni segja að flokkist undir veruleikafirringu.
Leiðsögumenn dæsa
Talsvert er um veruleikafirrta umræðu í fjölmiðlum þessa dagana. Illt er að þurfa að sitja undir mási og dæsi leiðsögumanna okkar út í skuldafenið með aðfinnslur um hvað aðrir gerðu rangt. Þau segja það til dæmis hafa verið hneykslanlegt að þjóðin skyldi ekki vera látin taka meiri lán til að fylla á gjaldeyrishirslurnar svo þau hefðu nægilegt skotsilfur til að gambla með, skítt með það þótt íslenska þjóðin hefði sokkið dýpra í skuldafenið fyrir vikið. Og af hverju var ekki búið að taka upp evru eða dollar? Og náttúrlega reka Davíð.
Vilja koma brennivíni í búðir - afturvirkt
Þetta segja þeir nú sem kusu yfir okkur Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Finn Ingólfsson og Valgerði Sverrisdóttur og núna aftur Guðlaug Þór og Ágúst Ólaf og alla hina sem hafa það helst til málanna að leggja að koma brennivíni í matvöruverslanir. Svo liggur þeim á, að lögin eiga að vera afturvirk og taka gildi 1. júlí (síðastliðinn). Skál.
Málið var sett fram í síðustu viku, nokkrum dögum eftir að Ásta Möller og nokkrir galvaskir félagar í trúnni lögðu til í þingsályktunartillögu að hafist yrði handa af endurnýjuðum krafti við einkavæðingu innan almannaþjónustunnar, því einkavæðing fjármálakerfisins hefði gengið svo frábærlega vel, sbr. https://www.ogmundur.is/is/greinar/okkar-bestu-menn-eru-a-vaktinni og sbr. https://www.ogmundur.is/is/greinar/mal-ad-linni
Á frumstigi afvötnunar
Ég veit ekki hvernig það er á Vogi. Á hvaða degi mönnum er kennt að horfast í augu við eigin gjörðir og byrja að axla eigin ábyrgð? Skyldi sá dagur ekki bráðum renna upp í afvötnunarferli verkstjóra þjóðargjaldþrotsins?