Fara í efni

1. MAÍ ÁVARP Í HAFNARFIRÐI: HÖLDUM HÓPINN

Góðir félagar.

Það er mér heiður að fá að ávarpa hafnfirskt launafólk á  baráttudegi verkalýðsins, fyrsta maí. Ég er viss um að hefði ég sagt frá því á Ingólfstorgi í Reykjavík, þaðan sem ég er að koma, að ég væri að fara á ykkar fund hefði ég verið beðinn fyrir kveðjur. Hinn fyrsta maí sameinumst við öll um sama inntakið – sama boðskapinn, sömu lífssýnina, hvort sem við erum í Hafnarfirði,  á Ingólfstorgi, í London, Tokýó, Kaupmannahöfn eða á Húsavík.

Launafólk um heim allan efnir í dag til fundahalda til að skerpa áherslur sínar, stappa stálinu hvert í annað og hefja baráttufána á loft. Aðstæður launafólks í mismunandi hornum heimsins eru eins ólíkar og hugsast getur. Sums staðar býr fólk ekki við lágmarksmannréttindi og snýst baráttan um að tryggja þau. Annars staðar staðar stendur baráttan um að tryggja jöfnuð í samfélaginu. Alls staðar er tekist á um skipulag samfélagsins. Þannig vill verkalýðshreyfingin um allan heim tryggja samfélagslega eign á vatni, svo nærtækt dæmi sé tekið, en stjórn BSRB hefur nú sent erindi til Stjórnarskrárnefndar um að ákvæði þessa efnis verð fest í stjórnarskrá lýðveldisns. Í fátækum ríkjum heimsins er einnig tekist á um eignarhald á vatni, en þar birtist vandinn á skelfilegan hátt; samkvæmt skýrslum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar er áætlað að 1,7 milljarð manna skorti aðgang að hreinu vatni og að 2,3 milljarðar – tvö þúsund og þrjú hundruð milljónir – þjáist af sjúkdómum, sem annars vegar megi rekja til mengaðs vatns en í auknum mæli til vatnsskorts af völdum hárrar verðlagningar á vatni.

Fyrsti maí á að verða okkur tilefni til að hugsa til þeirra sem búa við erfið kjör og þurfa á samstöðu að halda til þess að rétta sinn hlut.

Launafólk er í mismunandi samtökum og kemur úr mismunandi pólitískum flokkum og fylkingum en í okkar heimshluta og hér á Íslandi eigum við það öll sameiginlegt að vilja verja og efla það samfélag sem byggt var upp á 20. öldinni; það samfélag sem við tölum um sem velferðarþjóðfélagið. Við viljum þróa þetta samfélag inn í nýja öld, gera það kröftugra og skilvirkara svo það fái betur þjónað þeim markmiðum sem því er ætlað að ná.

Verkalýðshreyfingin átti drjúgan þátt í að koma velferðarþjóðfélagi 20. aldar á fót. Krafan um menntun fyrir alla, heilbrigðisþjónustu fyrir alla og húsnæði fyrir alla, er frá henni runnin. Og hvað launakjör og réttindi launafólks áhrærir eru tengslin við verkalýðshreyfinguna enn augljósari enda hreyfingin beinlínis sprottin upp úr baráttu verkalýðsins til þess að bæta kjör sín og jafna aðgang að verðmætum samfélagsins. Ef hægt er að alhæfa um sögulegt hlutverk verkalýðshreyfingarinnar á undangengnum eitt hundrað árum eða svo, þá hefur það verið að hemja markaðsöflin, halda aftur af þeim og beina þess í stað kröftum samfélagsins inn á braut samvinnu og samstöðu. Baráttan við markaðsöflin hefur verið barátta fyrir velferð og jöfnuði og réttindum og öryggi launafólks. Þessi barátta hefur orðið til þess að tryggja jafnvægi í samfélagi sem vill byggja á blönduðu hagkerfi, þar sem þrífast hlið við hlið og í sambúð einkarekstur og samfélagsrekstur.

Framan af var þessi barátta háð innan þjóðríkjanna en nú er hún háð á heimsvísu. Alþjóðavæðingunni, sem svo er kölluð, hefur hins vegar verið hrundið fram fyrir tilstilli fjármagnsaflanna og á þeirra forsendum. Þannig hefur það verið í allt of ríkum mæli. Enn sem fyrr er það okkar hlutverk að mynda mótvægi og leita eftir jafnvægi á vinnustaðnum, í þjóðfélaginu og á heimsvísu. Verkalýðshreyfingin hefur löngum verið alþjóðlega þenkjandi og barist fyrir samstöðu vinnandi fólks um heim allan til að smíða megi veröld sem byggir á grunngildum hreyfingarinnar um jöfnuð og réttlæti.

Hér er við ramman reip að draga og leikur ekki nokkur vafi á því að nú heyjum við varnarbaráttu. Það er af sem áður var. Nær alla tuttugustu öldina var verkalýðshreyfingin og félagsleg pólitísk öfl í sókn. Það varð óumdeilt viðhorf eftir því sem nálgaðist miðbik 20. aldar og langt fram eftir öldinni að samfélagið ætti að byggja upp velferðarþjónustu fyrir alla hvort sem það voru skólar, heilbrigðisþjónusta, veitukerfi, vatnsveitur eða rafmagnsveitur; og að ríki og sveitarfélögum bæri að efla samgöngur, fjarskipti og póstþjónustu. Þetta var hið viðtekna viðhorf. Atvinnurekendur og auðhyggjusinnað fólk deildi ekki um þennan grunn, heldur fyrst og fremst um hve langt skyldi gengið, hve mikið skattlagt og hve mikið framkvæmt. Við réðum umræðunni – menn deildu við okkur. Þjóðarsátt tuttugustu aldarinnar var á okkar forsendum.

Undir lok aldarinnar fer þetta að snúast við. Hingað komu þeir í löngum röðum að boða trú frjálshyggjunnar Hayek, Friedman, Buchanan og hvað þeir nú hétu og nú fóru að birtast skrif í blöðum um hversu skynsamlegt það gæti verið að selja hana ömmu sína, og börnin líka. Ég man eftir greinaskrifum núverandi prófessors við Háskóla Íslands um hversu hagstætt það gæti verið fyrir fátæk ríki að selja ríku þjóðunum börn. Það væri nefnilega þannig, sagði prófessorinn, að sums staðar væri lítið af peningum en mikið af börnum og annars staðar mikið af peningum en lítið af börnum. Þetta þýðir, sagði prófessor Hólmsteinn, að grundvöllur er fyrir viðskipti með þessa vöru. Öll mannleg samskipti skyldu með öðrum orðum fara fram á markaðstorgi. Prófessornum kom ekki til hugar að fólk tæki að sér börn af ást og umhyggju. Nú kvað við nýjan tón. Og þessi tónn hefur orðið stöðugt háværari.

En þeir unnu heimavinnuna sína, peningahyggjumennirnir sem við höfum sýnt þann misskilda sóma að kalla frjálshyggjumenn, því frelsi er nefnilega ekki þeirra markmið. Hitt verður ekki frá þeim tekið að þeir hafa sýnt dugnað; ræktað garðinn sinn, yrkjað jörðina. Þeir sáðu í hana pólitísku fræi og hlúðu síðan að jarðveginum með stöðugu nostri. Nú hafa þeir uppskorið af erfiði sínu, og ávöxtinn af þessari jarðvinnu hafa þeir, og samverkamenn þeirra í pólitík og bisniss, verið að færa upp á veisluborðið á undanförnum árum. Svo langt hafa þeir náð að sú þjónusta fyrirfinnst vart, sem byggð var upp með félagslegu átaki á liðinni öld, að hún sé ekki kominn á færiband einkavæðingarinnar.

Og við? Við erum komin í bullandi vörn. Það er ekki auðvaldið sem þarf að réttlæta ránsfeng sinn. Nei, það erum við sem þurfum að sýna fram á að það sé réttlætanlegt að standa saman að rekstri samfélagslegrar þjónustu. Þeir eru að vísu, auðmennirnir, tilbúnir að semja um að við borgum þeim fyrir veitta þjónustu með sköttum – alveg sjálfsagt mál. En að við ætlum okkur þá dul að vilja að samfélagið standi sjálft að rekstrinum þykir fáheyrt. Við þurfum að sanna það fyrir kumpánunum í VÍS og Samson – réttlæta gagnvart þeim að Landssíminn og grunnnetið eigi að vera í almannaeign og að ekki beri að einkavæða grunnskólann í Áslandi. Og viti menn, einnig á meðal fólks sem vill kenna sig við jöfnuð og félagslegt réttlæti er þetta sama upp á teningnum. Svo fullkomlega öfugsnúinn er heimurinn orðinn að það er fulltrúi hægri manna, að vísu góður félagi í BSRB, sem einn andæfir því í bæjarstjórn Hafnarfjarðar þegar ræstingar eru boðnar út í skólum til þess væntanlega að spara launakostnað – spara á kostnað þess fólks sem minnstar hefur tekjurnar.

Hvað hefur gerst frá því að við í verkalýðshreyfingu og félagshyggjupólitík settum tóninn? Settum tóninn í stað þess að bregðast við kröfu og kalli kapítalismans. Það sem hefur gerst er þetta: Viðhorfum, þankagangi hefur verið snúið við – á hvolf vil ég kalla það. Nú er það normið – hið eðlilega að menn selji ömmu sína, hið samfélagslega hefur verið gert tortryggilegt, það hefur verið sjúkdómsvætt. En ég spyr: Hvaða vandamál eru valdhafarnir að leysa? Engin. Þeir sveipa hinn heilbrigða sjúkdómsklæðum. Þeir búa til vandamál sem ekki voru til. Landssíminn, þjónustufyrirtæki í eigu almennings, er orðinn að vandamáli, að sjúklingi. Hann hefur skilað tugum milljarða í ríkissjóð síðustu árum, vesalingurinn litli, og hann bauð upp á ódýrustu símtöl í heiminum. Það verður að gera eitthvað, það verður að lækna svona sjúkling, það er ekkert annað að gera en að selja, segja sérfræðingarnir. Og svo er selt og gefið – því allt þykir þessum mannskap betra en samfélagseign. Það er búið að gefa bankana, fiskimiðin, leggja niður sjóflutninga. Hvað næst: Selja vegakerfið? Raforkunetið? Húsnæðiskerfið? Tryggingakerfið? Spítalana? Öldrunarþjónustuna? Útvarpið? Já, allt þetta verður selt og gefið ef gróðaöflin ná sínu fram. Og þetta eru vondar lausnir á vandamálum sem ekki eru til. En hinn heilbrigði skal læknaður. Og sigri hrósandi segja síðan hinir gjafmildu og söluglöðu stjórnarherrar að allir séu að hagnast. En þegar að er gáð er engin verðmætaaukning falin í þessari hagstjórn. Duldar eignir okkar allra eru hins vegar gerðar sýnilegar, settar á markaðsvogina og þá sjást þær og allir hrópa: Sjáið hvað kapítalistarnir eru duglegir, þeir eru búnir að margfalda eignirnar. Þetta eru sjónhverfingar en þetta er líka hömluleysi. Af því hlýst ekkert gott. En upp á það horfum við núna. Við horfum upp á óhóf og hömluleysi; samfélag sem ekki ræður við að beisla náttúruöflin. Það er auðveldara að beisla Kárahnjúka en kapítalista, en beislaðir kapítalistar eru lausn á raunverulegu vandamáli, hitt er bara kostnaður og náttúruspjöll.

Einu sinn var slagorð Sjálfstæðisflokksins: Við erum öll í sama báti og Stétt með stétt. Þá var verið að vísa í jöfnuð og samkennd, þetta var þegar við í verkalýðshreyfingunni settum tóninn. Nú þykir slíkt tal lummó, fáránlegt og úrelt. Því meiri munur á fólki, því betra. Síminn sem í nýlegum auglýsingum lofaði að láta draumana “gerast” eins og það hét, er bara byrjunin. Meiri alúð hjá okkur, umhyggja á tíkall og ennþá meiri fyrir þá sem geta borgað. Þannig verða slagorðin ef ekki tekst að beina samfélaginu inn á skynsamlegri brautir.

Hvernig gerðist þetta? Ég held að margt hafi komið til en til grundvallar liggur löngun fjármagnsins að komast yfir grunnþjónustu samfélagsins. Á þeim bænum vita menn sem er að til eru þarfir sem ætíð þarf að sinna. Fólk heldur áfram að verða veikt, börn þurfa á fræðslu að halda, aldnir á umönnun, öll þurfum við drykkjarvatnið, hitann, rafmagnið og vegi til að aka á. Allt það sem samfélag 20. aldarinnar byggði upp vildu nú hugmyndasnauðir fjármálabraskarar hinnar 21. komast yfir. Hvenær hefði okkur komið til hugar á öldinni sem leið að samtök launafólks teldu lífsnauðsyn að fest yrði í stjórnarská að aðgangur að vatni heyrði til mannréttinda og að eignarhald á því skyldi jafnan félagslegt?  

En hvers vegna fengu auðhyggjumenn hina breiðu pólitík til fylgilags við sig? Ég held að þetta hafi gerst svona: Undir lok 20. aldarinnar sáu menn opinbera geirann verða sífellt umsvifameiri í þjóðarbúskapnum, sífellt hærra hlutfall efnahagstarfseminnar. Þótt þetta hafi verið fullkomlega eðlilegt þá óx mörgum þetta í augum og vildu stemma stigu við þessari þróun. Hvernig skyldi það gert? Jú, menn höfðu tekið eftir því að fólkið sem starfaði innan opinbera geirans var sífellt með kröfur uppi; reisti kröfur fyrir hönd skjólstæðinga sinna, skólanemanna, þeir máttu ekki vera of margir í bekkjardeildinni; reisti kröfur fyrir hönd sjúklinganna, þeir máttu ekki fara of snemma heim af spítalanum en jafnframt vildu starfsmennirnir hærra kaup, og það sama hvernig viðraði í efnahagslífinu. Þetta fólk hafði alltaf sitt á þurru. Fyrirtæki sem gekk illa var og er nauðbeygt til að segja upp fólki, á ekki annarra kosta völ ef efnahagurinn brestur. En sjúkrahúsið getur ekki lokað, ekki heldur skólinn og í þessu skjóli skákaði þessi mannskapur, sögðu menn.

Á hinum alþjóðlegu hugmyndaverkstæðum peningahyggjunnar fundu menn nú lausn á þessum vanda:  Við gerum opinbera starfsemi háða sömu lögmálum og einkafyrirtæki. Það ætti að lækka rostann í kröfugerðarfólkinu. Og hafist var handa um að gera nákvæmlega þetta.

Hugmyndin gekk út á að pólitíkin skyldi ákveða markmiðin, hvaða þjónustu ætti að veita og hvað hún ætti að kosta. Síðan yrðu gerðir þjónustusamningar. Engu máli ætti að skipta hvort rekstrarðilinn væri opinber eða einkarekinn, því báðir myndu starfa samkvæmt markaðshugsun. Í hinu nýja kerfi er dregið úr miðstýringu. Allar kjaraákvaðranir  færðar inn á vinnustaðinn. Ákveðin upphæð þar til ráðstöfunar. Hljómar vel. Eða hvað?

Ég hef stundum nefnt dæmi frá Nýja Sjálandi - skóla. Kennararnir fögnuðu nýju kerfi. Ástandið gæti varla versnað sögðu kennarirnir, kröfuharðir um eigin hag en ekki síður fyrir hönd skólans síns. Smám saman áttuðu þeir sig nú á því að með þvi að slaka á kröfum sem þeir áður höfðu gert um stærð bekkjardeilda, viðhald skólans og fleira gætu þeir fengið meira í sinn hlut. Það er jú föst fjárhæð til ráðstöfunar. Og nú var spurt: Þarf virkilega tvo húsverði, var skólinn ekki málaður í fyrra, þarf nokkuð að mála aftur núna?Og - ég get bætt á mig nemendum kennarans sem er að hætta - og hvers vegna ekki leyfa foreldrum sem vilja börnum sínum vel að borga skólagjöld? Kennararnir höfðu komið auga á samhengið á milli eigin pyngju og þess að spara í þjónustunni. Niðurskurðarsveðjan var með öðrum orðum komin í þeirra hendur og það voru þeir sem nú reistu kröfur sem nýsjálenska Verslunarráðið hafði áður verið eitt um að reisa varðandi skólagjöldin. Brilljant lausn fyrir Verslunarráðið. En slæm fyrir notandann, skólanemann, sjúklinginn og þjóðfélagið allt, því nú hafði varðmaður velferðarinnar, hinn almenni starfsmaður, starfsmaður velferðarþjónustunnar verið tekinn af vaktinni – alla vega var nú kerfisbundið unnið að því að taka hann af vaktinni.

En hver og hvað skyldi koma í hans stað? Eftirlitsstofnanir. Eftirlitsiðnaðurinn blómstrar sem aldrei fyrr í tengslum við hin markaðsvæddu kerfi. Enda veitir ekki af. Nú þarf að kanna hvort ræstifyrirtækið notar góða sápu á gólfin, hvort kjöt er yfirleitt að finna í kjötsúpunni sem samkvæmt þjónustusamningnum á að vera á boðstólum á dvalarheimili aldraðra í hádeginu á miðvikudögum – eða er kannski bara nagli í súpunni?

Breska verkalýðsfélagið Unison hefur gert ítarlega könnun á þessu nýja fyrirkomulagi og fundið út að samfélagsþjónusta sem hefur verið einkavædd er miklu dýrari en sú sem er rekin af samfélaginu og að þar sem hún er ódýrari hefur jafnan leynst maðkur í mysunni. Fangelsi sem reyndust ódýrari í rekstri eftir markaðsvæðingu höfðu sparað á kostnað starfsmanna og nýleg könnun sýndi að í Bretlandi hefði mataræði skólabarna stórhrakað og tengdist það markaðsvæðingu skólaeldhúsanna. Jamie nokkur Oliver sýndi fram á það í sjónvarpsþætti nýlega að í skólunum væru börnin nú fóðruð á hökkuðu kjöti og frönskum kartöflum nær allan ársins hring. Og í hakkaða kjötinu væri afskaplega lítið af kjöti. Þannig væri uppistaðan í geysivinsælum kalkúnaskrúfum ekki kalkúnakjöt heldur fita, hamur og  aukaefni. Sömu sögu væri að segja um annan mat. Ábendingar sjónvarpsstjörnunnar urðu til þess að Verkamannaflokkurinn rankaði við sér og hét því að auka fjármagn til að bæta skólamáltíðir. Hins vegar ætlar það ekki að reynast auðvelt. Mörg einkafyrirtæki sem gerðu samninga við grunnskóla, þegar einkaframkvæmdarleiðin var valin og matseld í skólunum boðin út, hóta að höfða mál gegn ríkinu ef samningum verði breytt. Sumir skólar höfðu gert langtímasamninga upp á 25 ár við einkafyrirtæki og ekki bætir úr skák að sum einkafyrirtæki er handsöluðu samninga við ríkið á sínum tíma hafa framselt þá til annarra fyrirtækja og nú standa Bretar frammi fyrir því að ekki er hægt að bæta matseldina í breskum grunnskólum án þess að einkafyrirtækin krefjist hárra skaðabóta. Þau fyrirtæki prísa sig hins vegar sæl með að geta fóðrað börn á mat sem kostar ekkert og hirt hagnaðinn.

Og nú spyr ég, eru ekki vítin til að varast þau? Er ekki kominn tími til að kveða þennan draug frá árdögum kapítalismans niður? Segja honum að hann hafi verið uppi  á annarri öld, þeirri nítjándu og eigi ekkert erindi inn í þá 21.

Einu sinni voru támjóir skór í tísku. Þá voru allir í támjóum skóm. Nú er í tísku að einkavæða. Og allir einkavæða. Nú er komið að því að vísa peningahyggjutískunni á bug. 

Hafnfirðingar voru ekkert  bangnir við það fyrr á tíð að hugsa sjálfstætt – og ríða á vaðið ef þörf var á. Það var í verkamannafélaginu Hlíf hér í Hafnarfirði sem fyrst var orðuð sú hugsun – langt á undan öllum öðrum - að reisa bæjarútgerð með sameiginlegu átaki allra íbúanna. Sá draumur varð að veruleika. Bæjarútgerðin gegndi mikilvægu hlutverki á sinni tíð en hún eins og margt annað var barn síns tíma. Lærdómurinn er hins vegar sá af þessari upprifjun að hafnfirskt verkafólk sýndi  bæði framsýni og þor til að leggja grunninn að bættum lífskjörum. Óháð tískustraumum vildu Hafnfirðingar gera það sem skynsemin bauð og réttlætiskenndin. Og í samstöðu þessa fólks, bræðra og systralagi verkafólksins reyndist fólgin orka, kraftur sem ekki má vanmeta á efnishyggjuöld. Með þessum krafti var íslenskt þjóðfélag reist úr öskustónni og gert að því sem það er í dag. Sá lærdómur sem við getum dregið af reynslusögum úr hafnfirskri verkalýðsbaráttu er sá að samfélag getur lifað af, þótt kapítalistarnir bregðist. Hitt vitum við að kapítalistarnir munu ekki lifa af ef launafólk bregst. Það er okkar verkefni að stimpla inn þennan sannleika.

Við skulum stimpla það inn í vitund okkar sjálfra og þjóðarvitundina og fylgja þeirri hugsun síðan eftir inn á vinnustaðina og inn í Stjórnarráðið, þangað til að hún verður að veruleika, að það er almenningur, þjóðin, sem á þetta land og þau verðmæti sem hér hafa verið sköpuð.  Og hver er þessi almenningur? Það erum við sem gerum þjóðina að þjóð; það er fólkið sem kyn fram af kyni hefur byggt þetta land, stundum meira af vilja af mætti. Allar þær óteljandi andvökunætur, allar þær hljóðlátu hetjudáðir, sem hvergi eru skráðar. Hundrað þúsund kærleiksbros og milljónir kossa á barnsvanga á leið í skóla. Allt það starf sem hvergi er skráð í hagtölurnar. Milljarðar og milljarðar á milljarða ofan, af óeigingjörnum handtökum. Ef ósvífnir yfirgangsmenn misnota langlundargeð almennings þá fer illa. Græðgina verður að hemja. Allir menn hníga að lokum í duftið og þurfa á öðrum að halda á langri leið. Kærleikur verður hvorki keyptur né seldur. Alvöru kærleikur er skilyrðislaus, og það er auðvelt að misnota hann.

Ég segi: Stöldrum við í gróðaæðinu, sem virðist ríkja og hyggjum að því hvort ekki sé fleira verðmæti en það sem verður metið til fjár. Sá einn telur sig vera ríkan, sem á meira en hann þarf. Hversu mikið þurfum við til að telja okkur rík? Verðum við kannski aldrei rík? Hvenær verðum við nógu rík til að búa öryrkja sæmilegt líf? Þarf virkilega alltaf eitthvað annað fyrst? Mislæg gatnamót eða hærri eftirlaun fyrir hina efnameiri, sem finnst þeir alltaf fátækari og fátækari? Til þess er samfélag að hjálpast að. Það er vettvangur þar sem við skiptum með okkur verkum. Ef við tökum höndum saman, þá helst sá uppi sem hrasar.

Höldum hópinn.
Sleppum aldrei.
Ef við getum ekki reist þann við sem hrasar, þá þurfum við ekkert að leiðast lengur. Þá fer hver sína leið.
En við skulum halda hópinn. Fyrsti maí er baráttudagur verkalýðsins – hann er sá dagur þar sem við minnumst þess hvers virði samstaðan er. Á þessum degi strengjum við þess heit að standa saman.

Góðir félagar. Stöndum saman um að gera þjóðfélagið betra og réttlátara.