1. MAÍ RÆÐA Á BARÁTTUFUNDI VERKALÝÐSFÉLAGANNA Á AKUREYRI
Góðir félagar og gestir.
Það er mér ánægjuefni að vera hér á Akureyri á baráttudegi verkalýðsins.
Íslenskt þjóðfélag tekur örum breytingum. Margt hefur orðið til góðs, tækninni hefur fleygt fram og okkur tekst nú að framkvæma ýmislegt sem áður var ógerlegt. Fólk, hrjáð af illvígum sjúkdómum, sem fyrr á tíð gat ekki átt nokkra von um lækningu eygir nú slíka von. Framfarirnar gera þannig lífið bærilegra fyrir marga. Erfiðisvinnustörf fyrri tíðar eru nú mörg hver orðin tæknivædd og auðveld viðfangs. Greiðar samgöngur, í lofti, á láði og legi og um netheima hafa gerbreytt lífi okkar og opnað nýjar víddir möguleikanna. Viðhorf til menntunar og aðgangur að menntun hefur einnig gjörbreyst. Gamla lokaða prófgráðuþjóðfélagið – þar sem menntun lauk með prófi – líkt og poki er fylltur kartöflum og bundið fyrir - víkur smám saman fyrir samfélagi sem byggir á stöðugri menntun og endurhæfingu. Hér hefur verkalýðshreyfingin unnið mikið starf og gott; því það er hún sem hefur staðið í fararbroddi breytinganna.
Forgöngumenn þess að Menningar- og fræðslusamband alþýðu,
Svo er það hitt,
að baráttan fyrir réttlæti lyftir öllum,
barátta fyrir réttlæti göfgar samfélagið og gerir það betra.
Þrátt fyrir allar framfarirnar – tækninýjungarnar og vinnuhagræðið – þá fer því fjarri að þeir fyrirfinnist ekki lengur sem erfiði og þunga eru hlaðnir. Það er bæði líkamlega og andlega erfitt og slítandi að sinna sjúkri ósjálfbjarga manneskju. Það þekkja hjúkrunar- og umönnunarstéttirnar mæta vel. Fréttir síðustu daga af aðbúnaði verkamanna í frárennslisgöngunum undir Þrælahálsi þar sem Impregíló lætur bora í gegnum bergið hafa minnt okkur rækilega á mikilvægi verkalýðsbaráttunnar. Við eigum rétt á að fá trúnaðargögn lækna í okkar hendur, sagði fulltrúi auðhringsins þegar fundið var að því að forstjórar voru komnir með vitneskju um allt sem fram hafði farið á milli lækna og verkamanna. Við eigum rétt á þessu því það vorum við sem stóðum straum af kostnaði við heilsugæsluna. Við borgum, við eigum, við ráðum.
Eða með öðrum orðum: Ég má þetta, ég á þetta.
Þetta er einkavæðingin í hnotskurn. Valdið er fært í hendur þeirra sem ráða yfir auðnum. Í hendur auðvaldsins. En einkavæðingin er ekki bara hlutlæg, hún er líka huglæg. Og þetta er einkavæðing hugarfarsins. Þetta er hugsun þeirra og afstaða sem hafa afsiðast – lagt af þá mannasiði sem mannréttinda- og menningarþjóðfélagið kennir okkur. Þetta er hugarfar hins óupplýsta sem heldur að auðsöfnunin sjálf geri hann rétthærri í samskiptum við annað fólk.
Þetta vald og þetta hugarfar hefur á undanförnum árum verið að læsa klóm sínum um þjóðarlíkamann allan.
Þeir sem í krafti auðs taka sér völd og beita þeim í eigin þágu gegn samferðamönnum sínum láta virðinguna fyrir því sem lýðræðissamfélagið hvílir á lönd og leið, beita valdi þar sem ætti að taka tillit til annarra, hunsa skoðanir minnihluta þegar þeir ættu að taka tillit til hans; Þeir sem þannig haga sér gera sér ekki grein fyrir hvaða frið þeir eru að slíta í sundur. Þess vegna segi ég: Þeir eru óupplýstir.
Þeir halda að frelsið – þetta margbreytilega hugtak – það sé fyrir þá, og þá eina. Þeir halda að frelsið sé réttur þeirra til að ráða. Þeir halda að frelsið sé bara fyrir hina fjáðu. En þeir eiga ekki frelsið.
Gegn þessu heyr verkalýðshreyfingin nú baráttu. Stundum þurfum við að verjast. Stundum sækjum við fram. Bæði vörn og sókn skilar árangri.
Það er baráttu verkalýðshreyfingarinnar að þakka þegar Impregíló er knúið til undanhalds. Það er henni að þakka að bæjarstjórnin í Snæfellsbæ fær þann dóm í Hæstarétti að fólki verði ekki sagt upp á grundvelli duttlungastjórnunar og valdníðslu. Það er henni að þakka að aldrei er staðið upp frá samningaborði án þess að rætt sé um kjör sjúkra og atvinnulausra.
Mikilvægi samtaka launafólks hefur sjaldan verið meira en nú. Hlutverk þeirra er nýtt og annað en oft áður. Hlutverk okkar er að tryggja jafnvægi, verjast ásókn gróðaaflanna, sem hugsa ekki lengra en fram að næsta tíkalli sem hægt er að næla sér í. Við hugsum lengra, við hugsum samfélagslega. Við hugsum um alla. Við hugsum einsog fjölskylda. Það þarf atvinnu, það þarf umönnun, það þarf vatn, það þarf rafmagn, það þarf menntun. Það þarf að sinna ungviðinu. Það þarf að sinna þeim eldri. Það þarf að safna fyrir mögru árin. Það þarf að byggja hús. Það þarf að tryggja stöðugleika. Við viljum ekki fá lán fyrir lífsgæðum. Það er óþarfi. Okkur liggur ekki svona mikið á. Við erum ekki svo óhamingjusöm að við þolum ekki við nema í verðbólgu og fölsuðum lúxus. Kaupmáttarmælingar mæla ekki verðbólgu framtíðarinnar. En það gerir verðtrygging. Og verðtrygging hefur fílsminni. Hún rukkar okkur og börnin okkar eftir tuttugu ár um verðhækkanir ársins í ár. Það er launarýrnun framtíðarinnar. Þess vegna er jafnvægi og lág verðbólga lykilatriði og verkalýðshreyfingin hefur tryggt þann stöðugleika síðastliðin tuttugu ár, þrátt fyrir óskynsamlega stefnu ríkisstjórnarinnar oft og tíðum. En nú hefur okkur brugðist bogalistin – orðin skuldugasta þjóð heimsins og á hraðri leið inn í amerískt misréttisþjóðfélag. Við máttum ekki við hagstjórnarmistökum stjórnvalda, dekri þeirra við bankana og einkavæðingaræðinu.
Nú þarf að ná tökum á efnahagsástandinu. Hagvöxtur sem byggir á lánum og eyðslu er falskur hagvöxtur og hann getur hrunið fyrr en varir. Stöðugleikinn, jafnvægið, skiptir okkur öllu máli, heimili sem fyrirtæki. Þau þurfa að búa við öryggi en ekki óðaverðbólgu og vaxtaokur.
Það verður ekki hægt að koma á skynsemi í atvinnu- og efnahagsmál þjóðarinnar nema með samstilltu átaki, án aðkomu almennings, án þátttöku samtaka launafólks - verkalýðshreyfingarinnar - og þeirrar hugsunar sem þar ríkir verður það aldrei gert. Hjá verkalýðshreyfingunni ríkja sjónarmið yfirvegunar og skynsemi og ofar öllu öðru ásetningur um að tryggja réttlát skipti. Þetta eru sjónarmið heildarinnar. Og nú er komið að því að almannahagsmunir ráði för.
Og það getum við látið gerast. Það má aldrei gleymast hve mikill galdur hugarfarsins er. Hinn almenni launamaður hefur öll þau völd sem hann vill hafa. Með samstöðu og samtakamætti getur launafólk haft þau áhrif sem það vill.
Verkefni verkalýðshreyfingarinnar á komandi árum eru mörg. Ég ætla að nefna nokkur málasvið:
1) Í fyrsta lagi þarf að tryggja jöfnuð og stöðugleika. Við þekkjum þetta úr barnaafmælisboðunum. Súkkulaðikakan dugði fyrir hópinn ef hver fékk sína sneið. Hún hefði aldrei dugað fyrir alla ef skiptingin hefði verið í samræmi við tekjuskiptinguna á Íslandi í dag. Einn tíundi hluti þjóðfélagsins tekur til sín fjórðung allra tekna landsmanna. Krakkarnir hefðu séð ranglætið í barnaboðinu ef einn afmælisgesturinn hefði hámað í sig fjórðunginn af kökunni. Réttlætiskenndin má ekki dofna þótt aldurinn færist yfir. Og gleymum því aldrei að þetta snýst ekki bara um réttlæti heldur einnig um að skapa kraftmeira þjóðfélag. Við höfum verið minnt á það í nýlegri rannsóknarskýrslu að með því að örva eldra fólk til atvinnuþátttöku lengur en nú gerist muni allt efnahagskerfið hafa hag af. Því fleiri sem fá betri kaupmátt þeim mun almennari verður þátttakan í verslun og viðskiptum og það sem meira er: Jafnari tekjuskipting er ávísun á innlenda neyslu fremur en erlenda því með auknum almennum kaupmætti verður lágtekjumaðurinn líklegri til að geta keypt sér eigin íbúð, farið oftar í leikhús, keypt fleiri bækur og ferðast meira um landið. Hann heldur ekki upp á afmælið sitt á glæsihótelum í útlöndum fyrir tvö hundruð milljónir, hann kaupir sér ekki prívatþotu í Bandaríkjunum eða glæsivillu á Bahamaeyjum. Því jafnari sem kaupmátturinn verður því meiri almenn efnahagsþátttaka, þeim mun kraftmeira þjóðfélag og öflugra.
2) Í öðru lagi mun verkaýðshreyfingin gera allt sem í hennar valdi stendur til að útrýma fátækt. Það er staðreynd að efnalítið fólk veigrar sér við að leita lækninga fyrir sig og börn sín. Sjúklingagjöldin hafa hækkað jafnt og þétt og skapa stöðugt meira misrétti. Menn hafa deilt um það hvort fátækt og misrétti hafi aukist í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Gagnstæð sjónarmið hafa komið fram. En eitt er víst, að fátæk móðir veit hvað fátækt er þegar hún getur ekki veitt barni sínu sömu lífsgæði og aðrir foreldrar veita sínum börnum. Fátækur einstæður faðir – verkamaðurinn – sem ekki getur borgað meðlag með börnum sínum og er dæmdur til útskúfunar – hann veit hvað fátækt er. Það er óvéfengjanleg staðreynd að það er erfiðara nú en það var fyrir fimmtán árum að vera tekjulítill og sjúkur. Það er erfiðara nú en fyrir fimmtán árum að vera tekjulítill og í húsnæðisþörf og það er erfiðara nú en fyrir fimmtán árum að vera tekjulítill og með börn á framfæri. Þessu þarf að breyta með markvissri aðgerðaráætlun.
3) Í þriðja lagi mun verkalýðshreyfingin standa vörð um velferðarþjónustuna. Á síðasta ári sameinaðist verkalýðshreyfingin í baráttu fyrir því að tryggð yrði almannaeign á vatni – í þessari herferð tóku höndum saman með verkalýðshreyfingunni fjölmörg mannréttinda- og umhverfisverndarsamtök. Í gær bárust þær fréttir að ríkisstjórnin hefði afráðið að selja hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja. Þetta er siðlaus ákvörðun – ekki síst í ljósi þess að 12 dagar eru til kosninga! En það er ekki bara vatnið og rafmagnið sem tekist er á um heldur allt velferðarkerfið. Sterk hagsmunaöfl vilja gera sér velferðarþjónustuna – ekki síst heilbrigðisþjónustuna – að féþúfu. Og gleymum því ekki að sumir bisnissmennirnir eru á hvítum sloppum. Þrýstingurinn til einkavæðingar kemur óþægilega oft innan úr sjálfri heilbrigðisþjónustunni, frá aðilum sem vilja maka krókinn. Það ekkert og enginn sem bannar að rekin séu einkasjúkrahús. Menn mega stofna allan þann einkapraxís sem hugurinn girnist. Það sem deilan snýst um er þegar fjárfestar sem vilja reka velferðarstofnanir í hagnaðarskyni vilja að skattborgarinn fjármagni þá án nokkurra skuldbindinga. En viljum við fjármagna með sköttum okkar kerfi sem byggir á mismunun, byggir á því að hinn efnameiri geti keypt sig fram fyrir í röðinni? Ég segi: Að því marki sem heilbrigðisþjónustan er í einkarekstri verður hún að lúta samningum við heilbrigðisráðuneyti og Tryggingastofnun í einu og öllu vilji hún á annað borð fá skattfé til ráðstöfunar. Niðurgreiðsla á mismununarkerfi kemur aldrei til greina.
4) Í fjórða lagi þurfum við að laga okkur að breyttum og opnari vinnumarkaði. Þegar saman fer opinn markaður og mikil þensla, haldið við með gríðarlegum framkvæmdum þá er ekki að sökum að spyrja - hingað streymir fólk án afláts. Ég hef áður varað við því að við megum ekki fara of geyst í sakirnar. Við verðum að geta búið fólki mannsæmandi kjör og réttindi eins og þau gerast best hjá íslenskum þegnum. Að öðrum kosti verður hér klofið samfélag. Það er sérstakt fagnaðarefni þegar sett voru lög á Alþingi í upphafi árs sem eiga að tryggja að allir, jafnt innlent fólk sem aðkomufólk skuli njóta þeirra kjara og réttinda sem kveðið er á um að skuli gilda að lágmarki í íslenskum kjarasamningum. Lofsvert var hvernig staðið var að þessari lagasetnnigu en hún byggði á víðtækri sátt aðila vinnumarkaðar, ASÍ, BSRB, BHM og SA.
Það er rangt sem stundum er sagt að Íslendingar sætti sig ekki við sum störf og flýi þau af þeim sökum. Hið rétta er að þeir sætta sig ekki við þau kjör sem í boði eru og flýja þau af þeim sökum. Þetta er nú að gerast á sjúkra- og hjúkrunarstofnunum. Fólk sættir sig ekki við vinnuálag, aðbúnað og launakjör, hugsanlega í þessari forgangsröð; neitar í síauknum mæli að vinna störfin. Við komum til með að glíma við manneklu á vissum þjónustusviðum á komandi árum ef ekki verður gripið í taumana. Þetta sama er einnig að gerast í ýmsum iðngreinum. Iðnnám hefur ekki fengið þá athygli sem annað nám hefur fengið og ekki hefur verið búið nægilega vel að ýmsum iðnstéttum. Í löndunum í kringum okkur hefur það víða gerst að í umönnunarstörfin og í ýmsar aðrar atvinnugreinar flykkist fólk frá svæðum í heiminum þar sem atvinnuleysi er mikið. Fólk sem búið hefur við skort er líklegra til að sætta sig við lakari kjör en ella væri og atvinnurekandi stendur frammi fyrir þeirri freistingu að fella gæðakröfur í ábataskyni. Þess vegna var fyrrnefnd lagasetning mikilvæg. Við skulum ekki gleyma því að á útrásinni margumtöluðu er til önnur hlið: Innrás inn í þau kjara- og réttindakerfi sem verkalýðshreyfingin í okkar heimshluta hefur byggt upp. Það er ekki hið erlenda verkafólk, sem stendur fyrir slíkri innrás heldur þeir sem vilja notfæra sér neyð þess. Baráttan um þjónustutilskipun Evrópusambandsins er baráttan um grundvöll velferðarsamfélagsins, hvort flytja megi lakari réttindakerfi landa á milli og hvort opna eigi markaðsöflunum allar gáttir.
Hvað varðar erlent aðkomufólk, vil ég leggja höfuðáherslu á að við forðumst allt sem klýfur þjóðfélagið. Við skulum aldrei gleyma að aðgát skal hafa í nærveru sálar og óvarleg orð geta verið særandi. Við skulum þá einnig gæta að hinu: Að úthrópa ekki hvern þann sem vill ræða þessi mál, við megum ekki ætla mönnum sem hafa áhyggjur af þenslunni og aðstreymi erlends launafólks til landsins illar hvatir. Umburðarlyndi og víðsýni á að ná til allra.
5) Í fimmta lagi verður okkur að takast að breyta viðhorfum til umönnunarstarfa. Með því yrði stigið stórt skref til að útrýma launamun kynjanna. Ekkert hefur þokast í þessum efnum í allt of langan tíma. Þá þurfum við að afnema launaleynd. Launaleyndin er meinsemd því í skjóli hennar þrífst misréttið – ekki síst kynbundið launamisrétti. Misréttið er vissulega óþolandi hvort sem í hlut á karl eða kona og það er staðreynd að almenn kjarajöfnun á íslenskum vinnumarkaði yrði til þess að bæta stöðu kvenna gangvart körlum því þær eru fjölmennari í láglaunastéttum landsins.
6) Í sjötta lagi á verkalýðshreyfingin að taka höndum saman með Öryrkjabandalagi Íslands um að tryggja að nýbreytni við mat á örorku verði öryrkjum raunverulega til hagsbóta en ekki fjötur um fót. Hugmyndin að baki nýtilkomnum áformum um breytingar er að framvegis verði horft til þess sem einstaklingurinn getur gert en ekki einblínt á það sem hann er ófær um. Þetta þýðir að örorka á ekki að jafngilda því að fólk verði dæmt úr leik fyrir lífstíð heldur verði kappkostað að hjálpa fólki með endurhæfingu að öðlast orkuna að nýju. Þetta er góð hugsun en því aðeins að framkvæmdin verði raunverulega í þessum anda en ekki til kjaraskerðingar.
7) Að lokum og í sjöunda lagi vil ég nefna – heimsvæðinguna, útrásina og ábyrgð okkar Íslendinga á alþjóðavettvangi. Útrás og fjárfestingar erlendis þurfa ekkert síður en hér innanlands að byggja á góðu siðferði og réttlæti – það er ekkert betra að níðast á fátæku fólki í útlöndum en heima fyrir. Lífeyrissjóðirnir sem fest hafa gríðarmikla fjármuni í útrás íslenskra fjárfesta og fyrirtækja hafa hver á fætur öðrum verið að koma sér upp siðareglum um fjárfestingar. Það verður verkefni komandi ára að tryggja að fjármunir íslensks launafólks verði ekki misnotaðir og að það afl sem auðurinn veitir verkalýðshreyfingunni í þessu tilliti verið nýtt til góðra verka en ekki notað í þágu þeirra sem troða á réttindum launafólks og öðrum mannréttindum.
Góðir félagar.
Okkur er sagt að nú drjúpi smjör af hverju strái á Íslandi og að við eigum að krjúpa og þakka í þögulli bæn fyrir þeim örfáu mönnum, sem við eigum allt að þakka. Eignauppbygging og harðfylgi kynslóðanna sem á undan komu, segja menn nú að skipti engu máli. Þær kynslóðir sköpuðu engar eignir. Og það litla sem það var skal nú selt og gefið. En hvernig má það vera að sameign þjóðarinnar er svona mikils virði strax eftir söluna, en einskis virði þegar hún er í eign þjóðarinnar? Hvernig stendur á því að auðmennina langar svona óskaplega mikið í þetta verðlausa drasl? Ríkiseignirnar. Hvernig stendur á því að auðmennirnir stofna aldrei nein ný fyrirtæki, skapa ekki ný atvinnutækifæri, finna aldrei neitt upp, fá aldrei neinar hugmyndir? Takið eftir: Það er frumkvöðullinn, hugmyndasmiðurinn - það er fyrirtækjasmiðurinn sem skapar í samvinnu við launamanninn. Það gerir ekki braskarinn með naglaklippurnar.
Okkur er sagt að allir hafi það betra en fátækt sé ekki hægt að útrýma. Það er ekki rétti tíminn. Það er ekki rétti tíminn til að hjúkra öldruðum, það er ekki rétti tíminn til að minnka biðlista, það er ekki rétti tíminn til að jafna kjörin. Fyrst verður að efla ríkissjóð. Fyrst verður að greiða arð. Fyrst verður að lána peninga úr landi. Fyrst verður að verðlauna forstjórana. Annars flytjast þeir úr landi. Þeir sem sköpuðu auðinn.
Hlýðnin er skylda, sem þjóðin verður að þekkja,
Þjóðin sem heild, hver einstakur maður og flokkur.
Við stöndum svo tæpt. Það er staðreynd, sem enginn má hnekkja,...
Svona orti Steinn Steinarr, í sínum kunna háðstóni.
Við skulum ekki breyta neinu, ekki biðja um neitt því þótt við séum ríkust í heimi og höfum aldrei haft það betra, þá megum við alls ekki við því að jafna kjörin. Það væri þvílíkt glapræði. Okkur er sagt að allt hangi þetta á bláþræði.
Við stöndum svo tæpt
Við stöndum svo tæpt að við megum ekki við því að borga tannlækningar fyrir lítil börn. Við stöndum svo tæpt að við getum ekki annast ungmenni sem þjást. Við stöndum svo tæpt að við verðum að gæta þess að verðbólgan bitni ekki á bönkunum. Og bankarnir standa svo tæpt að þeir græða ekkert innanlands. Við stöndum svo tæpt að góðærinu má ekki skipta af réttlæti og sanngirni. Sanngirni gæti farið með allan ávinninginn út í hafsauga. Fyrst þurfa hinir efnuðu að fá. Svo sjáum við til.
Við vitum að þjóðin mun farast og frelsinu tapa,
ef færustu mönnunum tekst ekki að leysa vandann.
Sagði Steinn, þetta hangir jú á bláþræði.
Ríkasta þjóð heims verður að halda niðri í sér andanum og vona að milljarðamæringarnir gleymi okkur ekki í áformum sínum. Fyrtist ekki við heimtufrekju okkar og fari ekki í fússi ef við ákveðum að brjóta okkur leið að gnægtaborðinu, rétt eins og þeir. Ef græðgin er góð, hvers vegna gildir það ekki fyrir alla?
Eða er þetta bara barnaævintýri til að hræða börnin til hlýðni? Ef þið sýnið græðgi einsog við, þá tapast allt. Þetta stendur svo tæpt.
En ástæðan fyrir velgengni er ekki græðgi heldur samhjálp. Tekjujöfnuður, almenn menntun, góð heilsugæsla, jafnvægi í lífinu. Um leið og jafnvægið fer, þá fer hófsemin og þá deyr samúðin og siðgæðið. Ef dansinn í kringum gullkálfinn verður of trylltur, týnist öll skynjun á raunveruleg verðmæti. Sönn lífsgleði, sönn ábyrgð, sönn réttlætistilfinning. Þessu er hægt að fletta upp í mannkynssögunni.
Sá sem telur peninga undirstöðu alls, verður ósjálfrátt grunaður um að gera allt fyrir peninga, sagði Benjamin Franklin fyrir 300 árum síðan. Og það má bæta við mottói kapítalistans: Ef ég þarf að eyðileggja náttúruna til að verða ríkur, þá auðvitað geri ég það. Ef ég þarf að halda fólki á lágum launum, þá geri ég það.
Þekkt er sagan af froskinum og sporðdrekanum sem sátu við árbakkann. Sporðdrekinn bað froskinn um far en froskurinn taldi það hættuspil fyrir sig. “Hví skyldi ég stinga þig”, sagði sporðdrekinn, “þá myndum við báðir deyja”? Satt er það sagði froskurinn og lagði til sunds með sporðdrekann á bakinu. Í miðri ánni, fann froskurinn skerandi sting í bakinu. Sporðdrekinn hafði stungið hann dauðastungu. “Hvers vegna gerðirðu þetta” sagði froskurinn, “nú munum við báðir deyja”? “Ég get ekki annað”, sagði sporðdrekinn, “þetta er mitt eðli”. Auðmenn gera sitt gagn í samhengi hlutanna. En við skulum muna að flytja engan þeirra yfir ána án þess að hafa vara á okkur.
Sumir hugsa bara um sig. Það kann að hafa sitt gildi. En það er óþarfi að dýrka þá hugsun. Mannlegt eðli er margþætt – rétt eins og frelsið. Kannski er lífið flókið bæði fyrir frjálshyggjuprófessora í Reykjavík og heimspekiprófessora á Akureyri sem telja græðgi vera dygð. Það er auðvitað athyglisvert að velta slíku fyrir sér - á góðum launum.
Nei, góðir félagar, það er alltaf rétti tíminn fyrir samhjálp. Það er alltaf rétti tíminn til að sinna sjúkum, hvort sem þeir heita auðmenn eða fátæklingar, fatlaðir eða frjálshyggjuprófessorar eða einhverjir aðrir. Það er alltaf rétti tíminn til að njóta þess að við erum saman, ein þjóð út í hafi, sem barist hefur saman mann fram af manni, hlið við hlið. Látum ekki sölumenn óttans ná valdi yfir okkur. Látum ekki málaliða auðvaldsins kasta ryki í augu okkar. Við erum ekki aukaleikarar í ævisögu auðmannanna. Við erum ekki “extras”.
Það er vel hægt að nota kapítalista og gróðahyggju þeirra. Það þarf hins vegar alltaf að gæta þess að þeim sé beitt framan við vagninn. Þeir hafa þann leiða vana að reyna að fá aðra til að draga vagninn og keyra hratt. Velmegun á Íslandi er ekki afrakstur síðustu tíu ára. Hún er afrakstur mörg hundruð ára baráttu. Án frelsisbaráttu nítjándu aldar, án samvinnu og verkalýðsbaráttu tuttugustu aldar, án vinnusemi og skynsemi, án samhjálpar við samgöngur, raforkuvinnslu, menntastofnanir og heilsugæslu, værum við bláfátæk og brotin á sál og líkama.
Þegar sú krafa fór að hljóma að verkalýðshreyfingin og félagsleg öfl í landinu þyrftu að gera kröftugt stórátak til að útrýma fátækt í landinu var hringt í mig frá útvarpsstöð og spurt hvað gera ætti fyrir alla hina – þá sem ekki byggju við fátækt og skort. Ég sagði að þetta væri gert fyrir þá líka. Þetta væri ekki aðeins gert fyrir fátækt fólk heldur samfélagið allt. Fyrir þig og fyrir mig. Fyrir okkur öll, því við viljum samfélag jafnaðar og réttlætis þar sem öllum eru búin góð kjör og lífsskilyrði, þar sem engum börnum er úthýst vegna peningaleysis foreldranna, þar sem fátækt fólk þarf ekki að gráta sig í svefn á kvöldin. Þannig viljum við ekki hafa það. Við viljum búa í samfélagi samkenndar. Þar sem við skiljum engan eftir einan og yfirgefinn, ekki heldur foreldra fjölfatlaða barnsins sem stendur vaktina fyrir barnið sitt – ekki bara stundum – heldur alltaf, hverja klukkustund, hverja einustu mínútu. Við eigum öll að standa þessa vakt. Við eigum að standa hana saman.
Ég á að gæta bróður míns og ég á að gæta systur minnar. Það eru skilaboðin 1. maí. Þann dag minnir verkalýðshreyfingin á mátt samkenndar og samstöðu.
Og þegar við segjum að það eigi að verja trúnaðarmann stéttarfélags vestur á Snæfellsnesi sem sagt var upp störfum - þá gerum við það ekki bara fyrir viðkomandi einstakling – konu sem var rekin vegna skoðana sinna - heldur gerðum við það fyrir alla trúnaðarmenn og alla hina sem ekki eru trúnaðarmenn og njóta góðs af starfi þeirra sem standa í baráttu fyrir réttlæti og mannréttindum.
Og þegar við verjum erlendu verkamennina við Kárahnjúka þá gerum við það fyrir alla verkamenn – svo allir menn geti gengið uppréttir og hnarreistir.
Allir menn.
Nær og fjær.
Á þetta viljum við minna á baráttudegi verkalýðsins, hinn fyrsta maí.
Sterk verkalýðshreyfing er frjáls verkalýðshreyfing.
Og frjáls verkalýðshreyfing eru frjálsir menn.
Til hamingju með daginn.