Fara í efni

100 ÁRA BARÁTTUKEMPA HEIÐRUÐ


Stefán Bjarnason hélt upp á afmæli sitt nú í maí og var þá orðinn eitt hundrað ára og einum degi betur. Þetta var stórafmæli hvernig sem á málið var litið. Að því marki sem rætt er um stórafmæli með hliðsjón af árafjöldanum, sem afmælisbarnið á að baki, þá var þetta mesta stórafmæli sem ég hef komið í. Ef veitingar og viðurgjörningur er mælikvarðinn á stærð og mikilvægi afmælis þá flokkast þetta afmæli einnig undir stórafmæli. Og í þriðja lagi - sem kannski skiptir mestu máli - ef afmælisgestum þykir mikið til tilefnisins koma þá er óhætt að segja að í hugum allra viðstaddra var það stórviðburður að samfagna með Stefáni Bjarnasyni. Lúðrasveit Verkalýsins lék Maístjörnuna og að sjálfsögðu Nallann, hinni öldnu kempu til heiðurs.

Ekki hef ég oft hitt Stefán Bjarnason. Öllu oftar son hans, minn ágæta félaga og vin Ragnar skjálfta, sem svo ágætlega er nefndur með tilvísan í jarðfræðilegar og pólitískar hræringar sem tengjast manninum.
En þótt ég hafi ekki haft mikil bein kynni af Stefáni er tilfinningin sú að ég þekki hann prýðilega. Sennilega er sú tilfinning sprottin af góðu umtali um hann og þá bræður Brynjólf Bjarnason úr ættaróðali móðrfólks míns, Hólabrekku, en þessir menn voru vinir móðurbræðra minna, sérstaklega þeirra Einars og Stefáns Ögmundssona. Þeir höfðu átt mikið og farsælt samstarf á vettvangi verkalýðsbaráttunnar. Einar var lengi í forsvari vörubílstjóra þar sem leiðir þeirra Stefáns lágu saman og Stefán Ögmundsson var í forsvari fyrir prentara um áratugi og einn helsti hvatamaður að stofnun Menningar og Fræðslusambands Alþýðu. Þar voru þeir Stefánarinir félagar í andanum auk þess sem með þeim var góð vinátta.

En það er ekki einvörðungu arfleifð gamallar vináttu sem heillar mig við þessa gömlu verkalýðskempu heldur einnig baráttukrafturinn, mannvitið, hlýjan og kímnin sem geisla frá honum í ríkari mæli en flestum mönnum öðrum. Það var mér heiður að fá að sækja heim hinn síunga öldung í tilefni stórafmælis hans.