140 ÁRA OG ER ENN ÆTLAÐ LANGT LÍF
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 26/27.02.22.
Undir magnaðri mynd úr Skagafirði “í töfrabirtu” stendur Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga og lýsir “sexföldun framleiðslu” hjá Kaupfélagi Skagfirðinga á undanförnum þremur áratugum. Forvígismaðurinn á “skagfirska efnahagssvæðinu” vill greinilega minna á að þótt kaupfélögin hefðu “verið allt í öllu” á öldinni sem leið þá sé fjarri því að þau hafi sagt sitt síðasta.
Þeir eru fleiri kaupfélagsstjórarnir sem taka til máls í sérstökum blaðkálfi sem fylgdi Morgunblaðinu 17. febrúar sl. til að minnast þess að liðin eru 140 ár frá því að fyrsta kaupfélagið var stofnað norður í Þingeyjarsýslu árið 1882. Réttum tuttugu árum síðar hafi síðan grunnur verið lagður að Sambandi íslenskra samvinnufélaga með stofnun Sambandskaupfélags Þingeyinga. Upphafið var með öðrum orðum í Þingeyjarsýslu. Þaðan kom drifkrafturinn og má rekja hann til þeirrar framfararmenningar sem þar blómstraði og er sennilega mikilvægust allra auðlinda. Aldrei var þó talað um þingeyska efnahagssvæðið enda tók kaupfélagsformið fljótlega til landsins alls. Kaupfélögin voru um tíma 60 talsins um allt land, í sveit og bæ og undir regnhlíf Sambandsins mynduðu þau stærsta fyrirtæki landsins nær alla 20. öldina.
Að sjálfsögðu var deilt um ágæti kaupfélagsformsins og gjörðir kaupfélaga og Sambandsins voru aldrei óumdeildar í þjóðfélagi sem tókst á um rekstraform og skiptust menn nokkuð í fylkingar eftir afstöðu í stjórnmálum.
Enginn hygg ég þó að dragi í efa mikilvægi kaupfélaganna í atvinnusögu þjóðarinnar og einnig í sjálfstæðisbaráttunni undir lok nítjándu aldarinnar og í byrjun þeirrar tuttugustu. En þar með var framlagi Samvinnuhreyfingarinnar ekki lokið og er hægt að taka undir þar sem segir í umræddu afmælisblaði: “Með samvinnu jafnt í sveitum sem bæjum fann almenningur leið til sjálfshjálpar og skapaði mótvægis- og framfaraafl. Kaupfélög og samvinnufélög framleiðenda af ýmsu tagi knúðu á um nútímasamgöngur til að koma vörum á markað og afla aðfanga. Þau efldu þjónustuiðnað og afurðavinnslu í landbúnaði, stuðluðu að framförum í félags- og menningarmálum og hófu samvinnuútgerð og fiskvinnslu. Þau voru allt í öllu langt fram eftir síðustu öld.”
En er þessari sögu ef til vill senn lokið? Ekki telur Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands svo vera: “ Upplýst ung kynslóð nýrrar aldar er í öllum álfum að ganga í smiðju samvinnuformsins. Sér það sem spennandi valkost. Í betri takti við breytta tíma en gamlar venjur auðhyggjunnar.” Ólafur nefnir dæmi máli sínu til stuðnings og Hannes Karlsson stjórnarformaður Sambands íslenskra samvinnufélaga spyr í sama afmælisblaði: „Af hverju er hér ekki öflugur samfélagsbanki? Vantar ekki mótvægisafl?“
Góðar spurningar þykir mér. Minnist ég ágæts fundar í Norræna húsinu fyrir fáeinum árum þar sem fulltrúi þýskra sparisjóða, sem eru drjúgur hluti af þýska fjármálakerfinu, hélt erindi. Sparisjóðirnir nytu stuðnings almennings, sagði hann en þeir ættu stöðugt undir högg að sækja gagnvart markaðsstjórum Evrópusambandsins sem þætti þetta form ekki nógu markaðssækið og arðsemismiðað.
En fyrir hvern?
Eldhugarnir þingeysku töldu samvinnuhugsjónina eiga erindi við sitt samfélag. Það reyndist rétt.
Gott er til þess að vita að enn séu samvinnumenn þessarar skoðunar og vilji nýta 140 ára afmælið til endurmats og sjálfskoðunar.
Mín tilfinning er reyndar sú að öll pólitíkin þurfi að fara í naflaskoðun. Hægri sinnuðum markaðsmönnum líður held ég ekkert sérstaklega vel í flokkum sem leggja blessun sína yfir kæfandi umsvif alþjóðlegra einokunarhringa sem í þokkabót eru á góðri leið með að ná jafnvel þeim auðlindum þjóðanna undir sig sem samstaða var áður um að ætti að vera okkar allra. Vinstri sinnaður almenningur horfir líka gáttaður á talsmenn sína horfa fram hjá þessari þróun og klappa jafnvel þeim auðjöfrum lof í lófa sem vilja öllu ráða um framtíð heimsins.
Og í tilefni af afmæli Samvinnuhreyfingarinnar má spyrja hvernig gömlu þingeyingunum hefði orðið við ef þeim hefðu verið færðar þær fréttir að áform ríkisstjórnar landsins með Framsóknarflokkinn innanborðs, væru að heimila prívat fjárfestum að hafa prívat arð af samgöngukerfi landsmanna og það sem meira er, þetta væri kallað „nýja samvinnustefnan“.
Þótt tilefni sé til að gleðjast á merkisafmæli er samt ekki ólíklegt að meðan á afmælishófinu stendur snúi einhverjir sér við í sinni gröf.