Fara í efni

20% ÁLAGSGREIÐSLUR FYRIR DEKURVIÐTÖL?

Heill og sæll Ögmundur !
Ég ákvað að skrifa þér þegar ég heyrði það í fréttum að Halldór Ásgrímsson væri farinn að halda mánaðarlega fréttamannafundi, bara svona um allt og ekkert. Þetta er víst siður í útlöndum hjá stóru köllunum eins og Bush og Blair og þeim. Ósköp held ég nú að fréttamennirnir séu fegnir að þetta er þó ekki nema einu sinni í mánuði því varla eru þetta miklar skemmtisamkomur. Annars hélt ég að ráðherrarnir og allra síst forsætisráðherra þyrftu ekki að boða fréttamenn til sín sérstaklega. Ég sé ekki annað en þeir baði sig stanslaust í fjölmiðlasviðsljósinu og fái endalaus dekurviðtöl í kastljósþáttunum. Ég man ekki betur en ég hafi horft á þá báða Halldór og Davíð tvisvar sinnum hvorn í heilum kastljósþáttum í haust og fleiri ráðherrar, eins og hún Valgerður eða Álgerður eins og einhver kallaði hana, hafa verið í heilum þáttum. Það sem ég hef farið að spá í er aðgangur ykkar sem eruð í stjórnarandstöðunni að fjölmiðlum og svona þáttum. Er það virkilega þannig að ráðherrar komist upp með að panta svona fín viðtöl við sig og heila þætti en svo fái stjórnarandstaðan einhverjar smá fréttir úr þinginu og þegar fulltrúar hennar eru í viðræðuþáttum þá eru það alltaf með mörgum öðrum. Á ekki ríkisútvarpið að vera hlutlaust og gera grein fyrir mismunandi sjónarmiðum í málum og auðvitað hinir fjölmiðlarnir líka. En ég veit það ekki Ögmundur hvort hægt er að skammast út í fréttamennina fyrir þetta, þeim er sjálfsagt skipað að gera þetta af yfirmönnunum. Og þá fór ég að hugsa, ætli þeir fari ekki fram á leiðindaálag ofan á kaupið í næstu samningaviðræðum fyrir að sitja á fréttamannafundunum með Halldóri. Mér fYndist 20% alveg lámark.
Sveinbjörg 

 

Þakka þér bréfið Sveinbjörg. Margt er til í því sem þú segir. Hins vegar efast ég um að fréttamenn muni fá því framgengt að fá sérstakar álasgreiðslur - 20% - fyrir fréttamannafundi í Stjórnarráðinu eða vegna svokallaðra "drottningarviðtala" sem Davíð Oddsson innleiddi og Halldór og félagar taka í arf.  En spurningin er skiljanleg því þessi viðhafnar- eða dekurviðtöl sem þú nefnir svo hljóta að vera álag á samvisku og starfsheiður góðra fréttamanna.

Með kveðju,
Ögmundur