24/7/365
Birtist í helgarblaði Morgunblaðasins 06/07.04.24.
Mikið er gaman að gera sér dagamun, halda jól með ljósadýrð og gjafapökkum, páska með túlipönum og gulum kertum, allir að stilla sig saman í hátíðarstemningu.
Páskarnir eru slökunarfrí fyrir marga, fleiri dagar án ytra áreitis en gerist í öðrum fríum, samfellan meiri. Auðvitað á þetta ekki við um alla, ekki sjúkrahússtarfsmenn, lögregluna og aðra sem þurfa stöðugt að vera á vakt. Og einhvers staðar þurfa túristar að borða. En varla alls staðar.
Öryggisvaktin fyrir neysluþurfi fólk er orðin æði stór. Sú spurning hlýtur að vakna hvort þörf sé á sólarhrings vakt í verslunum sjö daga viknnar, allan ársins hring, 24/7/365, til að tryggja að við getum keypt kleinuhringina sem við gleymdum að kaupa á síðasta virkum degi, hvað þá ef þetta uppgötvast tólf á miðnætti.
Ekki nóg með þetta, um liðna páska upplýsti Morgunblaðið að hægt væri að fá heimsendingu með áfengi til miðnættis á páskadag. Þetta var að vísu frá ólöglegri netverslun og auglýsingin líka lögbrot en hvað skal gera þegar neyðin kallar?
Við eigum um tvennt að velja, annars vegar að reyna að styrkja þá hefð sem verið hefur ríkjandi að sem flestir eigi frí á sama tíma. Með því móti getur stórfjölskyldan verið samvistum um stórhátíðir. Á hinn bóginn getum við hugsað í smærri einingum, einstaklingum, í hæsta lagi kjarnafjölskyldum, að þeim standi þjónusta til boða öllum stundum og alls staðar.
Þannig er þetta reyndar að þróast, það er hægt að kaupa með kaffinu dag og nótt, alla daga.
Verður því breytt?
Mig grunar að margir telji svo ekki vera, að við fáum hreinlega engu um þetta ráðið. Og það sem meira er, að við – hinn almenni maður – eigi engu um þetta að ráða. Okkar lýðræði sé í því fólgið að velja á milli kaffitegunda og kleinuhringja í búðarhillunni – og því fleiri lengdarmetrar í hilluplássi þeim mun meira sé lýðræðið. Að skerða frelsi eins til að bjóða öðrum vöru eða þjónustu hvar sem er og hvemær sem er hljóti að vera brot á mannréttindum.
En þegar að er gáð er þetta ekki alveg einfalt mál. Flest viljum við frelsi til orðs og æðis. En svo viljum við fæst gerast fráhverf þeirri hugsun að til sé eitthvað sem heiti samfélag; að í sameiningu getum við smíðað reglur um hvernig við viljum búa saman, og að þegar vel takist til nái slíkt samkomulagslýðræði langt út fyrir búðarhillurnar.
Svo má ekki gleyma því að frelsi eins getur hæglega orðið helsi annars. Margrét Thatcher sagði þegar hún varð forsætisráðherra Bretlands árið 1979 að sitt fyrsta verk yrði að ráða niðurlögum verkalýðshreyfingarinnar. Menn ættu að geta staðið utan hennar, valið að heyja sína réttindabaráttu einir á báti en ekki í slagtogi með öðrum. Þetta snerist um félagafrelsi sagði járnfrúin breska.
Á þessum tíma var mikið atvinnuleysi í Bretlandi.
Ekki leið á löngu þar til ýmsir vildu láta reyna á félagafrelsið. Ekki voru það þó verkamennirnir heldur atvinnurekendur sem vildu losna undan ágangi verkalýðsfélaga. Og nú sögðu þeir við hinn atvinnulausa mann sem leitaði eftir vinnu hjá þeim, “jú, vissulega höfum við vinnu handa þér en hún stendur því aðeins til boða að þú standir utan verkalýðsfélaga”. Þannig að aftur eru málin ekki alltaf einföld þegar til kastanna kemur.
Það sem hins vegar er einfalt í mínum huga er hve mikilvægt það sé að varðveita litbrigði daganna, að við gerum okkur dagamun og helst að við gerum það saman í samfélagi hvert við annað. En þá er líka að skipuleggja samfélagið þannig að það verði gerlegt.
Og auðvitað er það gerlegt.
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.