50 ÞÚSUND SKIPTA MÁLI Í KRAPPRI STÖÐU
Atvinnuleysisbætur eru nú 172.609 krónur. Á undanförnum árum hafa atvinnuleitendur fengið desemberuppbót eins og tíðkast að greiða á vinnumarkaði. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar á nú að hafa desemberuppbótina af atvinnulausum því svo „þröngt er í búi." Desemberuppbótin nam í fyrra 50.152 krónum og ætti nú að hækka sem nemur verðlagsþróun frá því í desember í fyrra
Ríkisstjórn sem afleggur auðlegðarskatt sem hefði gefið ríkissjóði yfir 9000 milljónir í tekjur getur ekki leyft sér að tala svona. Engin ríkisstjórn getur leyft sér að tala svona.
Alþingi á ekki að fara í jólafrí fyrr en desemberuppbótin fyrir atvinnuleitendur hefur verið samþykkt.
Sama gildir um komugjöld á sjúkrahús. Til stendur, samkvæmt fjárlagafrumvarpi, að rukka fólk sem þarf að leggjast á spítala. Komugjald er annað nafn á legugjöldum. Þegar þau voru kynnt reis mótmælaalda í þóðfélaginu. Þá var breytt um nafn og talað um komugjöld. Inntakið er það sama. Til stendur að rukka komugjöld „ fyrir aðstöðu". Þar er vísað í sjúkrarúmið hvort sem er á gjörgæsludeild eða á deild fyrir blæðandi magasár og krabbamein. Börn og aldraðir eiga að fá afslátt og reyndar einnig öryrkjar. Allir verða þó rukkaðir, líka börnin.
Skilaboðn eru þessi: Ef þú ert orðinn svo veikur/veik að þú þurfir að leggjast á sjúkrahús þá verður spurt hvort þú viljir borga með visa eða gíró. Og ef þú ekki borgar þá verður gjaldið sent í innheimtu.
Ein deild verður undanskilin. Það er fæðingardeildin. Það er gott. En ég spyr samhengisins vegna: Hvers vegna eru fæðandi mæður undanþegnar? Ekki eru þær veikar.
Auðvitað vil ég ekki láta rukka neinn sem liggur í sjúkrarúmi á spítala, hvorki á fæðingardeild né öðrum deildum. Burt með komugjöldin. Alls staðar.
Ég held að almennt finnist fólki þetta liggja í augum uppi. Það skilja allir að þing sem fer í frí án þess að gera hvort tveggja, tryggja desemberuppbót til atvinnuleitenda og afnema sjúklingaskattinn, rís ekki undir ábyrgð. Það þing á ekki rétt á fríi.