Fara í efni

Á AÐ AFNEMA VÍSITÖLUBINDINGU TÍMABUNDIÐ?

Ömurlegt þótt mér að hlusta á þig mæla verðtryggingunni bót. Lagðist marflatur undir yfirklórið í Jóhönnu. Verðtryggingin étur upp allan eignahlut í húsnæði fólks sem verið hefur að kaupa sér húsnæði síðustu tíu árin eða svo og ekki langt í að húsnæði okkar verði yfirveðsett ef fram fer sem horfir. Allt rennur þetta inn í höfuðstólinn Þetta er ekkert annað en eignaupptaka. Hvað með millileik eins og að kippa tengingunni úr sambandi tímabundið?
Tumi Kolbeinsson

Sæll Tumi og þakka þér bréfið þótt fyrst og fremst væru það skammir í minn garð. Ég hef ekki lagst marflatur undir eitt eða neitt. Ég hef bent á að afnám verðtryggingar með sama eða hærra vaxtastigi en verðtryggð lána bera - einsog reyndar tíðkast á óerðtryggðum lánum, myndi hafa í för með sér hærri afborganir á lánum. Ég hef hins vegar alltaf sagt að verðtryggð lán væru dýrari þegar upp er staðið en óverðtryggð lán og því æskulegt að losna við verðtryggingu. Hvað millileikinn áhrærir, sem þú nefnir, þá hef ég einnig sagt að mér finnist naðusynlegt að hann verði skoðaður ef verðbólgan fer upp, sbr. eftirfarandi samþykkt stjórnar BSRB sem svo vill til að ég er hjartanlega sammála!: 

"Stjórn BSRB krefst lækkunar raunvaxta og endurskoðunar á vísitölugrunni auk aðgerða til að aðstoða fólk með vísitölubundin lán í því verðbólguskoti sem spáð er á næstunni. Ályktun stjórnarfundar BSRB fer hér á eftir:
BSRB krefst þess að raunvextir verði lækkaðir þegar í stað. Himinháir vextir eru að keyra skuldsett heimili og fyrirtæki á kaf og er það fullkomið ábyrgðarleysi af hálfu stjórnvalda að lækka ekki vexti og draga þar með úr óbærilegri skuldabyrði. Þá þarf einnig að huga að róttækum ráðstöfunum til að aðstoða fólk með vísitölubundin lán ef verðbólgan rýkur upp tímabundið eins og hætta er á að gerist á komandi vikum. Þá er nauðsynlegt að endurskoða gildandi vísitöluútreikninga. Þeir endurspegla liðna tíð en ekki neyslumynstrið eins og það er nú."

Með kveðju,
Ögmundur