Á að bjarga einkastöðvum með því að kyrkja RÚV?
Í morgun fór fram umræða um framtíð Ríkisútvarpsins í morgunsjónvarpi Stöðvar 2. Til leiks voru mætt þau Birgir Ármannsson, Sjálfstæðisflokki og Katrín Júlíusdóttir, Samfylkingu. Ekki bar eins mikið í milli í málflutningi þeirra og ég hefði ætlað að óreyndu. Samkeppnisstaðan væri skökk, sögðu þau bæði og hallaði á einkareknar stöðvar; úr þessu þyrfti að bæta hið bráðasta. Birgir Ármannssson kvað það sína skoðun að ríkið ætti ekki erindi í fjölmiðla og Katrín kvað bráða nauðsyn bera til að láta hendur standa fram úr ermum á sviði fjölmiðlunar. Hún taldi reyndar vera þjóðarsátt um að reka ríkisútvarp en henni rann greinilega til til rifja hver hlutur RÚV væri borið saman við aðrar stöðvar. Það er mjög vel skiljanlegt að samdráttur og uppsagnir hjá Stöð 2 og Bylgjunni valdi óánægju og gremju þar á bæ. Menn sjá á bak starfsfélögum sínum og í ljósi metnaðar fyrir hönd eigin stöðvar er eðlilegt að spurt sé um jafnræði. En hvað vilja menn að gert verði? RÚV svipt auglýsingatekjum sínum? Það myndi þýða annað tveggja, hærri afnotagjöld eða stórfelldur niðurskurður hjá Ríkisútvarpinu. Eflaust er einhvers staðar hægt að hagræða en dýru póstarnir á Ríkisútvarpinu eru varla á þeim sviðum þar sem sú stofnun keppir við aðrar stöðvar, það er að segja í léttri afþreyingu, heldur í framleiðslu menningarefnis. Ef við látum efnahagslegt gengi einkarekinna útvarpsstöðva ráða þeim stöðlum sem við setjum er hætt við að fórnarlambið verði vönduð innlend framleiðsla og menningarefni. Hvert yrði ferlið? Þegar gæfi á bátinn hjá einkareknum stöðvum yrði sett fram krafa (einsog við verðum nú vitni að) um að jafna aðstöðu þeirra gagnvart Ríkisútvarpinu. Það má gera með því að veita fjármagni frá skattgreiðendum til allra stöðva, hlutfallslega til jafns við Ríkisútvarpið. Ólíklegt er að vilji væri til slíks. Á hinn bóginn mætti hreinlega skrúfa fyrir auglýsingar í RÚV. Þannig yrði hin svokallaða samkeppnisstaða jöfnuð en það hefði fyrrnefndar afleiðingar.
Ég tel að Ríkisútvarpið eigi að vera einn af hornsteinum íslenskrar menningar og lýðræðis. Það er þjóðinni til hagsbóta og skilar sér á endanum einnig til annarra fjölmiðla með því að halda uppi háum gæðakröfum. Væri vel ef við beindum kröftum okkar að því að sjá til þess með aðhaldssemi og jákvæðri gagnrýni að Ríkisútvarpið sinnti þessu hlutverki sínu af ræktarsemi. Þar á bæ er margt mjög vel gert. Annað þarf að bæta og enn annað stórbæta. En það gerum við hins vegar ekki með því að þrengja fjárhagslega að þessari stofnun.