Á AÐ ENDURTAKA ÖLL GÖMLU MISTÖKIN?
Birtist í DV 17.07.13.
Niðurskurður hjá hinu opinbera nam í kjölfar bankahrunsins á milli fimmtungs og fjórðungs - 20% og 25% að raunvirði. Það er óhemjumikill niðurskurður og fá dæmi um aðrar eins aðfarir í opinberum rekstri á aðhaldstímum. Ég óttast að á ýmsum sviðum hafi verið of hart fram gengið en ástæðan fyrir því að þetta gekk eftir var skilningur starfsmanna innan opinbera geirans á því að ekki væri komist hjá aðhaldi og niðurskurði eftir að tekjustofnar ríkis og sveitarfélaga hrundu í fjármálakrísunni. Starfsfólk hafði almennt á þessu skilning og var reiðubúið að láta sitthvað yfir sig ganga tímabundið vegna sameiginlegra erfiðleika þjóðarinnar.
Rétttrúnaðar krafist
Nú er sest að völdum í landinu ný ríkisstjórn - skipuð sömu stjórnmálaflokkum og á sínum tíma stýrðu okkur út í efnahagsfenið. Og ekki er upphafið gæfulegt. Byrjað er á því að afsala ríkissjóði milljörðum króna með skattaeftirgjöf til ferðaþjónustu og sjávarútvegs, þeirra atvinnugreina sem þrátt fyrir allt standa best að vígi í efnhagslífinu. Fyrir vikið er hagur ríkissjóðs lakari en ella hefði orðið.
Þá hefur verið sett á laggirnar hagræðingar/niðurskurðarnefnd - svipuð og oft hefur viðgengist - meðal annars á síðasta kjörtímabili. Nema tónarnir úr þessari nýju nefnd lofa ekki góðu. Ýmsir nefndarmenn skirrast ekki við að gefa út sverar yfirlýsingar um hve hart skuli nú gengið fram og það sem verra er, pólitískir ákafamenn af hægri vængnum krefjast réttrúnaðar. Í anda örgustu peningafrjálshyggju eru þessir pólitísku trúboðar byrjaðir að eggja nefndina til vafasamra verka: „Þora þau?" hét leiðari Ólafs Þ. Stephensens í síðasta helgarblaði Fréttablaðsins en þar sagði hann að það eigi „ekkert að vera að afsaka það markmið að fækka starfsmönnum ríkisins" en fyrr í leiðaranum hafði hann varað við því að niðurskuðrarmenn einblíndu á „smápeningana" því „stóru upphæðirnar liggja í velferðar- og menntakerfinu."
Okkur sagt að allir græði
Hvað þýðir það þá að þora? Væntanlega að leggja til atlögu við velferðar- og menntakerfið. Nú sem fyrr eiga lausnirnar að liggja í því að markaðsvæða skólana og heilbrigðisþjónustuna en árangurinn af því muni birtast öllum, starfsfólk fái betri laun, nemendur og sjúklingar betri menntun og lækningu meina sinna og viti menn, tilkostnaðurinn verði minni!
Ólafur Þ. Stephensen er ekki einn um þessar töfralausnir. Þannig er Helgi Vífill Júlíusson mættur á ritjórnarsíðu Morgunblaðsins á mánudegi með hvatningu um að „hrista upp í heilbrigðiskerfinu". Samkvæmt honum er samkeppni allra meina bót. Þannig segir hann að „samkeppni um fólkið ætti að bæta kjörin" og síðan er vitnað í ýmsa aðila um ágæti samkeppninnar.
Allt þetta erum við búin að heyra margoft áður. Allan aðdraganda hrunsins var þetta eins konar manrtra. Líka krafa Ólafs Þ. Stephensen sem kemur fram í mánudagsleiðara hans um að það verði að auðvelda stjórnendum hjá hinu opinbera að reka starfsfólk. Vitnar hann máli sínu til stuðnings til ónafngreindra forstjóra sem vilji geta rekið fólk á auðveldari máta en nú er unnt.
Vilja að sjúkrahús séu rekin einsog fyrirtæki
Einna verst þykir mér sú hrikalega ranghugmynd, sem er að finna í leiðaraskrifum Fréttablaðsins og áður hjá Vigdísi Hauksdóttur, fomanni fjárlaganefndar Alþingis, að ríkinu eigi að jafna við fyrirtæki. Ólafur Þ. Stephensen segir að á einkamarkaði reyni menn að forðast uppsagnir en stjórnendur verði að taka ákvarðanir með hag fyrirtækjanna að leiðarljósi: " Ef það kemur ekki nóg í kassann verður að skera niður útgjöldin og víðast hvar er slíkt erfitt án þess að fækka fólki," segir Ólafur ritstjóri.
Nú er það svo að í flestum stofnunum var starfsfólki fækkað verulega í aðhaldsaðgerðum fyrrverandi ríkisstjórnar. Á Landspítalanum -illu heilli - um mörg hundruð manns, í lögreglunni verulega að sama skapi - einnig illu heilli - og þannig mætti áfram telja. Hér tala menn sem standi þeir úti á þekju og hafi ekki fylgst með einu né neinu!
Það er hreinlega rangt að bera saman ýmsa þætti opinberrar þjónustu og starfsemi flestra fyrirtækja. Vissulega verða opinberar stofnanir að reyna að laga sig að fjárhagnum. En þær starfa líka samkvæmt lögum og ber lagaleg skylda til að sinna tilteknum verkefnum. Eða hvað gerir bráðamóttakan þegar fjármunir eru uppurnir en jafnframt komið með konu í barnsnauð á bráðamóttöku; eða þegar verður fjöldaslys?
Allt verði gott ef buddan fái að ráða
Kannski eru Ólafur og félagar búnir að hugsa þetta allt og kæra sig kollótta. Þeir vilji einfaldlega fylgja sinni hugsjón, nefnilega að innleiða markaðslögmálin alls staðar þar sem því verður við komið. Þetta geri þeir í þeirri trú að með því að gera öll samskipti í samfélaginu að markaðssamskiptum - á milli kaupanda og seljanda - þá verði allt gott.
Nýlegur Morgunblaðsleiðari var helgaður sömu hugsjón. Tekið var undir með Sambandi ungra sjálfstæðismanna, sem 7. júlí sl. héldu upp á „skattadaginn, daginn sem fólk hættir að vinna fyrir hið opinbera og fer að vinna fyrir sig sjálft."
Hvar liggja landamæri eigingirninnar?
Mér varð á að spyrja hvað þetta þýddi og svaraði sjálfum mér síðan á heimasíðu minni: „Svo er að skilja lesandi góður að þegar þú vinnur fyrir sköttum til að fjármagna Krabbameinsdeild Landspítalns, Veðurstofnuna, Hagaskólann, Landhelgisgæsluna, slökkviliðið, vatnsveituna og lögregluna, þá ertu samkvæmt þessum kokkabókum ekki að vinna fyrir sjálfan þig heldur einhverja allt aðra, þér fullkomlega framandi.
En ef barnið þitt veikist eða mamma þín eða þú sjálfur, og nauðsynlegt verður að sækja til framngreindra stofnana hvenær skyldi þjónustan byrja að vera í þína eigin þágu? Og hvenær hættir hún að vera það? Ræðst það af skyldleika við sjúklinginn? Eða ertu bara að vinna fyrir sjálfan þig þegar þú borgar fyrir lækningu við eigin krabbameini? Það er náttúrlega hægt að sjá til þess að þú borgir aldrei fyrir aðra með því að láta greiða við innganginn að Melaskólanum eða Grensásdeild Landspítalans. Þannig er hægt að tryggja að hugsjónir ungra sjálfstæðismanna rætist og að enginn hætta sé á að þeir þurfi nokkurn tímann að borga fyrir aðra manneskju."
Skólinn, sjúkrahúsið og öll hin fyrirtækin
Margt minnir nú á dagana fyrir hrun. En getur það virkilega verið að þjóðin ætli að leyfa nýrri ríkisstjórn að endurtaka öll gömlu mistökin? Þau sögðu fyrir hrun að ef aðeins bankarnir kæmust í einkahendur þá yrði okkur tryggð ævarandi farsæld. Þetta átti síðan að gilda um allt, líka skólann og sjúkrahúsið; öll fyrirtækin á hinum óskeikula markaði. Muniði?