Fara í efni

Á AÐ FÁ SJÁLFAN SKAÐVALDINN AFTUR Á MIÐNESHEIÐINA?

USA - árásarflugvél
USA - árásarflugvél


Á vefnum  DEMOCRACY NOW (LÝÐRÆÐI NÚNA), sem er bandarískur fjölmiðill á netinu og öldum ljósvakans er viðtal við Annette Groth, þingkonu Die Linke, Vinstra flokksins í Þýskalandi,  sem hingað kom í sumar og hélt erindi um aðkomu sína að hafnbanninu á Gaza fyrir fimm árum (sjá slóðir m.a.  viðtal við Annette í Fréttablaðinu: https://www.ogmundur.is/is/greinar/fjallad-um-kurda-og-palestinumenn oghttps://www.ogmundur.is/is/greinar/ahugaverdur-fundur-i-fridarhusi.)

Annette Groth er atkvæðamikill þingmaður í heimalandi sínu og öflugur málsvari mannréttinda á þingi Evrópuráðsins. Annette hefur verið í fréttum á heimsvísu í tengslum við flóttamannastrauminn frá Sýrlandi en sjálf hefur Annette Groth tekið ábyrgð á hópi flóttamanna.

Í viðtalinu á Democracy Now er hún ómyrk í máli. Spurt er hver sé orsök þessa gríðarlega straums flóttamanna og svarið er þetta:  "Það er stríð, hryðjuverk, og það eru fyrri stjórnvöld í Bandaríkjunum sem bera höfuðábyrgð,  It is war, it is terror, and it is the former U.S. government who is accountable for it." http://www.democracynow.org/2015/9/9/german_lawmaker_at_the_root_of

Það er vissulega rétt að fyrri stjórn Bandaríkjanna var árásargjörn með afbrigðum, sérstaklega í Mið-Austurlöndum og alls staðar í grennd við helstu olíuauðlindir heimsins. En á DEMOCRACY NOW er að finna upplýsingar um hernaðarafskipti og vopnasölu Obamastjórnarinnar og er því haldið fram að vopnasala Bandaríkjastjórnar á þessar stríðshrjáðu slóðir hafi aldrei verið meiri frá lokum heimstyrjaldar en á undanförnum fimm árum. http://www.democracynow.org/2015/4/7/are_obamas_record_arms_sales_to

 Í kjölfar hertra loftárása á Jemen undanfarinn hálfan mánuð telja Sameinuðu þjóðirnar að 100. 000 manns þar í landi séu á vergangi, aðeins vegna nýjustu árásarhrinunnar!

Þannig er sprengt sem aldrei fyrr í Jemen og Nató blessar loftárásir Tyrkja  á Kúrda en vitað er að þessa blessun fengu Tyrkir fyrir að heimila bandaríska lofthernum að nýta tyrkneska flugvelli til loftárása í Sýrlandi. Þær loftárásir eru gegn ISIS þessa stundina. ISIS berst gegn Assad Sýrlandsforseta, sem kunnugt er.  En skyldu menn nokkuð vera búnir að gleyma því að fyrir aðeins örfáum mánuðum var hugmynd Bandaríkjastjórnar að beina loftárásunum einvörðungu að stjórnarher Assads, hins sama og Bretar og Þjóðverjar höfðu selt efnin til að búa til efnavopn en fyrirhugaðar loftárásir voru jú til að koma í veg fyrir að slíkum vopnum væri beitt ... !!!

Og horfandi á alla þessa atburðarás sem stjórnast af markvissu auðlindaráni og hagsmunum hergagnaiðnaðarins berast okkur þær fréttir að til greina komi að bandarískur her snúi aftur á Miðnesheiðina okkar. Þetta virðist vera alvöru umræða og ekki grín. En það er náttúrlega með ólíkindum ef rétt er, að íslensk stjórnvöld svo mikið sem hugleiði þann  valkost að fá sjálfan skaðvald númer eitt til að snúa aftur! Í mínum huga er slíkt hin fullkomna fjarstæða. Þvert á móti á Ísland að fordæma hernaðarbrölt Bandaríkjamanna og fylgifiska þeirra í Evrópu.