Á að leggja niður Þjóðhagsstofnun?
Birtist í Mbl
Það er alltaf fróðlegt og skemmtilegt að heyra sjónarmið fólks um landsins gagn og nauðsynjar. Fimmtudaginn 17. ágúst spreyttu tveir heiðursmenn sig á því í Kastljósi Ríkissjónvarpsins að skilgreina efnahagsástandið eins og það blasir við þeim um þessar mundir og setja fram ráðleggingar um landstjórnina. Þetta voru þeir Bjarni Ármannsson, framkvæmdastjóri Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, og Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar. Báðum fannst hafa tekist afbragðsvel um alla hagstjórn á Íslandi á liðnum misserum. Bjarni sagði að nú væri þeim umbunað sem „…gera vel og byggja samfélagið upp.“ Já, það er nú svo. Ýmis teikn væru þó á lofti; verðbólga of mikil, atvinnuleysi komið niður undir eitt prósent sem skilja mátti sem áhyggjuefni og talsverð þensla væri í efnahagslífinu. Nú yrðu stjórnvöld að gæta sín, ekki síst í samningum við opinbera starfsmenn. Hér er djarfmannlega mælt gagnvart fólki, sem margt býr við lágar tekjur, af hálfu manns sem sjálfur fær greiddar litlar 17 hundruð þúsund krónur á mánuði.
Undir þessi varnaðarorð tók þjóðhagsstofuforstjórinn sem samkvæmt upplýsingum Frjálsrar verslunar getur státað af 775 þúsund krónum í tekjur á mánuði hverjum. Allir vita að þessar tekjur eru ekki í nokkru samræmi við það sem gerist hjá opinberum starfsmönnum, altént er þetta ekki dæmigert fyrir strætisvagnastjórann, sjúkraliðann, kennarann, slökkviliðsmanninn eða skrifstofumanninn sem þeir félagar hafa nú þungar áhyggjur af að kunni að fá einhverja launahækkun í næstu kjarasamningum.
Athyglisverð mótsögn kom fram í máli þessara tveggja hagspekinga. Annars vegar hygg ég það hafi verið forstjóri FBA sem sagði að nú væri hið frjálsa hagkerfi að ganga í gegnum sínar fyrstu dýfur. Liðinn væri undir lok tími handaflsins, markaðurinn plumaði sig einn og óstuddur og manni skildist helst að þannig ætti það að vera. Síðan kom mótsögnin. Að sjálfsögðu þyrfti ríkið að beita sér við efnahagsstjórnina. Svo var að skilja að handafli sínu ætti ríkið að beita við peningastjórn og með því að taka sér niðurskurðarhníf í hönd. Undir það tók þjóðhagstofustjóri. Á honum var helst að skilja að stjórnmálamenn ættu sem minnst að koma að landstjórninni - og sagði hann að menn ættu ekki að teygja sig inn á svið hvers annars.
En ef það er nú svo að hið opinbera á ekki að vasast í efnahagsstjórninni nema til að greiða götu markaðar og tryggja aðhald og framar öllu öðru niðurskurð - ef þessir aðilar eru sammála um þetta grundvallaratriði og ef við gefum okkur að þeir ætli ekki að teygja sig inn á önnur svið en sín eigin, hvort sem það eru skólar, sjúkrahús eða annar ámóta rekstur - þá liggur nærri að álykta að þeir hljóti að vera sammála um það skref sem nú beri að stíga: Að leggja niður Þjóðhagsstofnun.