Á að stofna íslenska leyniþjónustu?
Flogið hefur fyrir að til greina komi að stofna leyniþjónustu á Íslandi. Ráðherrar og dómsmálayfirvöld hafa viðrað slíkar hugmyndir og forsvarsmenn lögreglu hafa tekið þeim vel. Allt er þetta þó í miklum véfréttarstíl og nauðsynlegt er að yfirvöld skýri hvað fyrir þeim vaki svo þessar hugmyndir fái verðuga umræðu. Nokkur atriði ber að hafa í huga.
Norskt víti til varnaðar
Í fyrsta lagi hafa íslensk lögregluyfirvöld haft með höndum eftirlit með líklegum glæpamönnum um langt árabil, símar þeirra hafa verið hleraðir og fylgst hefur verið með atferli þeirra. Þetta hefur margoft komið fram og þá sérstaklega í sambandi við rannsóknir á fíkniefnamálum. Hvað snertir eftirlit með fólki sem talið er hafa vafasamar skoðanir er hins vegar margt á huldu hér á landi. Í Noregi var nýlega upplýst að á kaldastríðstímanum hefði verið fylgst með ýmsum mönnum sem þóttu róttækir eða voru gagnrýnir á hernaðarbandalög. Raunar var svo langt gengið að njósnað var um unglinga - allt niður í fjórtán ára gamla - vegna þess eins að foreldrarnir voru kommúnistar, eins og í tilfelli Clas Kristensen. Frá þessu var skýrt á sjónvarpsstöðinni TV2 21. október síðastliðinn. Reiði almennings í Noregi yfir því að slíkt pólitískt eftirlit hafi tíðkast í landinu, er mikil. Þeir sem á annað borð mæltu slíku bót kváðu hins vegar nauðsynlegt að með eftirlitsstarfsemi af þessu tagi væri aftur rækilega fylgst af hálfu lýðræðislega kjörinna fulltrúa.
Lagastoð fyrir leyniþjónustu
Mælir eitthvað með því að komið verði á fót íslenskri leyniþjónustu? Kann það til dæmis að vera heppilegt að sérstök leyniþjónustustofnun hafi með höndum það verkefni að gæta hagsmuna ríkisins, almennings og erlendra gesta? Stundum heyrist því haldið fram að formleg leyniþjónusta færi hlutina upp á yfirborðið. Þetta eru m.a. rök Sólveigar Pétursdóttur, dómsmálaráðherra. Hún segir að í reynd sé lagastoð fyrir leyniþjónustustarfi innan lögreglunnar hér á landi. Allir ættu að fagna skýrari löggjöf um þessa starfsemi, segir ráðherrann. Þá má nefna forvarnarrökin. Á tímum þar sem fólk kann að meta gildi forvarna kann það vissulega að hljóma freistandi að fela einhverjum það hlutverk að elta uppi skúrka til að koma í veg fyrir hugsanleg skemmdarverk. Þar þarf að auðvitað að vera mikið í húfi til að réttlætanlegt sé að fela slíkum aðila mikil völd og heimila honum að starfa leynilega. Það þarf hins vegar ekki að hafa um það mörg orð að slíku forvarnarstarfi má hæglega snúa upp í ofsóknir á hendur þeim sem ekki eru valdhöfum þóknanlegir. Reynslan kennir okkur að einmitt þetta gerist.
Veiklunduð stjórnvöld
Í tengslum við heimsókn forseta Kína til Íslands í sumar var fjöldi fólks beittur misrétti og má ætla að rætur þess máls liggi alla leið inn í kínversku leyniþjónustuna. Af þessu tilefni kom berlega í ljós hve íslensk stjórnvöld eru veiklunduð gagnvart erlendum valdstjórnarmönnum. Forseti Kína krafðist þess að í heimsókn sinni þyrfti hann aldrei að berja augum neina sem vildu mótmæla stjórnarháttum hans heima fyrir og helst mátti ekki bregða fyrir gulum fánum. Allir muna hvað gerðist. Fólki sem ætlaði að mótmæla mannréttindabrotum í Kína var meinað að koma til landsins og um stund var grunnskóli Njarðvíkur gerður að fangabúðum! Leyniþjónustu-forvarnir í þágu hins kínverska gests urðu þannig þess valdandi að mannréttindi voru brotin. Í þessu tilviki voru íslensk stjórnvöld krafin sagna um aðgerðir lögreglu. Rjóðir í andliti reyndu ráðamenn að útskýra málin.
Sú spurning vaknar hverju það hefði breytt ef til staðar hefði verið leyniþjónusta. Þegar allt kemur til alls er lögregla borgaraleg stofnun en leyniþjónusta er hins vegar á gráu svæði milli hers og lögreglu og þarf yfirleitt ekki að svara fyrir gerðir sínar. Í sjálfri nafngiftinni felst viðurkenning á því að hún geti farið leynt með sín störf. Í þessu tiltekna máli hefðu stjórnvöld án efa vísað á leyniþjónustuna sem hefði síðan sagt að því miður gæti hún engu svarað “af öryggisástæðum”. Slík leynd væri ekki holl fyrir lýðræðið.
Enga skoðanalögreglu...
Eflaust má til sanns vegar færa að sérstök eftirlitsstofnun væri sýnilegri en sams konar starfsemi óskilgreind innan kerfisins. Leyniþjónustan sæist til dæmis á fjárlögum og starfsemin væri þannig gerð okkur sýnileg. Af hálfu dómsmálaráðuneytisins hefur þeirri hugmynd verið hreyft að kjörnum fulltrúum – eiðsvörnum og þannig múlbundnum - væri falið eftirlit með slíkri starfsemi. Mér fyndist þetta hins vegar rangt og bjóða ýmsum hættum heim eins og hér hefur verið rakið. Í Noregi var þetta eftirlit til staðar en eftir sem áður var fólk með gagnrýnin sjónarmið hlerað. Verkefnið er því ekki að skapa skýra löggjöf um skoðanaeftirlit, heldur ber þvert á móti að tryggja skoðanafrelsi og útrýma hvers kyns skoðanalögreglu. Um það eiga að gilda skýr lög.
...en eftirlit í þágu skoðanafrelsis
Vissulega mætti íhuga að sett yrði á fót eftirlitsnefnd sem fylgdist með því að aldrei væri stigið skrefið frá eftirliti með glæpamönnum yfir í eftirlit með skoðunum. Þess má geta í þessu sambandi að í Evrópu gætir nú vaxandi gagnrýni á svarta lista lögreglunnar í Schengen landamæravörslunni. Því er haldið fram að á þeim lista sé að finna nöfn andófsmanna, friðarsinna og aðila sem halda uppi gagnrýni og mótmælum gegn yfirgangi fjölþjóðlegra auðhringa og alþjóðastofnana sem þjóna þeim.