Fara í efni

Á ÁFRAM AÐ ÞEGJA ÍRAK Í HEL?


Það verður að fá botn í Íraksmálið áður en kjörtímabilið er úti. Lengi vel neitaði annar ríkisstjórnarflokkurinn því að Ísland hefði verið sett á lista hinna "viljugu" eða "staðföstu" stuðningsþjóða við Íraksinnráina. Davíð Oddsson má þó eiga það að hann kannaðist alltaf við gjörðir sínar. Það gerði Halldór Ásgrímsson síður og hefur Framsóknarflokkurinn jafnan þegar málið hefur komið upp, reynt að drepa því á dreif. Nú um stundir situr ráðherra Framsóknarflokksins í utanríkisráðuneytinu. Þá bregður svo við að hver dagurinn á fætur öðrum líður án þess að svarað sé einföldum spurningum sem ég bar upp fyrir hönd þingflokks Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um stuðning íslensku ríkisstjórnarinnar við innrásina í Írak. Sú spurning gerist áleitin að enn eina ferðina eigi að drepa málum á dreif.


Ég hef varið þessum degi að mestu leyti til þess að fara yfir umræðu á Alþingi og í fjölmilðum um innrásina í Írak. Athygli vekur að í aðdraganda innrásarinnar voru það fyrst og fremst  þingmenn VG sem kröfðu ríkisstjórninna svara og héldu uppi andófi gegn stríðsáformum. Annað sem vekur athygli er hve sáralitla umfjöllun málið fékk í fjölmiðlum. Fréttastofurnar virðast hreinlega hafa sofið á sitt græna eyra þegar við reyndum að ná til þjóðarinnar og vara við því sem framundan væri.
Í  dag var send út fréttatilkynning frá VG þar sem ríkisstjórnin er enn krafin svara, að þessu sinni um ný málsatriði. Mun það endurtaka sig enn á ný að ríkisstjórnin komist upp með að þegja málið í hel?
Hér að neðan er fréttatilkynnig VG frá í dag og gögn í málinu. Síðar mun ég nánar gera grein fyrir þeirri erlendu umfjöllun sem vísað er til í fréttatilkyninngunni.

 

Fréttatilkynning frá Vinstrihreyfingunni grænu framboði
10.5.2007
Hvers vegna getur utanríkisráðuneytið ekki svarað erindi þingflokks Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um stuðning ríkisstjórnar Íslands við innrásina í Írak?
Fram hefur komið að í mars 2003, skömmu fyrir innrásina í Írak höfðu þáverandi formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem gegndu embættum forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands veitt samþykki fyrir því að Ísland yrði sett á lista "viljugra" eða "staðfastra " stuðningsríkja innrásarinnar í Írak.


Í fjölmiðlum Vestanhafs kom fram að í nóvember 2002 óskaði Bandaríkjastjórn eftir því við fimmtíu bandalagsríki sín að þau segðu til um afstöðu til hugsanlegra hernaðaraðgera gegn Írökum.
Formaður þingflokks VG, Ögmundur Jónasson, hefur óskað eftir upplýsingum um þetta efni hjá utanríkisráðuneytinu en fær þau svör ein að málið sé "í vinnslu".


Mikilvægt er að ekki sé setið á upplýsingum um pólitísk átakamál og væri það grafalvarlegt ef reynt væri nú í aðdraganda Alþingiskosninga að koma í veg fyrir upplýsingar og þar af leiðandi umræður um hlutdeild íslensku ríkisstjórnarinnar í Íraksinnrásinni.

Fylgigögn
a) tilvitnun í blaðaviðtal við Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra,
b) bréf Ögmundar Jónassonar, þingflokksformanns VG til utanríkisráðuneytisins.-----------------------------------------------------------------------------------------
Í DV 21. mars 2003, segir: „Davíð Oddsson forsætisráðherra segir að aðild Íslands að „bandalagi staðfastra þjóða“ sem styðja tafarlausa afvopnun Íraka með vopnavaldi sé eðlilegt og rökrétt framhald þeirrar afstöðu, sem margoft hefur komið fram af Íslands hálfu... „Það var sjálfgefið því að auðvitað höfðu Bretar og Bandaríkjamenn fylgst með því að íslensk stjórnvöld höfðu slag í slag lýst þessari afstöðu. Þegar við fengum boð um að fá að vera í hópi hinna staðföstu bandalagsþjóða svikumst við að sjálfsögðu ekki undan merkjum,“ segir Davíð.“

------------------------------------------------------------------------------------------

3. maí 2007
Grétar Már Jónsson,
ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneyti

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað mér frá Bandaríkjunum fól utanríkisráðuneytið þar í landi, mánudaginn 18. nóvember 2002, sendimönnum sínum í rúmlega 50 ríkjum að taka upp viðræður við ríkisstjórnir í þeim ríkjum þar sem þeir voru staðsettir um hugsanlegan stuðning við aðgerðir gegn Írökum, sem á þeim tíma voru sagðir hindra tilraunir vopnaeftirlitsmanna Sameinuðu þjóðanna til að sinna störfum sínum á vegum SÞ í Írak. Samkvæmt mínum upplýsingum barst öllum NATO-ríkjum þessi beiðni Bandaríkjamanna og hefur komið fram að tilmælin hafi fengið formlega umfjöllun einum eða tveimur dögum eftir að þau bárust.
Af þessu tilefni vildi ég í fyrsta lagi spyrja: Hvaða sendiherra, sendimaður eða fulltrúi Bandaríkjastjórnar sá um að koma erindi þessu á framfæri við íslensk stjórnvöld?
Í öðru lagi: Hvaða íslensku embættismenn utanríkis- og forsætisráðuneytisins tóku við þessu erindi sem bandaríska utanríkisráðuneytið fól sendimönnum sínum að koma á framfæri?
Í þriðja lagi óska ég eftir upplýsingum um hvort íslensk stjórnvöld svöruðu formlega erindinu á fundum sem efnt var til af þessu tilefni og hvort svörin voru bréfleg og því til í skjalasöfnum ráðuneytanna.
Í fjórða lagi vildi ég spyrja hvort stjórnmálamenn hafi komið að viðræðum um þessi tilmæli bandaríska utanríkisráðuneytisins, sem borin voru fram af fulltrúm Bandaríkjanna, á tímabilinu 18. nóvember 2002 til 12. desember 2002.

Virðingarfyllst,

Ögmundur Jónasson
alþingismaður