Fara í efni

Á ALLT ERINDI Í FJÖLMIÐLA?

Það þótti slúðurfréttablaðinu News of the World, allt sem seldi blaðið ætti erindi á síður þess.

Þegar ég var við nám á Bretlandi fyrir allmörgum árum var gjarnan farið á blaðsöluna á sunnudagsmorgnum og keyptur þykktur bunki af blöðum. Sunday Times, Guardian, Telegraph og mörg fleiri sem á helgum voru með sérútgáfu. Stöku sinnum var freistast til að láta News of the World fylgja með í kaupunum.

Svo las maður. Og gestir litu við og blöðuðu í bunkanum. Flestir hneyksluðust á News og World en byrjuðu samt á að fletta því. “Ex-model Mandy … Fyrrum módelstúlkan Mandý giftist gamla prestinum!” Svo var mynd við hliðina á fréttinni af hálfberri stúlku sem þó hafði ekkert með frásögnina að gera. En lesandinn mátti gjarnan trúa því að þarna væri Mandý mætt. Allt hálfkveðnar vísur.

Þetta er gamalt trikk. Að spila á forvitni og hneykslunargirni. Það vissu þeir sem harðast gengu fram í að ófrægja Juilian Assange og Wikileaks á sínum tíma, að halda til streitu hálfkveðnum vísum um kynferðismál hans. Meira og minna upplogið en þó sylla til að byggja ósannindi og dylgjur á. Vitað var að þarna væri auðveldasta leiðin til að gera mann ótrúverðugan.

Ég lagði það á mig að hlusta að nýju á fréttir Ríkisútvarpsins um málefni brott rekna ráðherrans, var að velta því fyrir mér hvort umfjöllunin myndi eldast vel, að ég hefði hreinlega misskilið eitthvað. Nei, svo virðist mér ekki hafa verið. Reyndar finnst mér málið enn verra en í upphafi. Ósatt var sagt um aldur, það hefur verið leiðrétt, ósatt var sagt um það sem saknæmt var samkvæmt hegningarlögum, það er að segja að eiga í kynferðislegu sambandi við skjólstæðing og misnotað þar „freklega“ aðstöðu sína. Einnig það var ósatt en er enn óleiðrétt.
Svo er það sem alvarlegast er, óforsvaranleg framkoma við fjölskyldu, ekki aðeins Ásthildi Lóu Þórsdóttur eina, heldur einnig barnið hennar sem nú er vaxið út grasi, barnsföður og eiginmann. Þegar æran er höfð af fólki duga að sjálfsögðu afsökunrbeiðnir skammt en það má byrja þar.

Eitt staldra ég líka við og það eru „sérfræðingarnir“ sem voru tilbúnir að mæta með nokkurra mínútna fyrirvara til að tjá sig um viðkvæmt mál sem þeir voru að kynnast í þann mund sem þeir settust í stól viðmælenda fréttamanna Ríkisútvarpsins þar sem þeim var ætlað að vera upplýsandi álitsgjafar fyrir okkur hlustendur.

Hér eru slóðir á tvær umfjallanir Ríkisútvarpsins:
https://www.ruv.is/utvarp/spila/spegillinn/25249/ajsf6k
https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/frettir/30762/b0j8gv

Það góða við News of the World var að allir vissu að þetta var ómerkilegur fjölmiðill sem nærðist á slúðri og hálfsannleik. Verra er þegar fjölmiðlar sem vilja láta taka sig alvarlega sem yfirvegaðir og sannsöglir gerast slúðurberar um einkalíf fólks.

Ríkisútvarpið fór með rangt mál um brott hrakinn ráðherra úr ríkisstjórn. Búið er að leiðrétta hluta rangfærslna en ekki þær alvarlegustu. Ríkisútvarpið á sök á því að einstaklingur var á grundvelli ósanninda í fréttum þess sviptur ærunni á flettiskiltum um allan heim; vitað var þar sem hér hve margir láta freistast að nálgast slúður, ekki síst ef eitthvað kynferðislegt fylgir með.

Fréttamenn halda því sumir hverjir fram þegar þeir eru gagnrýndir fyrir óvönduð og ósæmileg vinnubrögð í þessu máli að verið sé „að skjóta sendiboðann“. Þetta á vissulega stundum við en er nánast grátbroslegt þegar „sendiboðinn“ er með upplýsingar sem ekkert erindi eiga inn á almannavettvang frekar en Mandy og gamli presturinn forðum.

Margt er hins vegar ósagt í fjölmiðlum heimsins um málefni sem gjarnan mættu komast í fréttir. Einhverra hluta vegna er skortur á sendiboðum um ýmislegt sem valdakerfi heimsins vilja að fari leynt.

Kallar það ekki á umræðu í fréttamannastéttinni?

--------------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.
Here you can subscribe to a newsletter from this homepage, free of charge: https://www.ogmundur.is/