Á BARÁTTUDEGI VERKALÝÐSINS 1. MAÍ: ENDURREISUM ÍSLAND Í ANDA JAFNAÐAR!
Ísland og heimurinn allur er að ganga í gegnum kreppu. Út úr henni þurfum við að koma með gerbreyttar áherslur í efnhags- og samfélagsmálum.
Upp úr stendur hve óviðbúin heimurinn var kreppunni og viðbrögðin eftir því, ekki aðeins hér á landi heldur alls staðar, fálmkennd og leitandi. Spurt er hvort við séum tilbúin að kosta öllu til við að endurræsa kapítalismann? Viljum við það?
Þessu þarf að svara.
Og í dag kom í ljós að verkalýðshreyfingin er að byrja að svara. Samhljómur var í yfirlýsingum talsmanna hennar á baráttudegi verkalýðsins, fyrsta maí. Mæltist forystufólkinu vel og eru hér slóðir á ávörp forseta ASÍ, Drífu Snædal og formanns BSRB, Sonju Ýrar Þorbergsdóttur.
Þær vilja endurræasa þjóðfélagið á forsendum jafnaðar. Það styð ég heilshugar. Nú þarf að hefjast kröftug umræða um velferð, náttúruvernd, skatta, húsnæðismál, verðtryggingu fjármagnsins, auðlindir þjóðarinnar, lýðræðið, eignarhald á landi, matvælaöryggi, vatnið, náttúruperlurnar og að sjálfsögðu jöfnuðinn, að enginn fái meira greitt í laun en þreföld lægstu laun. Fái forsetinn þrjár milljónir fái öryrkinn eina. Í umræðuþáttum um kjaramál beri allir þátttakendur merkimiða með nafni og tekjum.
Það er af nógu að taka enda búið að hola Ísland að innan á undanförnum fjörutíu árum. Nú þarf að segja við sjálftökuliðið á milljónatekjunum, ykkar tími er liðinn. Nú þarf að byggja upp það sem þið hafið rifið niður. Þá er augljóst að aftengja þarf ágengustu þensluhvata kapítalismans. Hagvaxtarþráhyggjan verður úr sögunni.
Eftir því sem umræðan þróast má ætla að viðbrögð í næstu kreppu verði ekki fálmkennd og fumkennd heldur markviss og klár, því þá mun almenningur vita betur hvað hann vill.
Nema að það verði engin næsta kreppa, okkur hafi áður tekist að endurræsa þjóðfélagið á þeim forsendum sem verkalýðshreyfingin kallar eftir. Hver dæmi fyrir sig.
Slóðir á ávörp forseta ASÍ og formanns BSRB:
https://www.youtube.com/watch?v=vIZu1M7pTNU
https://www.bsrb.is/is/skodun/skodun/avarp-formanns-bsrb-1-mai-2020