Fara í efni

Á FRÍMIÐA TIL BRETLANDS, AÐRA LEIÐINA

Sæll Ögmundur.
Þeir segja að enginn einn beri ábyrgð til að dreifa ábyrgðinni á okkur öll. Í kvöld var tíu mínútna fréttaskot frá Íslandi á SKY sjónvarpsstöðinni vegna fjármálakreppunnar þar sem Íslendingum er kennt um ófarir Breta. Ég vil alls ekki taka að mér að bera þennan farangur eigenda og stjórnenda Landsbankans, ekki börnin mín og enginn úr fjölskyldunni sem ég hef rætt þetta við. Ég krefst þess að þeir sem bera ábyrgð á Landsbankanum samkvæmt almennum ákvæðum hlutafélagalaga og samkvæmt lögunum um fjármálafyrirtæki axli ábyrgðina sjálfir og af þeim vil ég ekkert vita. Björgólfur Guðmundsson, 67 ára, ber ábyrgð sem stjórnarformaður Landsbankans gagnvart Íslendingum og Bretum og ekki ég. Með honum geta þau borið ábyrgð stjórnarmanna að lögum Andri Sveinsson, 37 ára, Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri, 57 ára, Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík, 43 ára, Þór Kristjánsson, 44 ára, og Þorgeir Baldursson, prentsmiðjustjóri, 66 ára. Mér finnst koma vel til greina að framselja þau ásamt bankastjórunum Halldóri Kristjánssyni, 53 ára, og Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni, 42 ára, til Bretlands, eða borga undir grúppuna á fund samtaka sparifjáreigenda Icesave. Hver er ábyrgð einmitt þessa fólks gagnvart okkur sem erum að tapa? Hver er ábyrgð þessa fólks gagnvart breskum almenningi? Ætlar þetta fólk að sitja í þeim virðingastöðum áfram sem þeim var úthlutað? Í hópnum er til dæmis kraftmikill rektor sem á að vera fyrirmynd ungviðinu sem nú menntast undir hennar stjórn, því miður.
Það er óþægilegt að vera Íslendingur í Kaupmannahöfn nú.
Ólína