Fara í efni

Á FUNDI Í AÞENU OG FRAMHALD Í REYKJAVÍK

AÞENA 2
AÞENA 2

Föstudaginn 26.október og laugardaginn 27. október var ég gestur á ráðstefnu vinstri sósíalista í Aþenu í Grikklandi. Í forsvari fyrir þennan hóp er Zoe Konstantopoulou, forseti gríska þingsins á fyrstu mánuðum í valdatíð Syriza flokksins en hún sagði hins vegar af sér því embætti og þingmennsku þegar Syriza gekk í björgin sem kalla má svo, þegar flokkurinn undirgekkst Evrópusambandsskilyrðin þvert á úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar frægu í júlí árið 2015.

Í þinkosningum haustið 2015 bauð Zoe sig síðan fram undir merkjum flokks sem kalla má Lýðræðissamfylkinguna, Popular Unity á ensku, en náði ekki kjöri. Hún hefur nú frá því í apríl 2016 unnið ásamt félögum sínum að stofnun hreyfingar undir heitinu Réttlætisleiðin, Course to Freedom á ensku.

Zoe kemur úr rammpólitísku umhverfi en faðir hennar var um tíu ára skeið var forseti Syriza eða þeirrar hreyfingar sem Syriza var byggð á.

Ég flutti erindi um bankahrunið á Íslandi og reynslu okkar Íslendinga fyrir og eftir hrun. Á þessum málum er gríðarlegur áhugi í Grikklandi og spunnust líflegar umræður í kjölfar ræðu minnar.

Annar gestur á ráðstefnunni var franski sósíalistinn Jan-Luc Mélenchon, sem fékk rétt tæp 20% í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna fyrr á þessu ári með rúmlega 7 milljónir atkvæða, og var því hársbreidd frá því að sigra Marine Le Pen sem hlaut rúm 21% atkvæða en Macron forseti fékk þá 24%.  Francois Fullon var með svipað fylgi og Mélenchon með rétt rúm 20%.

Réttlætisleiðin  - gestgjafi minn í Grikklandi - leggur ofuráherslu á gagnsæi og lýðræði, að virkja grasrót og  listmenningu - minnir um sumt á Pírata en er þó kinnroðalaust sósíalísk hreyfing - óhrædd að gangast við vinstri sinnuðum skoðunum sínum enda hreyfingunni beint gegn pólitískum óheiðarleika.

Ég er að vonast til að fá fulltrúa þessarar hreyfingar til að heimsækja okkur Íslendinga. Hver veit nema af því gæti orðið í haust og myndi ég þá, ágætu lesendur, bjóða ykkur til opins fundar við þau.

Á leið inn í borgina frá flugvellinum við komuna daginn fyrir ráðstefnuna og á leið út úr borginni á sunnudeginum að henni  lokinni,  var ekið á hraðbraut þar sem greiddur var vegatollur. Ekki veit ég hve hátt gjaldið var en mér var  sagt að kostnaður við framkvæmdina hefði að fullu verið innheimtur á fyrstu tveimur árunum eftir að hraðbrautin var opnuð. Eftir það hefði hver innheimt evra runnið í vasa milljarðarmæringsins sem héldi eignarhaldi sínu á vegaspottnaum  í 28 ár en að þeim loknum flyttist eignarhaldið til ríkisins. Semsagt óskiptur gróði í aldarfjórðung.

Þetta er kallað einkaframkvæmd sem við þekkjum ágætlega á Íslandi og þá ekki síður þá aðila sem eru áhugasamir um slíkt fyrirkomulag annað hvort til að geta makað krókinn sjálfir eða lagsbræður þeirra og systur.

Á myndinni má sjá Jan-Luc Mélenchon, Zoe Konstantopoulou og gestkomandi Íslending.