Á MANNAMÁLI
Í fyrirsögn einhvers vefmiðils segir: "Rekstraráætlanir Hörpu voru óraunhæfar, viðurkennir ráðherra - Ríki og borg taki ábyrgð á lausn vandans." Hvað þýðir þetta á mannamáli? Jú, Katrín Jakobsdóttir, flokksfélagi og varaformaður þinn Ögmundur, virðist hafa vitað það fyrirfram, að rekstraráætlanir Hörpu voru óraunhæfar, en samt miklaði hún sig mikið í fréttum, þegar ákveðið var að halda áfram með framkvæmdir eftir Hrunið. Hún lét taka af sér myndir og viðtöl ásamt Hönnu Birnu, þá borgarstjóra og þær stóðu sem einhverjar Múvístars í hálfköruðum steypurudda og hegðuðu sér eins og þær væru að leika í farsa í anda "Carry On" grínmyndanna í denn.
En hver á svo núna að borga fyrir syndir Katrínar, sem ráðherra? Jú, ríki og borg segir hún. En bíddu við, er það ekki hinn óbreytti og almenni útsvars- og skattgreiðandi, sem jafnframt greiðir þessum sama ráðherra -og einnig þér Ögmundur- launin, að maður minnist nú ekki á opinbera afturgöngu lífeyrinn? Katrín Jakobsdóttir, flokksfélagi og varaformaður þinn Ögmundur, segir svo bara núna -og nú undir Made in China glerhjúp- "Ég held hins vegar að það sé fyrst og fremst mikilvægt að horfa til framtíðar."
Jamm, tossadansinn dunar áfram í Hröpu og ráðherrann neitar þar með að horfast í augu við eigin mistök og annarra og læra af þeim.
Nei, hér er allt við það sama, sem fyrir Hrun, enginn af ríkis-verðtryggu opin-beru valdaklíkunni, BDSV, finnst sér bera skylda til að bera ábyrgð á einu né neinu. Ekki þú Ögmundur heldur. Einnig þú verð skjaldborg ykkar, þegar á hólminn er komið. Þú sast hjá, á þingi, þegar einkaframkvæmdin Vaðlaheiðargöng var samþykkt ... með ríkisábyrgð ... á kostnað sauðsvarts almúgans. Hvenær ætlið þið, ríkis-verðtryggða opin-bera valdaklíkan, að muna að réttindum og skyldum fylgir ábyrgð? Og ég er ekki að tala þá um ríkisábyrgð, heldur siðferðislega ábyrgð, að axla ábyrgð gjörða sinna ... ykkar!
Pétur Örn Björnsson
Varaðndi Vaðlaheiðina þá var afstaða mín alveg ljós og vil ég biðja þig að lesa svar mitt við vangaveltum Friðgeirs hér á síðunni og fara inn á þær slóðir sem þar eru gefnar. https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/hvers-vegna-laetur-thu-thetta-vidgangast
Það má deila um það hvort hjáseta var rétt í lokin og þykir mér skiljanlegt að hún sé gagnrýnd. Hjásetu verður þó alltaf að skoða með tilliti til aðstæðna og getur hjáseta verið ígildi mótatkvæðis. Þannig hefur því margoft verið háttað hjá mér á mínum þingferli.
Hvað Vaðlaheiðina áhrærir þá var ég á þessu stigi búinn að sjá hvernig málið færi.
Um hitt þarf enginn að velkjast í vafa um hver afstaða mín var og kom hún fram í allri umræðunni á þinginu og áður í ríkisstjórn.
Þú mátt alveg trúa því að ég hefði aldrei látið þetta mál fara í gegn á hjásetuatkvæði mínu! Þar hefurðu ekki bara mitt orð núna heldur alla framgöngu í þessu máli,opinbera og óopinbera.
Ögmundur