Á NÓTTUNNI ER ALLT BLÓÐ SVART
Fyrst hefðbundin þakkaryfirlýsing til bókaútgáfunnar Angústúru fyrir hvítu áskriftar-seríuna sem kynnir okkur bókmenntir víða að og fræðir um lífið utan reynsluheims venjulegs Íslendings. Höfundar hvítu Angústúrubókanna eru flestir annars staðar frá en stendur okkur næst á landakortinu.
Á nóttunni er allt blóð svart er reyndar eftir franskan rithöfund, David Diop, en hann er hins vegar upprunninn í Afríkuríkinu Senegal.
Sögusvið bókarinnar er í Evrópu í heimstyrjöldinni fyrri en einnig í Senegal. Í henni renna saman tveir gerólíkir heimar, ef þá ekki fleiri, því að ekki má gleyma að þjóðfélagið er allaf á hreyfinu; og stundum mjög svo, land í friði er alls ekki það sama og land í stríði.
Hvað skal segja um þessa bók sem er margverðlaunuð og þýdd á tugi tungumála?
Stutta svarið er: Hún er erfið.
Mér var hún svo erfið að ég þurfti að taka á til að ljúka lestrinum - og er hún þó ekki mikið meira en hundrað síður.
En við hverju er að búast þegar sögusviðið eru skotgrafir heimstyrjaldarinnar fyrri í Evrópu með öllum þeim hryllingi og sturlun sem skotgrafarhernaðinum fylgdi. Kannski á ekki að vera hægt að skrifa um slíkt án þess að það verði þolraun fyrir lesandann; að sú frásögn sé hreinlega ómarktæk sem ekki hrærir svo í tilfinningalífi hans að veki með honum óhug.
Ekki ætla ég hér að rekja söguþráð bókarinnar en vil þó nefna að undir lokin hættir frásögnin að vera nánast hrollvekjan ein. Það er þegar okkur er látið það eftir að fá innsýn í bakgrunn söguhetjunnar, uppvaxtar- og mótunarár hennar í Senegal og við förum fyrir bragðið að skilja margt betur í sálarlífi hennar.
Nú fer líka margt að gerast. Hinir ólíku heimar renna saman og fara síðan í sundur eftir því sem fram vindur.
Margt skýrist en um leið verður sumt óskýrara og óljósara - torræðara. Það geirst hið sama hjá lesandanum og hendir söguhetjuna sjálfa, að vita ekki fyrir víst hvað er hvað og hver er hver.
Eitt verður lesandanum ráðgáta. Það er þegar upp á vantar að skilja söguhetjuna samkvæmt hennar eigin orðum, þegar þrástagast er á orðum, endurtekning er á endurtekningu ofan um uppeldisbróðurinn sem var “svo miklu meira en bróðir”. Er þarna að koma fram menningarmunur, okkur framandi tjáningarmáti til sveita í Senegal eða er þetta ef til vill til marks um einhverja hömlun hugans? Er ef til vill í söguhetjunni einhver vísir - þó ekki sé néma örsmár - að Lennie úr Músum og mönnum, sem faldi dauðar mýs - ekki afskornar hendur eins og söguhetjan frá Senegal gerði?
Bókin er vel þýdd og í eftirmála á þýðandinn Ásdís Rósa Magnúsdóttir óbeina samræðu við höfundinn Daniel Diop um merkingu orðanna. Undir lok bókar sinnar hafði höfundur tekið þessa umræðu upp í tengslum við vanda túlks sem þurfti að þýða svör söguhetjunnar senegölsku í yfirheyrslu hjá ótilteknum fulltrúa franska kerfisins:
“Það er aldrei einfalt að þýða. Þýðandinn svindlar á jöðrunum, braskar með orðin, skiptir setningu út fyrir aðra. Þýðandinn verður að segja ósatt um aukaatriðin til þess að koma því sanna nokkurn veginn til skila. Þýðandinn tekur þá áhættu að skilja betur en aðrir að orðið býr ekki yfir einum sannleika heldur tvöföldum, jafnvel þreföldum, fjórföldum , fimmföldum.. Þýðandinn fjarlægist sannleika Guðs sem er aðeins einn, eins og við vitum öll eða teljum okkur vita.”
Ég nefndi að mér hefði komið í hug Mýs og menn, brilljant skáldsaga bandaríska rithöfundarins Johns Steinbeck. Ekki það að þeir George og Lennie, söguhetjur þeirrar bókar, væru líkir þeim Alfa og Mademba í bók Davids Diop. En hugrenningartengslin urðu engu að síður til í mínu höfði, þar sem annars vegar var hugsuðurinn og leiðtoginn og hins vegar hinn aflrenndi maður sem gat haft alla undir og síðan sálufélag þessara ólíku karaktera.
Mér varð spurn hvers vegna enski þýðandinn og sá íslenski kusu (eflaust í sammráði við höfundinn) að notast ekki við upphaflegan titil bókarinnar Frére d´ámie, “sálubróðir”. Sá titill þykir mér smellpassa. Nýi titillinn At night all blood is black, í ensku þýðingunni og Á nóttunni er allt blóð svart, í hinni íslensku, þykir mér að sumu leyti langsóttari en hefur vissulega sterka skýrskotun til inntaksins í bókinni, sam-mannlegs harmleiks af völdum stríðs óháð uppruna manna eða þjóðerni.
Í skotgrafahernaði heimstyrjaldarinnar fyrri voru fjórar milljónir drepnar þegar á fyrsta ári stríðsins.
Í eftirmála þýðanda erum við minnt á að um tvö hundruð þúsund karlmenn frá Vestur-Afríku hafi “barist fyrir Frakkland” og eflaust fáir átt afturkvæmt. Þar trúi ég að sé tengingin við blóðið.
Þessi skotgrafarhernaður er í minnum hafður því mönnum var att í dauðann samkvæmt skipunum yfirmanna sem sjálfir sátu eftir í skotgröfunum þegar þeir höfðu gefið fyrirskipanir um að sækja fram – í opinn dauðann. Þessum yfirmönnum var svo að sjálfsögðu skipað fyrir úr enn meiri fjarlægð eins og gerist í öllum stríðum.
Það þekkjum við ágætlega úr samtímanum. Ákafinn til mannfórna vex með fjarlægðinni frá blóðvellinum.
Á vígvellinum sjálfum rennur það hins vegar á endanum upp fyrir mönnum að þegar allt kemur til alls er allt blóð eins á litinn.