Fara í efni

Á OPINBERI GEIRINN AÐ LÚTA Í GRAS?

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Birtist í DV 09.06.15.
Þingmenn, einkum úr stjórnarflokkunum, þótt ekki sé það einhlítt, hafa að undanförnu látið þau orð falla að opinberi geirinn eigi að fylgja samningum sem gerðir eru á almennum vinnumarkaði. Verkfallsréttur til að knýja fram aðrar lausnir eigi varla rétt á sér.

Þekkjum þennan söng

Þetta er lag og texti sem við þekkjum orðið vel. En er boðskapur þessara söngva heillavænlegur? Er eðlilegt að almenna reglan sé sú að sá hluti atvinnulífsins sem er að finna innan veggja sjúkrahúsanna, skólanna, lögreglunnar og þjónustustofana við almenning eigi jafnan að bíða og sjá hvað úti frýs?

Þrjár fullyrðingar

Lítum á þrjár fullyrðingar sem jafnframt er ætlað að vera röksemdir fyrir þessum staðhæfingum.
1) Opinber starfsemi er ekki hluti af hinu eiginlega atvinnulífi heldur er hún á framfæri skattgreiðenda og á þar með ekki kröfu á að leggja neinar línur í kjaramálum að eigin frumkvæði.
2) Ef við viljum tryggja fulla atvinnu þá má ekki ofgera fyrirtækjum með því að þvinga þau til að greiða laun umfram raunverulega getu þeirra. Atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði hafi puttann best á púlsinum hvað varðar greiðslugetu fyrirtækja.
3) Ef litið er til þeirra landa sem Íslendingar horfa gjarnan til, Norðurlandanna, þá hefur þar víða verið smíðaður rammi sem ætlað sé að tryggja að opinberi geirinn fari ekki fram úr einkageiranum.

Andsvar númer eitt

Í ljósi þeirrar alvarlegu gagnrýni sem á undanförnum dögum hefur verið beint að verkfallshópum opinberra starfsmanna er mikilvægt að fólk taki þessar fullyrðingar til gagnrýninnar umhugsunar.
 1) Getur einstaklingur sem vinnur í fiskvinnslu, afgreiðir í búð, vinnur á dekkjaverkstæði eða við smíðar verið án þeirra sem starfa innan heilbrigðisgeirans, menntakerfis, löggæslu eða hjá þjónustustofnunum almennt? Svarið er að sjálfsögðu neitandi.  Er ekki allt þetta fólk vinnandi fólk? Að sjálfsögðu. Er þá rétt að tala um að einhver sé á framfæri annars? Myndum við ekki öll heildstætt vinnandi samfélag mikilvægrar framleiðslu og þjónustu þar sem við getum ekki án hvers annars verið? Að sjálfsögðu.

Andsvar númer tvö

Er rétt að láta fyrirtæki sem, alla vega sum hver, eru drifin áfram með það að meginmarkmiði að skapa eigendum sínum sem mestan arð, ákvarða launastigið í landinu?
Sjávarútvegsfyrirtækin sem hafa að undanförnu verið að greiða eigendum sínum milljarða arðgreiðslur hafa svarað launafólki með hortugheitum og hefði það sem þó náðist í nýgerðum kjarasamningum láglaunafólks aldrei náðst ef ekki hefði komið til skjalanna öflugur málflutningur og hótandi samstaða um aðgerðir.
Þannig hefur þetta þó alltaf verið og er kröfuleysið af hálfu launafólks ásamt óbilgirni atvinnurekenda því miður ein ástæðan fyrir lágum launum.
Mín niðurstaða er sú að það eigi ekki að vera í hendi sjálftökumanna  í atvinnurekstri , sem jafnframt eru ósvífnustu nirflar landsins þegar kemur að kjörum annarra, að ákvarða launakjör á íslenskum sjúkrahúsum. Vissulega er hægt að ofgera vanmáttugum markaðsfyrirtækjum en mér þykja dæmin sanna að á Íslandi hefur þetta ekki verið vandinn.

Andsvar númer þrjú

Vissulega er það rétt að á Norðurlöndum hefur verið reynt að smíða samningsferli sem tryggir samfellu í viðræðum og það er einnig rétt að reynt hefur verið að stuðla að því að einkageirinn ríði á vaðið vaðrandi kaupgjaldsmálin. Í þessum samanburði er þó einn mikilvægur grundvallarmunur sem verður að horfa til í þessari umræðu.
Þessi grundvallarmunur er sá að taxtalaunakerfið á Íslandi endurspeglar síður veruleikann en almennt gerist á Norðurlöndum. Ég man eftir því að hlýða á norræna atvinnurekendur mæra íslenska kerfið með lágum töxtum og miklum álagsgreiðslum, launaskriði sem svo er nefnt,  ofan á hinn umsamda taxta. Þeim þótti gott til þess að vita að Í niðursveiflum hyrfi álagið en lágmarkstaxtinn einn héldi.
Ekki þykir mér þetta vera kerfi til fyrirmyndar. Þetta veitir atvinnurekendanum vald til að ráðskast með launafólk sem í þessu kerfi nýtur launaskriðs á einstaklingsbundnum forsendum en ekki vegna þess að það eigi rétt á því.

Taxtalaun eða einstaklingslaun?

Ef menn vilja gera opinbera geirann einsog almenna markaðinn þá er verið að segja að eftirsóknarvert sé að innleiða geðþóttakerfi  inn eftir sjúkraganginum og í skólastofunni. Það væri illa ráðið.
Baráttan nú snýst því ekki einvörðungu um það hvort eigi að hækka laun viðkomandi hópa heldur á hvaða forsendum það skuli gert. Slagurinn snýst því að hluta til um taxtalaunakerfið, kerfi sem veitir  fólki ekki aðeins lágmarkstryggingu heldur rétt til sambærilegra launa og starfsbróðir og starfssystir. 
Samtök láglaunafólks tefldu fram sannfærandi rökum fyrir hækkun lágmarkstaxta fyrir nýgerða samninga. Ég hygg að sama fólki væri ekki í óþökk að tryggt yrði kerfi sem veitir kennara barna þess, hjúkrunarfræðingnum  eða sjúkraliðanum sem annast okkur veik, kjaraumhverfi sem sómi er að.

Finna þarf ásættanlega lausn

Hvað verkfallsréttinn áhrærir þá er hann öryggisventill í lýðræðisþjóðfélagi. Þegar suðumarki er náð kemur þessi ventill til skjalanna. Við fáum að vita að fólki er alvara. Það leikur sér enginn að því að svipta sjálfan sig lífsviðurværinu vikum saman í launalausu verkfalli. . Þau sem það gera eru að segja okkur að þau séu ekki reiðbúin að vinna á þeim kjörum sem í boði eru. Að sjálfögðu verðum við að taka kröfur þessa fólks alvarlega og finna lausn sem sátt getur orðið um.