Á öskuhaugum sögunnar
Íslenskt þjóðfélag er í örri þróun og eðlilega mótast hugmyndir manna og tungumálið af þjóðfélagsbreytingunum. Ekki tekst öllum einstaklingum að halda í við þennan ógnar hraða og tilheyri ég þeim hópi. Þetta fyrirbæri, að fylgja ekki samfélaginu eftir í hinni hugmynda- og menningarlegu þróun, kallast á máli félagsvísindamanna “menningarleg mishröðun”. Og hún getur valdið margvíslegum erfiðleikum hjá þeim sem fyrir henni verða.
Stökkbreyting vinstrimanna
Ég vil nefna tvö dæmi um birtingarform þessa vandamáls hjá mér. Fyrst víkur sögunni að ólgunni í hugmyndapottum íslenskra vinstrimanna sem er svo mikil nú um stundir að ég botna ekki neitt í neinu. Þannig var, að forðum tíð var auðvaldið okkar helsti óvinur. Í dag verður aftur á móti ekki betur séð en þetta hafi gjörbreyst. Nærtækast þar um er auðvitað afstaða margra vinstrimanna til fjölmiðlalaganna og gleði þeirra yfir því að geta hnekkt þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu. Svo virðist nefnilega að forsenda tjáningar- og skoðanafrelsis í landinu sé nú af fjölmörgum vinstrimönnum talin sú að auðhringar, og jafnvel bara einn, hafi fullkomið forræði yfir stórum hluta fjölmiðlamarkaðarins. Þannig er auðvaldið orðið okkar brjóstvörn og við eigum nú að fylkja liði um frelsara okkar, hina fáu og guðsútvöldu sem vita ekki aura sinna tal og stunda í krafti þess hið göfuga hugsjónastarf að tryggja lifandi lýðræði í landinu með blaðaútgáfu og á öldum ljósvakans. En fjölmiðlarekstur gefur - að sögn margnefndra vinstrimanna - stórum minna en ekki neitt í aðra hönd og verður því aðeins stundaður í formi góðgerða á vegum Íslands athafnaskálda, eins og peningamennirnir kallast nú. Þessar stökkbreytingar í hugmyndafræðinni á vinstri vængnum, einkum og sér í lagi í röðum Samfylkingarmanna, hafa kostað mig erfið heilabrot og ómælda hausverki. Ég skil ekki þróunina en það er ekkert skrýtið. Ég þjáist nefnilega af menningarlegri mishröðun.
Og íslensk tunga breytist líka
Þá vil ég taka dæmi af því hvernig tungumálið hefur mótast af hinni öru þróun þjóðfélagsins. Íslenskan hefur á ýmsum sviðum breyst svo hratt að hinir mætustu menn hafa lent í dómstólaveseni vegna rangrar hugtakanotkunar. Ekki fyrir svo mörgum árum var t.d. óspart talað um skattsvik og skattsvikara og var það hugtak notað um menn sem reyndu að skjóta sér undan að greiða þau gjöld til samfélagsins sem þeim bar. En nú heyra skattsvikin, sem ég er enn vel að merkja fastur í og nota í tíma og ótíma, sögunni til. Nú er talað um áætlaða “skattakvöð vegna hugsanlegra skattbreytinga” eins og segir til að mynda í Fréttablaðinu 12. júní s.l. En í fréttinni kemur skýrt fram að Baugur Grúbb er ábyrgt fyrirtæki sem þegar er farið að leggja fyrir vegna “hugsanlegra skattakvaða vegna hugsanlegra skattbreytinga” og auðvitað þrátt fyrir meint sakleysi. Ólíkt er nú bragurinn á þessu orðalagi snyrtilegri og menningarlegri þótt mikið skorti upp á skilning minn að öðru leyti. En ef svo vel vill til að ég skilji þetta rétt þá mun Jón Ólafsson, fyrrverandi eigandi Norðurljósa, að líkindum bera sæmdarheitið “síðasti skattsvikarinn” og marka sér þannig öruggan bás í hinni sívinsælu Íslandssögu sem allt of margir vilja troða sér í með góðu eða illu, undir fullu nafni og helst með mynd.
Og þó. Í ljósi nýjustu tíðinda getur Jón Ólafsson engan veginn talist 100% öruggur með sérstaka rammagrein um sig í Íslandssögunni og getur hann þar sjálfum sér um kennt því það var jú hann sjálfur sem stefndi Davíð Oddssyni forsætisráðherra fyrir dómstólana. Það gerðist nefnilega hinn 14. júní s.l. að umsögn Davíðs um Jón og meint skattsvik hans voru dæmd dauð og ómerk í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ummælin féllu í nóvember í fyrra þegar Jón seldi fjölmiðla- og hugsjónafyrirtæki sitt, Norðurljós, með meiru. En af því tilefni sagði forsætisráðherra í viðtali við RÚV: “Og maður hefur þá tilfinningu að þar með [með því að selja allar eignir sínar hér á landi] sé auðvelt að skjóta undan fjármunum þannig að ríkisvaldið eigi miklu erfiðara ef að skattaálagning verður í samræmi við skattrannsókn að ná til sín þeim fjármunum sem þarna eru á ferðinni. Þetta hafði allt þann brag að þarna væri verið að kaupa og selja þýfi í mínum huga.” Hefði forsætisráðherra hins vegar talað um “kaup og sölu á hugsanlegum skattakvöðum vegna hugsanlegra skattbreytinga” hefði enginn haft neitt við orð hans að athuga. Og ummæli ráðherrans af sama tilefni í Morgunblaðinu í nóvember í fyrra voru einnig dæmd dauð og ómerk og er það sýnu alvarlegra fyrir mögulegan sess Jóns í Íslandssögubókum framtíðarinnar. En í viðtalinu við Morgunblaðið sagði Davíð: “Þann sama dag sem ríkisskattrannsóknarstjóri skilar af sér rannsókn sem snýst um grunsemdir að það blasi við að maður nokkur sé mesti skattsvikari Íslandssögunnar stendur þessi banki [KB] fyrir því að losa hans eignir héðan.” Þetta var dæmt dautt og ómerkt og hljóta allir vel meinandi sagnfræðingar að taka mið af því.
Grafalvarleg staða
Það eru sem sagt fleiri en ég sem hafa breyst í nátttröll í sífrjóum og ólgandi hugmyndaheimi samtímans og lent í vandræðum af þeim sökum. Þar á meðal er greinilega forsætisráðherra landsins en það breytir svo sem litlu fyrir hann – hann ætlar hvort sem er að setjast í helgan stein í haust. Fyrir mig er staðan hins vegar slæm. Á undanförnum misserum hef ég verið að stíga mín fyrstu skref í pólitíkinni og hef ætlað mér stóra hluti. En draumarnir þar um, sem og draumurinn stóri um sérstaka rammagrein um sjálfan mig í Íslandssögubæklingum framtíðarinnar, eru að breytast í ömurlega martröð. Loksins er mér það ljóst að vegna menningarlegrar mishröðunar stefni ég hraðbyri á öskuhauga sögunnar og get engum um kennt nema sjálfum mér. Vissulega er erfitt að kyngja því og þung spor að koma svona óforvarendis út úr skápnum. En auðvitað verður maður taka því sem að höndum ber, standa fast á sínu og reyna að halda sínu striki - hér eftir sem hingað til.
Þjóðólfur