Á RÍKISÚTVARPIÐ AÐ VERA ÞJÓNUSTUSTOFNUN EÐA FJÁRFESTINGAFYRIRTÆKI?
Birtist í Blaðinu 22.04.06.
Ríkisútvarpið sinnir margvíslegu menningarlegu og þjónustutengdu hlutverki. Til þess að rækja hlutverk sitt fær Ríkisútvarpið tekjur af auglýsingum og lögbundnu afnotagjaldi. Tilverugrundvöllur Ríkisútvarps er að sinna verkefnum sem ella yrði ekki sinnt. Jafnframt ætlumst við til þess að Ríkisútvarpið hafi á boðstólum fjölbreytt efni, sem höfðar til allrar þjóðarinnar. Til þess að varðveita víðtæka sátt um slíka stofnun þarf að rata veg sem stundum er vandrataður. Hversu langt á að ganga í samkeppni við aðrar stöðvar, hversu ágengur á miðill með lögbundnar tekjur að gerast á auglýsingamarkaði? Það er af sem áður var þegar Ríkisútvarpið var eitt um hituna. Nú er barist um bitana.
Ríkisútvarpið hefur mikið frelsi til athafna og hefur á ýmsum sviðum nýtt það vel þótt ekki hafi stjórnendur alltaf verið látnir njóta sannmælis fyrir það sem vel hefur verið gert. Ég nefni, RÚV-vefinn og textavarpið og þegar litið er til lengri tíma, þróun svæðisútvarpsstöðva. Þá er ómótmælanlegt að margt í dagskrá er í mjög háum gæðaflokki. Horfi ég þar ekki síst til gömlu Gufunnar, sem svo aftur nýtur góðs af auglýsingatekjum annarra deilda.
Engin fyrirstaða gegn breytingum
Allflestar þær breytingar sem gerðar hafa verið í rekstri Ríkisútvarpsins á liðnum árum og áratugum hafa verið runnar undan rifjum innanbúðarmanna og framkvæmdar af þeim án nokkurrar utanaðakomandi fyrirstöðu enda slíkt gerlegt í svokallaðri B-hluta ríkisstofnun. Slíkar stofnanir hafa meira svigrúm en A-hlutastofnanir. Rás 2 var sett á laggirnar samkvæmt ákvörðun þáverandi útvarpsstjóra, Andrésar Björnssonar. Svo einfalt var það.
Óskiljanlegt er tal menntamálaráðherrans, útvarpsstjórans og formanns menntamálanefndar, að Ríkisútvarpinu þurfi að búa enn meira svigrúm til athafna en nú er. Aðeins eina skýringu kann ég á þessu og hún er sú, að Ríkisútvarpinu sé ætlað að verða umsvifamikið á fjárfestingarmarkaði, líkt og gerðist hjá Landssímanum eftir að hann var gerður að hlutafélagi. Hann var fyrr en varði kominn út í fjárfestingar í aðskiljanlegum rekstri, með mjög umdeilanlegum afleiðingum vel að merkja.
Við höfum líka séð þróun í fjárfestingum og eignarhaldi gamalgróinna fyrirtækkja, sem orðið hafa fjárfestingarspekúlsjónum að bráð. Einu sinni var til Eimskipafélag Íslands, Óskabbarn þjóðarinnar, sem þjóðin gaf peninga til - Vestur-Íslendingar stórar fúlgur - til að halda uppi samgöngum við Ísland. Svipaða hetjusögu er að segja af Flugfélagi Íslands. Þetta er löngu liðin tíð. Eigendur slíkra fyrirtækja vilja ekkert kannast við félagslegar skyldur sínar. Nú eru þeir bara fjárfestingargrúppur á markaði, sem eiga sér þann tilgang einan að maka sinn krók. Koma síðan gjarnan fram í gervi Móður Theresu, læknandi og líknandi og gefandi ölmusur.
Fjarlægjum vandamálin
Er það inn í þennan heim sem Ríkisútvarpinu er stefnt? Ef ekki, þá vil ég fá að vita hvað það er sem Ríkisútvarpið getur ekki gert undir núverandi löggjöf en þarf nú bráðnauðsynlega að fá svigrúm til að gera? Er nálægðin við hið pólitíska vald vandamálið? Varla, því með núverandi löggjöf er á mótsagnakenndan hátt gert tvennt í senn, útvarpsstjóra veitt alræðisvald um mannaráðningar og framkvæmd dagskrár og hert á hinum pólitísku tengslum. Og ef pólitísku tengslin vefajst fyrir mönnum, hvers vegna ekki draga úr þeim? Ef