Á SLÓÐUM GUÐRÍÐAR ÞORBJARNARDÓTTUR
Reichenau er eyja sem gengur út í Bodensee vatnið, ekki langt frá borginni Konstanz sem er við landamæri Þýskalands og Sviss.
Reichenau er kölluð eyja þótt hún sé landföst við meginlandið. Aðeins örgrannt eiði tengir eyju og land. Þarna er að finna þrjár ævagamlar kirkjur og þeim tengd voru klaustur einnig á fyrri tíð. Elsta kirkjan er frá áttundu öld en hinar tvær voru einnig byggðar mjög skömmu síðar og er þá að vísu hugsað í öldum.
Mjög fróðlegt var að skoða þessar gömlu byggingar, málaða veggi sem varðveist hafa í yfir þúsund ára sögu. En sagan hefur einnig upp á enn meira að bjóða, nefnilega arfleifð svokallaðra “suðurferða” fyrr á öldum, en það voru pílagrímaferðir suður á bóginn einkum til Rómar.
Í klaustri á Reichenau – miklu menningar- og fræðasetri - var að finna gestabók með nöfnum pílagríma sem þarna höfðu viðdvöl. Gestabókin er ekki lengur varðveitt á Reichenau heldur í Zürich í Sviss en sú borg er ekki langt undan.
Í gestabókinni mun ekki vera að finna nafn Guðríðar Þorbjarnardóttur, sennilega víðförulsta Íslendings til forna, en í Grænlendingasögu segir að hún hafi farið til Rómar með viðdvöl í Reichenau. Nöfn þrjátíu og níu Íslendinga er hins vegar að finna í gestabókinni. Svo er alla vega talið en nöfnin eru skírnarnöfn og gætu verið nöfn annarra norrænna manna en Íslendinga. Hitt er þó vitað að fjöldi Íslendinga var í þessum ferðum á Miðöldum og merkilegt hve vel tengdir þeir voru mennigarstraumum álfunnar.
(Í byggingunni hér að ofan réðu kirkjunnar menn ráðum sínum 1414-18)
Á ýmsu gekk innan kaþólsku kirkunnar á Miðöldum. Á árabilinu 1378 til 1417 var ekki samkomulag um einn páfa í Rómersk kaþólsku kirkjunni og árið 1410 voru þeir orðnir þrír sem ekki viðukenndu hver annan og ekki nóg með það heldur bannfærðu þeir hver annan.
Kirkjuþingi í Konstanz, sem haldið var 1414 til 1418, var ætlað að binda enda á þessar deilur og tókst það þannig að frá 1417 var páfunum fækkað úr þremur í einn. Um sitthvað annað var vélað, yfirráð hins veraldlega valds yfir löndum og þótt páfar bannfræðu ekki lengur hver annan þá héldu þeir áfram að bannfæra, þar á með John Wycliffe, Jan Hus og fleiri sem voru eins konar forboðar Luthers öld síðar. Wycliffe var prófessor í Oxford, áhrifamikill gagnrýninn guðfræðingur, sem þótti ekki fylgja réttri línu og Jan Hus var rektor háskólans í Prag en um hann og kenningar hans myndaðist öflug hreyfing. Jan Hus var boðaður á kirkjuþingið í Kostanz og heitið friðhelgi, sem þó hélt ekki betur en svo að ályktað var “að kirkja Guðs gæti ekkert meira aðhafst í hans máli og yrðu því veraldlegir dómstólar að ráða örlögum hans til lykta.” Niðurstaðan varð síðan dauðadómur. Einn fylgjenda hans, Jerome frá Prag, einnig guðfræðingur og prófessor vildi tala máli Hus en var fyrir vikið einnig dæmdur til dauða og brenndur á báli í Konstanz árið 1416, árið eftir að Hus var hjálpað að kveðja þennan heim. Þannig að þeir félagar báðir fengu að kynnast guðrækni að hætti kirkjuþingsins í Konstanz!
Margt annað um krikjuþingið í Konstanz er að finna. Þetta hefur verið gríðarlega mikill viðburður enda sóttu sex hundruð fulltrúar það. Íbúafjöldi Konstanz er sagður hafa verið sex þúsund manns en hafi fjölgað tímabundið í sjötíu þúsund. Álag á innviði, eins og það heitir nú, hefur því ekki verið lítið.
Í Konstanz er merkilegt gamalt leikhús sem stöðugt gengur í endurnýjun lífdagnna, sífellt róttækt og leitandi - um of að mati hinna íhaldssamari. Sláandi dæmi þar um er að einhvern tímann ekki alls fyrir löngu var sett upp leikrit um ofsóknir nasista á hendur gyðingum. Þeir sem voru reiðubúnir að koma fyrir sjónir sem fórnarlömd áttu að mæta með gyðingastjörnu. Það fylgdi með að þeir yrðu að borga aðgangseyri. Hinir áttu að merkja sig sem nastista með hakakross. Þeir áttu að fá frítt inn. Þetta var gagnrýnt mjög og því horfið frá þessu. En beitt var þetta, ekki síst eftir að í ljós kom að ýmsir voru tilbúnir að merkja sig að nasista sið til að sleppa við að borga. Skuggaleg skilaboð!