Á ÞRÖNGUM SVEITAVEGUM OG Á DRÓNASÝNINGU
Í vikunni hef ég verið á ferð á svæðinu við Bodensee í Baden-Württemberg í Suður-Þýskalandi. Þetta er mjög skemmtilegt svæði, merki um rótgróna menningu Mið-Evrópu hvarvetna að sjá – og landið yndislegt, tindar Alpanna víða sýnilegir, akrar, skóglendi, hæðótt land og slétt ber fyrir augu þegar ekið er um glettilega mjóa sveitavegina. Þegar umferðin var mikil hægði á henni þannig að bílalestirnar siluðust áfram. Svo rættist úr og hraðinn varð skaplegur. Svipað og á íslenskum vegum, hægagangur á almestu annatímum en síðan greiðfært.
Ég ákvað að segja engum frá þeim Jóni Gunnarssyni fyrrum samgönguráðherra og Sigurði Inga núverandi samgönguráðherra sem eiga lausn á tímabundnum hægagangi á vegum. Rukka vegfarendur og nota peninginn til að breikka vegina um helming. Held reyndar að á Bodensee svæðinu finnist fólki nóg komið af hraðbrautum. Enda veit fólk að vegagerð er hönnun á landi og skynjun okkar á því ræðast af sjónarhorninu. Land lítur með öðrum orðum öðru vísi út á reglustiku hraðbraut en bugðóttum vegi sem lagar sig að landinu. Það þarf að fjölga umhverfishönnuðum hjá vegagerðinni okkar.
Eftir þessum bugðóttu vegum ókum við einn daginn til Friedrichshafen. Þar var sitt hvað að sjá. Merkilegt þótti mér að koma á Zeppelin safnið. Þar mátti sjá sögu Zeppelin loftfaranna sem hönnuð voru og smíðuð á þessum slóðum fyrir rúmri öld. Forsprakkinn var Zeppelin greifi, sem reyndist flestum mönnum fremri að hugmyndaauðgi. Í safninu gekk maður inn í eftirlíkingu af loftfari en þau voru gríðarmikil að umfangi – 245 metrar að lengd þau stærstu. Síðasta millilandaflugið var 1937 til Bandaríkjanna en við flugtak í New York varð sprenging í farinu sem þar með sprengdi út af borðinu drauma um þennan samgöngumáta. Þess má geta að ferðalagið yfir Atlantshafið tók sinn tíma – fimm daga og nætur. Allt þetta lærði maður á þessu fróðlega safni.
En þar var líka önnur sýning – tímabundið. Hún fjallaði um dróna og þá ekki síst hvernir þeir hafa verið notaðir til hernaðar og njósna. Þar hefur bandaríska leyniþjónustan, CIA, gegnt lykilhlutverki. Það merkilegasta við þessa sýningu voru skýringartextarnir, hve opinskáir þeir voru um morðin sem framin hafa verið með þessum viðbjóðslegu drápstækjum. Þar fengum við að vita að ákvörðunarvald um hvert drónunum skyldi beitt væri jafnan á borði Bandaríkjaforseta. Þetta hefur vissulega verið sagt áður en maður er hins vegar óvanur því að talað sé opinskátt um illvirki bandamanna okkar í NATÓ. Hvað þá að sýna fram á að forseti forysturíkisins beri persónulega ábyrgð á að myrða börn og óbreytta borgara. Þetta gerðu þau nú samt á drónasýningunni í Friedrichshafen. Þökk sé þeim.