ÁBENDINGAR FRÁ LANDSSAMBANDI LÖGREGLUMANNA
Að undanförnu hafa borist fréttir af erfiðleikum við að manna störf innan almannaþjónustunnar. Mest hefur farið fyrir fréttum af slíkum vandkvæðum innan heilbrigðis- og félagsþjónustu. Hið sama er uppi á teningnum í skólakerfinu. Í gær voru síðan fréttir um mikinn mönnunarvanda innan löggæslunnar. Í Fréttablaðinu var sagt frá því að fimm lögreglumenn hafi sagt upp störfum í síðustu viku og hefðu þar með 35 sagt upp frá síðustu áramótum. Fram kemur í viðtali við formann Landssambands lögreglumanna, Svein Ingiberg Magnússon, af þessu tilefni að ekki sé einvörðungu um yngri menn að ræða heldur einnig menn sem hafi lengi verið í starfi. Segir hann að með þessu glatist mikil reynsla úr stéttinni og lýsir jafnframt áhyggjum yfir því að ófaglærðum lögreglumönnum fjölgi á kostnað faglærðra. Formaður LL segir ennfremur:“Tölur segja okkur að þetta er miklu meira brotthvarf það sem af er þessu ári, en hefur verið á heilum árum þar á undan. Okkur þykir horfa til þess að stefnt gæti í óefni haldi þessi þróun áfram.”
En hverjar eru skýringarnar að mati formanns LL á þessu brotthvarfi úr löggæslunni. Fréttablaðið hefur eftir honum þrjár meginástæður sem hann telur valda þessu: Í fyrsta lagi of lág laun. Í öðru lagi álag í starfi og í þriðja lagi almennt góðæri. Það þýði að lögreglumenn eigi iðulega kost á að fara í önnur betur launuð störf.
Þetta eru að mínu mati réttar ábendingar og ættu að verða viðsemjendum Landsambands lögreglumanna og annarra stétta innan almannaþónustunnar umhugsunarefni.