Fara í efni

Ábyrgð Ingibjargar Sólrúnar

Ljótar eru aðfarirnar gegn borgarstjóra. Verst finnst mér hræsnisslepjan hjá Ingibjörgu S. Gísladóttur. Hún vill fá kallinn út með góðu því ef borgarfulltrúarnir verða að grípa til þess að segja honum hreinlega upp þá gæti Þórólfur brugðið sér í gervi lævirkjans og farið að syngja, og gæti kannski sungið um ýmislegt sem Ingibjörgu kemur ekki vel. Það var nefnilega þannig að þegar Ingibjörg réði Þórólf sagði hann henni sjálfur frá því að hann væri í rannsókn Samkeppnisstofnunar vegna meintrar aðildar hans að samráðinu. Hún vissi því af áhættunni og þetta sagði Þórólfur henni til að hún gæti metið áhættuna af því að ráða hann. Hún hefði getað leitað til manna einsog Ragnars Aðalsteinssonar hrl., eða leitað óformlega ráða hjá Samkeppnisstofnun. Ingibjörg Sólrún klúðraði hvorutveggja. Hún sagði ekki einu sinni samstarfsfélögunum í borgarstjórn frá þessu. Hvorki VG né Framsókn vissu því af því að borgarstjóri hafði réttarstöðu grunaðs manns þegar hann var ráðinn. Ingibjörg á eftir að útskýra þau feykilegu mistök sem fólust í því að hún treysti engum öðrum fyrir upplýsingum Þórólfs, og brást sjálfstæðri rannsóknarskyldu sinni sem stjórnmálamanns sem er að ráða jafn háttsettan embættismann og borgarstjóra. Hún ber því meiri ábyrgð á því að þessi leið sé farin en aðrir og á að segja af sér sem borgarfulltrúi.
MT